Sigtryggur Sigtryggsson
sisi@mbl.is
Borgarráð samþykkti á fundi sínum á fimmtudaginn drög að samkomulagi á milli Knattspyrnufélags Reykjavíkur og Reykjavíkurborgar. Samkomulagið felur í sér uppbyggingu á svæði KR við Frostaskjól auk þátttöku borgarinnar í byggingu nýs fjölnota íþróttahúss, knatthúss.
Er þessi samþykkt með vísan til samþykktar borgarráðs 3. september 2020 um forgangsröðun íþróttamannvirkja í borginni, sem höfð yrðu til hliðsjónar í fjárfestingaráætlun til ársins 2030. Þar var svæði KR-inga framarlega.
Gylfi Dalmann Aðalsteinsson formaður KR og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri skrifuðu í hádeginu á fimmtudaginn undir samning um samkomulag vegna fyrirhugaðrar uppbyggingar á KR-svæðinu þar með talið byggingu fjölnota knatthúss. Einnig verður unnið að breytingu á heildarskipulagi KR-svæðisins í Frostaskjóli.
Stjórn KR hefur kynnt opinberlega mikla uppbyggingu á svæðinu í framtíðinni, þar sem verða íþróttamannvirki, þjónustustarfsemi af margvíslegum toga og íbúðir.
„Tilkoma fjölnota knatthúss mun gerbylta allri aðstöðu og starfsemi á KR-svæðinu. Samningur þessi byggir á mikilli skipulags- og hugmyndavinnu sem forsvarsmenn KR hafa unnið með arkitektunum Bjarna Snæbjörnssyni, Snædísi Bjarnadóttur og Páli Gunnlaugssyni síðustu ár. Það er ljóst að þessi samningur er mikil lyftistöng fyrir allt íþrótta- og félagsstarf í Vesturbænum og telst til stærri áfanga í 122 ára sögu félagsins,“ segir meðal annars í frétt á heimasíðu KR.
Síðasta embættisverk Gylfa
Undirritun samningsins var síðasta verk Gylfa Dalmanns sem formaður KR. Hann lét af embætti á aðalfundi á fimmtudagskvöld, eftir átta ára starf. Lúðvík S. Georgsson var kjörinn formaður KR á aðalfundinum. Lúðvík hefur starfað fyrir KR í áratugi og verið í stjórn KSÍ.Þá samþykkti borgarráð á sama fundi að ráðist verði í endurbætur á aðalvelli Þróttar og gerð á nýjum gervigrasvelli í Laugardal í samræmi við bréf sviðsstjóra íþrótta- og tómstundasviðs Reykjavíkurborgar til borgarstjóra, dags. 29. apríl sl. Þetta er í samræmi við samþykkt borgarráðs frá 18. febrúar sl. og niðurstöðu sameiginlegs starfshóps Reykjavíkurborgar, Þróttar og Ármanns.
Fjármála- og áhættustýringarsviði verði falið að útbúa viðauka vegna breytinganna með tilfærslum innan gildandi áætlunar og leggja fyrir borgarráð til samþykktar. Fulltrúar meirihlutaflokkanna í borgarráði bókuðu að Þróttur væri með eina fjölmennustu knattspyrnudeild landsins og mikilvægt væri að búa vel að iðkendum með góðri aðstöðu. Þá röðuðust íþróttamannvirki í Laugardal efst á lista í forgangsröðun íþróttamannvirkja.
Þróttarar hafa um nokkra hríð kvartað yfir óviðunandi æfingaaðstöðu í Laugardalnum. „Vetraraðstaða knattspyrnumanna og -kvenna í Þrótti sé vægast sagt ömurleg. Yfir 1.000 iðkendur deila lélegu, útslitnu gervigrasi, einum velli með ónýtum hitalögnum,“ sagði m.a. í grein formannsins, Finnboga Hilmarssonar, sem birtist í jólablaði félagsins í desember sl.