Verndun hálendisins er eitt stærsta mál þjóðarinnar.

Gamall draugur er að vakna til lífs á ný. Hann er sá að malbika eigi vegarslóða á hálendinu og byggja þá upp. Þetta væru grundvallarmistök og óskiljanleg á sama tíma og fyrir liggur í þinginu frumvarp um þjóðgarð á hálendinu og þar með friðun þess.

Malbikuðum vegum mundu fylgja benzínstöðvar og sjoppur og þar með eyðilegging hálendisins og í kjölfarið mundu svo fylgja aðrar framkvæmdir. Þetta má ekki verða. Um þetta rifumst við Halldór Blöndal, fyrrverandi ráðherra og forseti Alþingis, á fundi sjálfstæðismanna á Akureyri fyrir allmörgum árum. Ég átti mér fáa stuðningsmenn á fundinum. Það var áður en ferðamennskan hingað brast á.

Hálendið er orðið ígildi fiskimiðanna. Hin ósnortnu víðerni þessa lands eru orðin bein tekjulind fyrir okkur. Það væri fáránleg ráðstöfun að eyðileggja þá tekjulind og ræna ófæddar kynslóðir þeirri náttúrufegurð.

Við eyðileggjum ekki fiskimiðin. Við verndum þau. Með sama hætti eigum við að læra að vernda auðlindina í óbyggðum landsins.

Þá kann einhver að spyrja hvort ekki megi virkja meira á hálendinu og svarið er nei. Við högnumst meira á því að vernda náttúruna en eyðileggja hana.

Einhverjir flokksbræður mínir munu segja: Hann talar eins og vinstrimaður. Þeim ráðlegg ég að kynna sér málflutning Birgis Kjarans fyrir 60 árum eða svo. Hann var þingmaður Sjálfstæðisflokksins og fyrsti maðurinn til að setja náttúruvernd á hina pólitísku dagskrá hér. Sjálfstæðisflokkurinn hefði strax þá átt að gera hugsjónir hans og málflutning að sínum. Það er ekki of seint nú.

Í fréttum RÚV fyrir viku var talið að litlar líkur væru á því að hálendisfrumvarpið yrði samþykkt á þessu þingi vegna andstöðu í þingflokkum Framsóknar og Sjálfstæðisflokks. Málið er í stjórnarsáttmálanum og þess vegna jafngilti það broti á þeim sáttmála ef slíkt gerðist. Flokkarnir tveir færu varlega í slíkt.

Að heykjast á friðun hálendisins nú jafngilti því að við hefðum gefist upp við verndun fiskistofnanna.

Óbyggðir Íslands, hvort sem er á hálendinu eða á norðanverðum Vestfjörðum, eru hluti af auðlindum þessarar þjóðar og við eigum að umgangast þær sem slíkar.

Þeir sem vilja malbika hálendið eru að tala fyrir einhverri forneskju. Þeir eru talsmenn sjónarmiða liðins tíma.

Þegar Búrfellsvirkjun varð til voru það hugsjónir Einars Ben. sem réðu ríkjum. Það getum við staðfest, litlu strákarnir, sem fengum að fylgjast með samtölum þeirra Jóhannesar Nordals og Eyjólfs Konráðs Jónssonar á þeim tíma. Nú er hægt að hafa tekjur af hálendinu án þess að leggja í fjárfestingar og framkvæmdir.

Mesti baráttumaður fyrir ferðaþjónustu á þeim tíma sem atvinnugrein var Sigurður Magnússon, þá blaðafulltrúi Loftleiða, en fáir hlustuðu á hann þá. Það eru margir sem hafa komið við þessa sögu, bæði skáld og aðrir. En nú er alveg ljóst hver niðurstaðan er. Við eigum tvær meiri háttar auðlindir. Þær eru fiskimiðin og náttúra landsins. Sú þriðja er saga þjóðarinnar og menning.

Þingmenn tveggja elztu stjórnmálaflokka þjóðarinnar eiga ekki að láta standa sig að þeirri skammsýni og þröngsýni að það verði þeirra verk að koma í veg fyrir verndun óbyggðanna. Það yrði þeim til ævarandi skammar og flokkum þeirra.

Náttúruvernd er málefni sem hefur tekið langan tíma að ná eyrum almennings. Það er ekki sízt ungt fólk sem hefur verið þar í fararbroddi. Þingmenn sem kæmu í veg fyrir friðun hálendisins og flokkar þeirra væru með því að lýsa sjálfum sér sem fulltrúum liðins tíma. Nafn Birgis Kjarans mun lifa sem þingmannsins sem var langt á undan sinni samtíð. Nöfn þeirra þingmanna sem koma í veg fyrir friðun hálendisins munu gleymast af því að fólk vill gleyma þeim.

Andstaðan við friðun hálendisins virðist einna helzt koma frá fulltrúum í sveitarstjórnum sem eiga land í námunda við hálendið. Það er erfitt að skilja það. Friðun þess mun ekki hafa af þeim og íbúum þeirra tekjur heldur stórauka þær. Sú er reynsla í öðrum löndum af nábýli við þjóðgarða og augljóst að það sama mun gerast hér.

Samstarf núverandi stjórnarflokka hefur gengið vel og farsælast fyrir þjóðina að því yrði haldið áfram. Fyrir nokkrum mánuðum komu fram vísbendingar um að Framsókn væri farin að horfa til vinstri, sem hefur verið fastur liður í sögu flokksins. En það er alveg ljóst að VG mundi ekki fyrirgefa það ef ekki yrði staðið við samkomulag um þjóðgarð á hálendinu.

Það má vel vera að einhverjir þingmenn séu orðnir svo vanir því að ráða að þeir skilji þetta ekki. Slíkt skilningsleysi er einn helzti fylgifiskur langvarandi valda. Og kannski læra menn aldrei nema með skyndilegum valdamissi.

Verndun hálendisins er eitt af stærstu málum þjóðarinnar um þessar mundir. Og nýtur fylgis í öllum flokkum. Innan Sjálfstæðisflokksins eru það ekki bara gamlir lærisveinar Birgis Kjarans sem styðja málið heldur líka yngra fólk sem hefur sífellt sterkari tilfinningu fyrir náttúru landsins.

Sá hópur innan flokksins mundi ekki taka vel því glapræði sem andstaða við hálendisfrumvarpið væri. Og Sjálfstæðisflokkurinn má ekki við frekari uppákomum en orðið er.

Sl. sumar lögðu margir af yngri kynslóðum leið sína inn í óbyggðir og hrifust eins og allir sem það hafa gert. Þetta sama fólk getur varla beðið eftir að komast aftur.

Hálendið heillar.

Styrmir Gunnarsson styrmir@styrmir.is

Höf.: Styrmir Gunnarsson styrmir@styrmir.is