Þorbjörg J. Ólafsdóttir fæddist á Hvammstanga 8. janúar 1950. Hún lést á krabbameinsdeild Landspítalans 11. maí 2021.
Foreldrar hennar voru hjónin Ólafur Þórhallsson, f. 2. júní 1924, d. 18. ágúst 2013, og Halldóra Kristinsdóttir, f. 9. janúar 1930, d. 31. janúar 2013. Þau bjuggu á Syðri-Ánastöðum á Vatnsnesi í V-Húnavatnssýslu.
Systkini Þorbjargar: Ólöf Þórhildur, f. 1953; Halldór Kristinn, f. 1956, d. 1985; Bergur Helgi, f. 1960, d. 1988; Júlíus Heimir, f. 1965.
Eiginmaður Þorbjargar er Jón M. Benediktsson, f. 26. febrúar 1951, frá Staðarbakka í Miðfirði, V-Húnavatnssýslu. Börn þeirra eru: 1) Þórólfur, f. 5. september 1974. Eiginkona hans er Nanna Viðarsdóttir. Börn þeirra: Jón Ívar, f. 19. febrúar 2006, Logi, f. 14. september 2008, Kári, f. 28. október 2017. Fyrir átti Þórólfur Þorgerði, f. 16. apríl 2000, og fyrir átti Nanna Eddu Eik, f. 12. mars 1998. 2) Ragnheiður, f. 8. febrúar 1979. Hún er í sambúð með Erlend Nicolaisen. Börn Ragnheiðar eru: Ulrich Skírnir, f. 31. maí 2015, og Isadora, f. 10. janúar 2017. 3) Þórhildur, f. 8. febrúar 1979. Eiginmaður hennar er Jón Hákon Hjaltalín. Börn þeirra eru: Styrmir, f. 21. ágúst 2006, Þorbjörg Sara, f. 15. júlí 2010, og Hákon Emil, f. 1. ágúst 2013.
Þorbjörg ólst upp á Syðri-Ánastöðum þar sem foreldrar hennar stunduðu búskap. Hún lauk gagnfræðaprófi frá Reykjaskóla í Hrútafirði og útskrifaðist úr Ljósmæðraskóla Íslands 1972.
Lengst af starfaði hún á fæðingardeild Landspítalans en einnig á Reykjalundi og í mæðravernd á heilsugæslu Mosfellsumdæmis.
Þá leiðbeindi hún um skeið við handavinnu í félagsmiðstöðvum eldri borgara í Reykjavík.
Hún hafði mikinn áhuga á ýmiss konar hannyrðum og handverki og sótti margvísleg námskeið á því sviði hér á landi og erlendis. Eftir hana liggja margir munir sem vitna um hæfileika hennar og vandvirkni.
Útförin fer fram í kyrrþey að ósk hinnar látnu.
Ég leit mikið upp til Þorbjargar og vildi gera allt eins og hún, dáðist að ljósa síða hárinu hennar og vandvirkni hennar og dugnaði í einu og öllu. Við ólumst upp í sveit og þar þurfti margt að gera; við systurnar vorum oftast saman í þeim verkum. Sóttum kýr, kindur og hesta, rökuðum hey og fengumst við svo ótalmargt annað sem þurfti að gera í sveit á sjötta og sjöunda áratugnum. Sérstaklega eru mér minnisstæðar sjóferðir með pabba til að veiða hrognkelsi á vorin. Í þeim ferðum fengum við alltaf að róa heim af miðunum, ég hafði lítið við systur minni sem var mjög fiskin, hinn fínasti ræðari og alls ekki sjóhrædd þegar ég sjálf var oft smeyk við öldurnar og dýpið sem var undir bátnum. Mér finnst að á þessum árum hafi systir mín verið minn verndarengill, eins og hún var mér reyndar alveg fram á fullorðinsár. Hún var með mér í heimavistarskóla í barnæsku, kenndi mér að hjóla og svo ótalmargt annað, var byrjuð í Reykjaskóla þegar ég kom þangað. Alltaf var Þorbjörg til staðar og ég fann fyrir hennar hlýju nærveru og vissi að hún myndi vernda mig ef eitthvað kæmi fyrir.
Þorbjörg hafði snemma mjög gaman af allri handavinnu. Þegar við vorum litlar voru vetrarkvöldin gjarnan notuð til að prjóna og sauma. Hún var listakona við allt slíkt, líka við að teikna, ég man hvað ég dáðist að því sem hún gerði og hvað hún var mikill snillingur í þeim efnum. Alla sína ævi hefur hún haft mjög mikla ánægju af ýmiss konar handverki. Hún hefur sótt mörg námskeið í þeim fræðum bæði á Íslandi, í Danmörku og Frakklandi. Þeir fallegu munir sem hún skilur eftir sig væru efni í margar sýningar. Hún fékkst við bútasaum, útsaum, dúkkugerð og síðustu árin við að búa til kassa skreytta dásamlega fallegum útsaumi og klædda fallegum efnum. Reyndar hafði hún áhuga á allri list og var dugleg að sækja sýningar til að bæta við sig þekkingu og auðvitað ánægjunnar vegna. Hún hafði líka áhuga á leiklist og þegar hún var í Reykjaskóla lék hún þar í leiksýningum.
