Hildur Sverrisdóttir
Hildur Sverrisdóttir
Eftir Hildi Sverrisdóttur: "Fólk sem hefur skilað sínu á ekki að þurfa að hafa áhyggjur af því að lífeyrir þess sé notaður sem skiptimynt í valdabaráttu stéttarfélaga."

Eldra fólk man eflaust vel eftir herskáum slagorðum sósíalismans sem ómuðu nánast alla síðustu öld. Sósíalisminn lofaði fallegum vorkvöldum og sanngirni fyrir alla sem hljómaði auðvitað vel en skildi mikið til eftir sig sviðna jörð. Ég get ímyndað mér að þeir sem eftir því muna séu í dag varir um sig þegar þær gamalkunnu upphrópanir heyrast aftur.

Sósíalisminn er svo sem ágætur fyrir það að hann er fyrirsjáanlegur og lýtur alltaf sömu lögmálum. En hann sér aðeins eina leið, sína leið. Hann hefur alltaf rétt fyrir sér og þarf því sjaldnast að spyrja nokkurn mann.

Ég ber um margt hlýhug til verkalýðshreyfingarinnar og margs af því sem hún hefur komið áleiðis og þykist skilja það réttlæti sem þar er barist fyrir. Ég er líka hlynnt samningsfrelsi og almennt því að fólk beri eigin hag fyrir brjósti. En ég aðhyllist líka sanngirni og það að fólk fari ekki fram úr sér í baráttu fyrir málstað.

Dularfullur leiðangur stéttarfélags

Alþýðusamband Íslands reynir nú í erindisrekstri fyrir eitt aðildarfélaga sinna að knésetja nýtt flugfélag. Þá skiptir litlu máli þótt starfsfólk flugfélagsins hafi enga aðkomu að sambandinu. Það skiptir heldur ekki máli þótt starfsfólkið virðist, samkvæmt fréttum, hafa samið um hærri laun innan eigin stéttarfélags en félagsfólk Alþýðusambandsins. Þá virðist engu máli skipta að flugfélagið bjóði dýrmæta samkeppni á markaði og geti því haft umtalsverð áhrif á kjör fólks.

Ég verð að viðurkenna að ég skil eiginlega ekkert í þessari vegferð.

Eftirlaunum fólks á ekki að beita í pólitískum tilgangi

Tilefni þessa pistils er samt annað og alvarlegra. Í atlögu sinni að því að kæfa flugfélagið í fæðingu í stað þess að ræða um hlutina af einhverri yfirvegun hvetur sambandið lífeyrissjóði til að sniðganga félagið. Þetta er nýjasta tilraunin, en aðeins ein af mörgum, til að beita eftirlaunum fólks í pólitískum tilgangi.

Verkalýðsfélög eiga ekki lífeyrissjóðina

Lífeyrissjóðirnir eru eignir fólksins sem hefur greitt í þá með ævistarfi sínu. Þeirra einu skyldur eru gagnvart sjóðfélögum sínum, að tryggja þeim ávöxtun og öruggan lífeyri. Ef lífeyrissjóðir ætla að breyta fjáfestingastefnu sinni á það aldrei að gerast nema í skýru umboði sjóðfélaga, sem eru þeir einu sem stjórnir lífeyrissjóða eiga að svara til. Verkalýðsfélög eiga nefnilega ekki lífeyrissjóðina, ekki einu sinni þá sem heita svipuðum nöfnum og verkalýðsfélögin.

Mikill fjöldi fólks er á eftirlaunum og sá fjöldi mun stóraukast á næstu árum. Vegna betri innviða okkar ágæta samfélags lifir fólk blessunarlega lengur og við betri heilsu en áður. Kynslóðirnar sem nú eru að færast á efri ár byggðu upp samfélagið okkar. Þetta er fólk sem hefur skilað sínu og á ekki að þurfa að hafa áhyggjur af því að lífeyrir þess sé notaður sem skiptimynt í valdabaráttu stéttarfélaga. Fæstir eftirlaunaþegar eru það vel stæðir að þeir láti sér slíkt í léttu rúmi liggja að sér forspurðum.

Það er alveg ástæða til að ítreka þetta nú í aðdraganda kosninga þegar forystufólk stórra verkalýðsfélaga og flokks sem vill endurreisa sósíalismann talar sífellt um lífeyri eftirlaunaþega líkt og um sé að ræða herfang sem beita eigi sem vopni í byltingu alþýðunnar. Ég held nefnilega að alþýðan vilji bara eiga eftirlaunin sín sjálf.

Höfundur er varaþingmaður, aðstoðarmaður ráðherra og frambjóðandi í 3.-4. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. hildur.sverrisdottir@anr.is

Höf.: Hildi Sverrisdóttur