Hörður Agnar Kristjánsson fæddist 26. apríl 1936. Hann lést 9. maí 2021.
Útför Harðar var 18. maí 2021.
Öðlingur sem snerti strengi í hjörtum okkar sem tengdumst honum fjölskylduböndum er fallinn frá. Fyrstu minningar um hann tengjast heimsóknum vestur, vestur í Stykkishólm á heimili þeirra Birnu frænku okkar. Allir voru velkomnir í húsið til þeirra sem hann hafði byggt fyrir fjölskylduna, bjart, nútímalegt og rúmgott. Hörður var glaðvær, heilsaði alltaf með brosi.
Seinna eftir að Herði hafði verið falið nýtt starf í Reykjavík tengjast fleiri minningar heimsóknum þeirra Birnu og Harðar á Nýbýlaveg til foreldra okkar á sjöunda og áttunda áratugum. Hörður hafði hannað innréttingarnar, meðal annars eldhúsinnréttinguna með rúmgóðum eldhúskrók. Þar var kringlótt borð sem alltaf mátti bæta við einum stól þegar glatt var á hjalla. Hörður var sérlega útsjónarsamur, fylgdist vel með nýjungum og kom hugmyndum sínum í framkvæmd. Móðir okkar kunni vel að meta þær sem voru til að bæta vinnuumhverfið í eldhúsinu. Til dæmis var bakarofninn í augnhæð, neðri skápur geymdi hrærivélina á þar til gerðu útdraganlegu lyftiborði og við hliðina á ruslaskápnum var mjó en há skúffa með slá fyrir viskustykkin og hillu fyrir uppþvottalöginn.
Húsasmíðameistaranum Herði var fleira til lista lagt. Hann kunni ekki aðeins að hanna og smíða, heldur var hann einnig listfengur. Allt lék í höndum hans, hvort sem hann var að sníða, skera, skrifa, teikna eða mála. Í fjölskyldunni eru málverk, lampar og ýmsir aðrir hlutir sem hann skapaði, gjafir til okkar sem allir bera vott um framúrskarandi handbragð. Hörður var einstaklega bóngóður og örlátur á hjálp og ráð um allt sem hús, viðhald og viðgerðir snerti.
Hörður og Birna voru nánir vinir foreldra okkar. Fjölskyldurnar ferðuðust saman, fyrst um landið okkar. Við í Skoda og með tjald en þau í „rúgbrauðinu“. Eftir að börnin voru flogin úr hreiðrunum ferðuðust þau einnig saman erlendis.
Okkur þótti afar vænt um að þau Hörður komu og fögnuðu með okkur á lengsta degi síðasta árs, þegar faðir okkar hefði orðið 100 ára. Hörður var brosmildur og glaðsinna að vanda. Hann kemur okkur í hug þegar góðs manns er getið, af minningu hans stafar hlýju, birtu og gleði. Við sendum Birnu frænku okkar, sonum þeirra Bjarna Lárusi, Kristjáni og fjölskyldum þeirra hugheilar samúðarkveðjur.
Sigríður Ella, Bjarni Pétur og Sigrún Kristín
Magnúsar- og Pollubörn.
Heimili Harðar og Birnu var rómað fyrir gestrisni, sem engin takmörk hafði, þau voru samhent í öllu og studdu hvort annað í blíðu og stríðu. Það var í senn aðdáanlegt og lærdómsríkt, í miklum veikindum þeirra beggja síðustu árin, að verða vitni að því hvernig þau, hönd í hönd, tóku mótlætinu. Baráttuna skyldi heyja með bjartsýni og hressu viðmóti að vopni. Í heimsóknum til Harðar og Birnu, eftir að þau fluttu suður, kom ávallt í ljós hvaða sess Hólmurinn átti í huga þeirra og þau ræktuðu tengslin vel. Fólkið þeirra hefur alltaf haldið vel saman, og sótt styrk hvert frá öðru, en sjálf voru Hörður og Birna í aðalhlutverki á þessu sviði.
Í minningunni voru árin fyrir vestan skemmtileg í stórum hópi ættingja og vina, þar stofnuðu þau heimili sitt og byggðu sér, kornung, glæsilegt einbýlishús sem Hörður teiknaði sjálfur. Það kom fáum á óvart að Hörður legði smíðarnar fyrir sig, völundargenin bönkuðu upp á og hæg voru heimatökin þar sem faðir hans og bróðir höfðu félagsskap um smíðar og verkstæðisskúrinn á lóðinni þeirra, og reynslubankinn efldist við smíðar af ýmsum toga.
Þarna varð síðar til Trésmiðjan Ösp þar sem Hörður var einn stofnenda og lykilmaður fyrirtækisins. Eitt af stóru verkum Asparinnar var bygging Laugargerðisskóla, en þar var Hörður eftirlitsmaður og byggingastjóri alls verksins. Skipulagt verklag hans og lempni féll vel að slíku stjórnunarstarfi og svo fór að hann varð einn af eftirlitsmönnum með byggingum hins opinbera. Í Hólminum tók Hörður virkan þátt í félagsmálum og sat m.a. tvö kjörtímabil í bæjarstjórn. Það voru ár mikilla umsvifa og byggingarframkvæmda hjá bænum, og því ekki ónýtt að hafa reynslu hans og þekkingu þar innanborðs. Honum voru skipulagsmál sérlega hugleikin og var hann, í þeim efnum, framsýnn en líka raunsær, og þótt Hörður væri fylginn sér flutti hann mál sitt ætíð af eðlislægri kurteisi og virðingu fyrir öðrum skoðunum. Með slíkum er gott og árangursríkt að vinna.