Annað sem mér er minnisstætt frá æskuárum er hversu Þorbjörg var barngóð. Hún hændi að sér öll börn, fyrst og fremst bræður sína, Kristin og Berg sem nú eru löngu dánir og auðvitað örverpið Júlíus sem fæddist þegar hún var fimmtán ára. Öll börn sem komu í heimsókn, litlir sumargestir sem voru margir á þeim árum og börn sem dvöldu í sveitinni hjá okkur, hændust að Þorbjörgu sem gaf sér góðan tíma til að leika við þau. Ég er viss um að þau minnast hennar með hlýju.
Þegar Þorbjörg var í Ljósmæðraskólanum og ég í Menntaskólanum við Hamrahlíð var ómetanlegt fyrir mig að vita af stóru systur svo nálægt og geta talað við hana ef eitthvað bjátaði á. Ég bjó þá hjá Ingibjörgu föðursystur okkar og þar hittumst við oft, Imma var einstaklega góð við okkur og við áttum margar skemmtilegar stundir heima hjá henni, allar þrjár. Þorbjörg hafði ríka kímnigáfu og við gátum oft hlegið alveg endalaust saman.
Þorbjörg hætti ekki að hugsa um litlu systur sína þó að ég færi í nám í Frakklandi um tvítugt. Þegar ég eignaðist dóttur mína þar komu þau Jón með Þórólf litla til að athuga með hvort allt væri í lagi og hvort ég kláraði mig í móðurhlutverkinu. Það var ómetanlegt fyrir unga móður, ég held að ég hafi aldrei þakkað henni nógu vel fyrir það. Þegar við fjölskyldan fluttum til Íslands um tíma var hún Dóru dóttur minni alveg einstaklega góð. Þorbjörg var mikil fjölskyldumanneskja, gestrisin og hlý við alla og þrátt fyrir langvinn veikindi hugsaði hún mjög vel um foreldra sína alveg þar til þau létust bæði árið 2013. Ég held að varla hafi liðið sá dagur að þær mæðgurnar, mamma og Þorbjörg, hafi ekki talað saman í síma, og bæði hún og Jón sáu um að allt væri lagfært ef eitthvað fór úrskeiðis hjá foreldrunum.
Þrátt fyrir að ég hafi búið í Strasbourg síðustu þrjá áratugi héldum við systurnar alltaf góðu sambandi. Eftir að mamma og pabbi dóu bjó ég alltaf hjá henni og Jóni þegar ég kom til Íslands. Þá áttum við systurnar mjög ánægjulegar stundir saman, oft við handavinnu og hún gat alltaf sýnt mér eitthvað sem ég gat dáðst að og kennt mér eitthvað nýtt. Ég hugsa líka með þakklæti til góðu stundanna sem við áttum á allra síðustu árum þegar við fórum saman á handavinnusýningar í London og París og á námskeið í kassagerð bæði heima hjá henni í Urriðakvíslinni og heima hjá mér í Strasbourg. Þrátt fyrir veikindin og hversu henni leið oft illa sagði Þorbjörg alltaf að hún fyndi miklu minna fyrir þeim þegar hún væri að gera svona skemmtilega hluti.
Það sem ég held samt að hafi tengt okkur sterkast saman var bernskan á Syðri-Ánastöðum, allar þessar minningar frá horfnum heimi stórfjölskyldunnar í sveit og samfélagi sem var svo ólíkt því sem við áttum síðar eftir að lifa. Við gátum talað endalaust um þennan tíma en ásamt bræðrum okkar vorum við síðustu börnin sem ólust upp á Syðri-Ánastöðum sem fyrir löngu eru komnir í eyði. Henni fannst gott að koma þangað og best ef hún gat farið með litlum barnabörnum í gönguferðir í fjöru og á túni í leit að alls konar fjársjóðum, skeljum, steinum og blómum. Þau eru ófá sporin sem við systurnar gengum um þetta heimaland saman, og nutum þess að vera í samneyti við náttúruna. Þorbjörgu fannst vænt um Grímsána og hennar litlu fallegu fossa, við gengum stundum upp með þessari á eða niður með henni að sjónum. Þess vegna langar mig til að kveðja hana með vísu úr ljóði mínu um Grímsána, núna þegar hún er okkur horfin og komin í hóp þeirra í fjölskyldunni sem látnir eru:
Svo fylgir þú ánni alla leið niður að ósnum
á endanum sameinast hún hinu breiða hafi
tár hennar blandast við saltið í köldum sjónum
hún saknar þeirra er áður við hlið hennar gengu.
Vonandi hittumst við systurnar einhvern tímann við Grímsána eða annars staðar í gamla heimalandinu sem mun áreiðanlega fagna okkur.
Mínar hlýjustu samúðarkveðjur sendi ég Jóni manni hennar, börnum og barnabörnum.
Þórhildur.