Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála felldi úr gildi rekstrarleyfi Laxa eignarhaldsfélags ehf. fyrir kynslóðaskiptu sjókvíaeldi á laxi með 10 þúsund tonna hámarkslífmassa í Reyðarfirði.
Kærandi veitingar leyfisins var fyrst Landssamband veiðifélaga, en síðar bættust við kærur frá Náttúruverndarsamtökum Íslands, Náttúruverndarsamtökunum Laxinn lifi og veiðifélögum Breiðdælinga, Hofsár, Sunnandalsár, Selár og Vesturdalsár.
Úrskurðaði nefndin að Matvælastofnun hefði ekki lagt álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum til grundvallar leyfinu þar sem Matvælastofnun skilyrti leyfið við lágmarksstærð seiða um 56 grömm í stað 200 gramma.
„Kannaði Matvælastofnun ekki með fullnægjandi hætti hvort sú breyting gæti haft áhrif, en það var forsenda þess að stofnunin gæti tekið ákvörðun um að víkja frá eða breyta því skilyrði sem lagt var til af hálfu Skipulagsstofnunar,“ segir í úrskurði nefndarinnar. Þrír nefndarmenn skrifa undir úrskurðinn en tveir nefndarmenn skiluðu séráliti. karitas@mbl.is