[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Geðshræringar gætir vegna viðleitni starfs fólks fréttastofu Útvarps að sneiða hjá orðinu maður þegar vísað er til karla og kvenna; eða eistnabera og leghafa eins og þau segja sem forðast hin kyn-umdeildu orð.

Geðshræringar gætir vegna viðleitni starfs fólks fréttastofu Útvarps að sneiða hjá orðinu maður þegar vísað er til karla og kvenna; eða eistnabera og leghafa eins og þau segja sem forðast hin kyn-umdeildu orð. Samfélagsmiðlar loga eins og jökullinn og Eiríkur Rögnvaldsson kallar Snorra Sturluson til vitnis um að fólk sé iðulega í samsetningum: „Kringla heimsins sú er mann fólkið byggir“.

Inn í umræðuna blandast mál beggja/allra kynja sem var lagt til grundvallar við nýju Biblíuþýðinguna og sú máltilfinning sem særist mergundarsári þegar öll eru boðin velkomin frekar en allir . Svo eru höfundar sem glotta við tönn og benda á að tala þyrfti um fólksku í stað mennsku , eins og Guðmundur Andri benti á og að aðili sé aðila gaman – eins og segi í Hávamálum inum ný-íslensku að hætti Þórarins Eldjárns. Faðir minn notaði flygil og flygsu um áhafnarlimi flugvéla og hafði valkvætt kyn á eintölumynd nemenda, kjósenda og stjórnenda , þ.e. nemönd/nemandi, kjósönd/kjósandi og stjórnönd/stjórnandi. Ekki eru nema liðlega hundrað ár síðan það var ólöglegt að kjósandi væri kjósönd.

Orðfæri og hugarfar tengjast og við erum öll föst í trúar- og hugmyndakerfum um hvaðeina. Aristóteles taldi karlinn hinn eðlilega mann en konuna frávik af náttúrunnar hálfu; mistök en að vísu nauðsynleg. Í indóevrópsku málsögunni kemur sama hugmynd fram í því að karlkynið varð ráðandi áður en kvenkynið þróaðist. Hugmyndafræði og sjónarhorn karlkynsins varpaðist inn í tungumálið og hefur lifað þar góðu lífi síðan.

Kynjakerfi indóevrópskra tungumála er ekki bara málfræðilegt, eins og heyrist, utan og ofan við hugmyndakerfi okkar sem tölum málin. Með nýjum hugmyndum um vald og kynhlutverk á liðnum öldum hefur tekist að breyta miklu til betri vegar fyrir almenning. Gömlu hugmyndirnar lifna samt alltaf aftur, að hluta til vegna fornra tungurótarskota og þjóðsagna sem haldið er að börnum. Hver ný kynslóð er innréttuð með sömu gömlu hugmyndunum í gegnum tungutakið og sagnaarfinn. Þess vegna er nú reynt að fara að ráði Þórbergs – þegar hann kom fyrir Drottin allsherjar – og breyta skipulaginu.

En tungumál breytast ekki með valdboði eða fundasamþykktum, enda máltilfinning íhaldssöm, og oft verða máltilraunir til hugarfarsbreytinga afkáralegar; auk þess sem það er umdeilanlegt hversu langt eigi að ganga í að breyta tungumáli, okkar rótgróna samskiptamiðli. Oftast er þó útlátalaust að tala mál beggja kynja – og leggja þannig af þá gömlu indóevrópsku hefð að gera aðeins ráð fyrir körlum þegar við mennirnir hittumst utan heimilis. Þótt oft sé stutt í fólkskuna ætti það ekki að koma í veg fyrir að við reynum að losa okkur úr hugarfarshlekkjum tungumálsins sem styðja það frum-indóevrópska fyrirkomulag að konur gæti bús og barna innan stokks en við karlarnir séum af Guði gerðir til að fljúga, nema, kjósa, stjórna – og ráða.

Gísli Sigurðsson gislisi@hi.is

Höf.: Gísli Sigurðsson gislisi@hi.is