Hörður sýndi ungur að árum listræna hæfileika með pensil og blýant og þessa meðfæddu hæfileika þróaði hann með árunum, og liggja eftir hann mörg falleg málverk og teikningar og oftar en ekki var Hólmurinn hans myndefnið. Og í tæplega sjötíu ár hafa félagar í Snæfelli borið, með stolti, merkið sem Hörður gaf þeim, en merkið fallega og stílhreina hannaði hann og valdi litina, þar er Snæfellsjökull baðaður í sólskini séður frá sælureitnum, Ytra-Skógarnesi.
Á kveðjustundu þökkum við fyrir að hafa átt Hörð að frænda og vini og víst er að gleði hans og hlýja mun lifa áfram með okkur. Við biðjum góðan Guð að blessa elsku Birnu, Bjarna Lárus, Kristján Þór og fjölskyldur þeirra og veita þeim styrk.
Takk fyrir allt, Hörður minn.
Jóhanna og Ellert.
Þau hjónin hafa alltaf sýnt okkur afkomendum Ellu ömmu mikinn kærleik. Þeirra dyr hafa ævinlega staðið okkur opnar, kaffibollinn og kræsingarnar dregnar fram á borðið í snatri og svo var spjallað um allt milli himins og jarðar. Ég má til með að minnast þess þegar Bidda bakaði eða réttara sagt ofbakaði hjónabandssæluna í eitt skiptið, en kakan var svo hörð að ég gantaðist með að rota mætti mann með henni. Við hlógum dátt saman og gerðum grín en honum fannst auðvitað hjónabandssælan best þegar hún var mikið bökuð. Hörður sýndi áhugamálum afkomenda sinna mikinn áhuga og iðulega fékk maður að heyra af afrekum þeirra allra, stórum sem smáum.
Veikindin settu auðvitað strik í reikninginn undir það síðasta. Þótt heilsunni hrakaði vantaði samt aldrei jákvæðnina og æðruleysið, hann Hörður kunni ekki að kvarta.
Ég kveð nú með miklum trega en þakklæti fyrir allar góðu stundirnar. Minni kæru frænku Biddu, sem og öllum aðstandendum, votta ég mína dýpstu samúð.
Minning þín er mér ei gleymd;
mína sál þú gladdir;
innst í hjarta hún er geymd,
þú heilsaðir mér og kvaddir.
(Káinn)
Elsku Hörður, það er margt sem mig langar að segja en á erfitt með að koma orðum að. Þú hefur ávallt verið stór hluti af lífi mínu og fjölskyldunnar. Mamma sagði að ég hefði verið lítil stelpa þegar ég sagðist vera stelpan þín, mér fannst vænt um að heyra það því ég lít alltaf á mig sem stelpuna ykkar Birnu. Ég á margar minningar af góðum samverustundum. Ég var heimalningur í Æsufellinu þar sem ég fékk að gista og vera í góðu yfirlæti, ein með ykkur Birnu og fékk að skottast með í sumarbústaðinn ykkar, Lágholt. Ég man líka eftir laufabrauðsgerð í Æsufellinu þar sem þið Birna skiptust á að útbúa listaverk úr laufabrauði og sama hversu klaufsk ég var, þá fannst þér ég standa mig vel. Þegar ég var lítil var ég líka heppin að fá að fara með ykkur til Stykkishólms, ferðir á rauða kagganum, Volvo-inum, sem mér fannst mjög flottur og þú í gráa jakkanum og oftar en ekki með penna í brjóstvasanum. Það var spennandi að fara með ykkur því þá fékk ég perubrjóstsykur og brenni á leiðinni og auðvitað ís í Borgarnesi.
Ég er innilega þakklát fyrir að síðustu 13 árin bjuggum við nálægt ykkur og börnin mín fengu að sjá ykkur nánast daglega fyrstu ár ævi þeirra og þú tókst að þér að vera afi þeirra. Lilja Þórdís mín átti erfitt með að segja Hörður afi svo þú gekkst undir nafninu Bidda afi fyrstu árin hjá krökkunum. Þú átt stóran hlut í hjarta þeirra og minnist Lilja Þórdís þín sem afa sem var svo góður og elskaðir Biddu ömmu mikið. Bjarki Örn sagði að afi hefði verið eitt af því besta í lífi sínu og þú gafst Bryndísi Láru minni mikinn innblástur, hana langar að mála eins og afi og eru til margar myndir eftir hana hérna heima þar sem hún var að herma eftir myndum sem þú varst að vinna að. Okkur fannst gaman að fá að sjá myndirnar sem þú varst að mála og sjá breytingarnar sem þær tóku dag frá degi. Þú varst handlaginn og vandvirkur og ég geymi öll umslög og kort sem þú hefur skrautskrifað fyrir börnin í tilefni skírna og afmæla.
Þú varst stoltur af strákunum þínum og barnabörnum og það var gaman að heyra frá því hvað fjölskyldan var að gera. Við Guðjón munum sakna spjallsins, þú varst alltaf jákvæður með góðan húmor, hnyttinn og með ljúfan hlátur. Öllum leið vel í kringum þig.
Við munum ávallt sakna þín og í hvert sinn sem við sjáum fallegt sólarlag þá vitum við að þú hefur verið fenginn til að mála á sjálfan himnastrigann með þinni einstöku snilli.
Berglind Lóa Sigurðardóttir.