Sigurður Ingi Jóhannsson
Sigurður Ingi Jóhannsson
Eftir Sigurð Inga Jóhannsson: "Sjósókn er enn undirstöðuatvinnugrein í þorpum og bæjum á landsbyggðinni. Það skiptir sköpum í litlum samfélögum að öryggi sjómanna sé sem best."

Siglingar og sjómennska hafa alla tíð verið okkur Íslendingum grundvöllur búsetu á landinu. Skipið er og var þar til á síðustu öld eina samskiptatækið við umheiminn. Sjómenn gegndu mikilvægu efnahagslegu hlutverki frá örófa tíð og bægðu að auki hungurvofunni frá þegar hamfarir dundu yfir. Til þess að heiðra þetta dugnaðarfólk var í lögum kveðið á um að fyrsti sunnudagur júnímánaðar ár hvert skuli vera almennur frídagur sjómanna og hefur hann verið haldinn árlega frá 6. júní 1938. Alla tíð síðan hefur sjómannadagurinn verið merkisatburður í menningu sjávarbyggða. Það er því ærið tilefni til þess að senda öllum sjómönnum góðar kveðjur frá ráðuneyti siglingamála á þessum degi.

Það sem af er þessari öld hefur atvinnulíf okkar tekið stakkaskiptum og er orðið mun fjölbreyttara en það breytir því ekki að störf sjómanna eru og verða okkur Íslendingum mikilvæg. Hluti af nýrri auðlegð tengist ekki síst afurðum frá fiskveiðum sem áður var fleygt en færa nú gull í byggðir og nýja atvinnumöguleika fyrir ungt og vel menntað fólk. Nægir þar að nefna líftækniiðnaðinn sem nýtir slóg og roð í lyf, matvæli og snyrtivörur. Með slíkri þróun eykst enn mikilvægi þeirra sem sækja í þjóðarauðlindina, fiskinn í hafinu og skapa forsendur fyrir blómlegar byggðir um land allt.

Í starfi mínu sem ráðherra hafa siglingamál verið afar mikilvæg. Þannig liggja fyrir Alþingi frumvörp að nýjum lögum um skip sem og nýjum lögum um áhafnir. Ekki má gleyma að við höfum gerst aðilar að og innleitt alþjóðlegar reglur um réttindi og öryggi áhafna flutningaskipa. Í fáum starfsgreinum eru konur jafn fáar og í siglingum. Það hefur á undanförnum árum verið sérstök áhersla á að vekja athygli ungra kvenna á siglingum og sjómennsku sem atvinnu. Þar er vígi að vinna og verðugt að minnast þess að meirihluta Íslandssögunnar sóttu konur sjóinn ekki síður en karlar.

Öryggismál sjófarenda eru mér hugleikin. Sjósókn er enn undirstöðuatvinnugrein í þorpum og bæjum á landsbyggðinni. Það skiptir sköpum í litlum samfélögum að öryggi sjómanna sé sem best. Miklar framfarir hafa orðið í slysavörnum á sjó, ekki síst með tilkomu öryggisáætlunar sjófarenda. Á síðustu árum hefur enginn farist á sjó, sem er gríðarleg framför, og slysum fækkað. Þessi árangur hefur vakið athygli víða um heim. Fyrir honum eru margar ástæður en mig langar sérstaklega að draga fram ómetanlegt framlag Landsbjargar og Slysavarnaskóla sjómanna sem starfræktur er um borð í Sæbjörg. Rannsóknanefnd samgönguslysa hefur heldur ekki látið sitt eftir liggja í að leggja til úrbætur í öryggisátt sem oft hafa orðið grunnur að aukinni öryggisvitund sjómanna og útgerða. Ekki má heldur gleyma vaktstöð siglinga og Landhelgisgæslu sem ávallt standa vaktina og gæta sjófarenda. Þá vil ég minnast á hagsmunasamtök sjófarenda sem öll gegna mikilvægu hlutverki við að uppfræða sitt fólk. Miklar umbætur hafa einnig orðið á upplýsingakerfum til sjófarenda sem Vegagerðin heldur utan um og þróar. Veðurspár hafa verið efldar og upplýsingar um veður og sjólag, sjávarföll og ölduspá eru sífellt uppfærðar og aðgengilegar sjófarendum um fjarskiptakerfi nánast hvar sem er við strendur landsins og á hafi úti. Með þessum góðu kerfum tryggjum við siglingaöryggi eins og best verður á kosið.

Í dag er enn eitt framfaraskrefið stigið en þá mun rannsóknanefnd samgönguslysa veita móttöku slysa- og atvikaskráningarkerfinu „Atvik Sjómenn“ að gjöf frá VÍS en með því verður þetta góða kerfi opið öllum sjómönnum og útgerðum landsins sem vonandi auðveldar innleiðingu öryggisstjórnunar um borð í íslenskum fiskiskipum. Þess má geta að grunnur að öryggishandbók fyrir fiskiskip hefur verið unninn á vegum fagráðs um siglingamál, siglingaráðs, og er aðgengilegur öllum. Þá vil ég vekja athygli á styrkjum til hugvitsmanna með það markmið að þróa og auka öryggi sjófarenda en þeir eru nú lausir til umsóknar.

Á undanförnum árum hafa orðið miklar breytingar á umhverfi siglinga við landið. Komum farþegaskipa hefur fjölgað gríðarlega og fiskeldi og námavinnsla í hafi aukist, sem ásamt fleiri nýjungum gera aðrar kröfur til hafnaraðstöðu. Í þeirri samgönguáætlun sem nú er í vinnslu er því gert ráð fyrir auknu framlagi til hafna. Á tímum hraðra umhverfisbreytinga er ljóst að umhverfið við strendur landsins mun breytast mikið á komandi árum. Með hækkandi sjávarstöðu aukast þarfir fyrir sjóvarnir og aðlögun mannvirkja. Samtímis hafa verið stigin skref til að auka siglingaöryggi og siglingavernd, sem og réttindi áhafna í hverfulum heimi.

Á sjómannadeginum er ástæða til þess að rifja upp allt það sem áunnist hefur í öryggismálum og minna sjómenn á að þeir eiga hauk í horni þar sem eru starfsmenn samgönguráðuneytis og þeirra stofnana sem fara með siglingamál. Þá er siglingaráð mikilvægur samstarfs- og samráðsvettvangur samtaka sjómanna og annarra hagsmunaaðila við samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið og leggur ráðuneytið ríka áherslu á mikilvægi þess.

Að lokum óska ég sjómönnum og samtökum þeirra og útvegsmanna farsældar í mikilvægum störfum í þágu sjómennsku og siglinga.

Það er ávallt þörf á því að halda gangandi umræðunni um öryggismál sjómanna og halda áfram þeirri vinnu sem unnin er í þágu öryggisins.

Ég óska öllum sjómönnum og fjölskyldum þeirra til hamingju með daginn.

Höfundur er samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.

Höf.: Sigurð Inga Jóhannsson