[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Trausti Jónsson fæddist 5. júní 1951 í gamla póst- og símstöðvarhúsinu í Borgarnesi. „Ég ólst upp í foreldrahúsum á Miðnesklettum í Borgarnesi, kynntist þar vel veðri, vindum og sjávarföllum – en þau réðu oft leikjum í fjöru og á leirum.

Trausti Jónsson fæddist 5. júní 1951 í gamla póst- og símstöðvarhúsinu í Borgarnesi. „Ég ólst upp í foreldrahúsum á Miðnesklettum í Borgarnesi, kynntist þar vel veðri, vindum og sjávarföllum – en þau réðu oft leikjum í fjöru og á leirum. Gamli miðbærinn í Borgarnesi og Brákarey voru full af iðandi mannlífi og margt að sjá. Flóabátarnir, Laxfoss, síðan Eldborg og Akraborg komu með fólk og varning – einnig komu þar erlend skip. Allt blasti við úr gluggunum og af hólnum heima. Fjölskyldan dvaldist allmörg sumur í skólunum á Varmalandi í Stafholtstungum, því þar og á Laugalandi stóðu yfir margs konar framkvæmdir sem faðir minn tók þátt í. Þar var gott að vera.“

Trausti gekk í barnaskóla í Borgarnesi og síðan í Miðskóla Borgarness (eins og það þá hét). „Ég lenti síðan í Menntaskólanum á Akureyri, þar sem móðir mín hafði verið við nám 30 árum áður. Þar bjó ég lengst af á gömlu heimavist skólans – í skólahúsinu sjálfu – við mjög félagslega þroskandi aðstæður. Ég er þakklátur mínum gömlu félögum og kennurum fyrir árin þau. Gott var einnig að kynnast norðlensku veðri af eigin raun, en óvenjukalt og illviðrasamt var á Akureyri þessi ár, hafísárin svonefndu. „Linduveðrið“ svonefnda er þar sérlega minnisstætt. Ég lauk stúdentsprófi vorið 1970 og fór eftir það til útlanda í fyrsta sinn, vestur til Ameríku. Var jafnvel að hugsa um að halda þangað til náms.“

Litið til veðurs

„Veturinn 1970 til 1971 kenndi ég stærðfræði og slíkt við Héraðsskólann á Laugarvatni. Það var afskaplega lærdómsríkur tími með góðu fólki. Síðla sumars var haldið til náms í Noregi, fyrstu tvö árin rúm í Ósló og síðan í Bergen. Gekk það nokkuð sæmilega greiðlega fyrir sig og endaði með embættisprófi (já, það heitir það) í veðurfræði undir jól 1978. Norðmenn reyndust mér vel. Á sumrin var ég heima, flest sumurin við veiðieftirlit í Borgarfirði. Það var skemmtileg, en stöku sinnum nokkuð þrasgjörn vinna. Ég hef mikla ánægju af veiðimannatali, bæði stangveiði og netaveiði, en hef þó aldrei haldið á stöng eða dregið net. Eitt sumarið vann ég á veðurstofunni á Keflavíkurflugvelli. Vildi ekki hafa misst af því, áttaði mig á þeim þjóðsagnakenndu aðstæðum sem þar ríktu og fræddist lítillega um innviði bandaríska hersins.“

Trausti byrjaði í janúar 1979 að vinna á Veðurstofunni í Reykjavík, allra fyrst á veðurfarsdeild, en síðan aftur á Keflavíkurflugvelli, um fimm vikum áður en spástarfsemi þar var flutt til Reykjavíkur – hinn 1. júlí 1979. Hann vann síðan á spádeild Veðurstofunnar til aprílloka 1985. Fór þá aftur á veðurfarsdeildina og varð deildarstjóri þar 1988 og síðan forstöðumaður úrvinnslu- og rannsóknasviðs 1994. „Í þeirri stöðu var ég til ársloka 2003 – en gerðist þá aftur óbreyttur sérfræðingur á sviðinu og hef verið þar síðan. Formleg starfslok eru nú við sjóndeildarhring.“

Trausti kom nærri fjölmörgum málum á Veðurstofunni. „Ég kalla mig þó gjarnan gagnahirði, hef unnið mjög mikið að rannsóknum á eldri gögnum og sögu veðurs- og veðurathugana í landinu. Á árunum 1988 og vel fram yfir aldamót tók ég mjög virkan þátt í alþjóðlegu samstarfi um slík efni og ritaði eða tók þátt í að rita fjölmargar greinar sem birtust í svokölluðum alþjóðlegum ritrýndum tímaritum. Furðumikið hefur verið vitnað í sumar þessara greina. Snjóflóðin miklu og aðgerðir vegna þeirra lentu mjög í mínum höndum á árunum 1994 og fram yfir aldamótin og tók skipulagning aðkomu Veðurstofunnar þá umtalsverðan hluta af tíma mínum. Stjórnunarumstangið varð að lokum það mikið að velja þurfti á milli áframhaldandi stjórnunarframa eða vinnu við veðurfræði og veðurgögn. Valið varð ekki erfitt.“

Árið 2010 stofnaði Trausti bloggið „hungurdiskar“, sem síðan hefur verið vistað á Morgunblaðinu. „Er ég þakklátur blaðinu og starfsmönnum þar fyrir greiðasemi og vinsemd. Pistlarnir eru nú nærri 3.000 talsins og fylla um 20 allþykk prentuð bindi. Held því fram að þar sé samankominn mesti fróðleikur fyrr og síðar um bæði veðurfar og sögu veðurfars á Íslandi.“ Trausti hefur einnig svarað fjölmörgum spurningum á Vísindavef Háskóla Íslands.

Ríkisútvarpið og tónlistin

Trausti stundaði veðurspár í sjónvarpi frá ágúst 1979 til ársloka 1983 og síðan aftur 1989-1994 og 1998-2005. „Hjá Ríkisútvarpinu var gott að vinna á þessum árum. Kynni mín af góðu fólki þar leiddu til þess að ég fékk góðan farveg fyrir vinnu að öðru áhugamáli, tónlist og tónlistarsögu. Sá ég (ásamt öðrum) um nærri 100 þætti um slík efni í útvarpi, auk þess að koma nærri fáeinum sjónvarpsþáttum, bæði sem stjórnandi og þátttakandi. Starfsfólki útvarpsins á ég mikið að þakka.

Sömuleiðis hef ég séð um efnisval á fjölmargar endurútgáfur gamalla hljóðritana, fyrst á plötur en síðan diska. Þetta leiddi síðan til kynna minna við Jónas Ingimundarson píanóleikara og sameiginlegs átaks til bæði tónleikahalds og útgáfu á íslenskum einsöngslögum. Allvel hefur miðað og mörgum að þakka. Ég stússa enn við þessi tónleika-, hljómplötu- og nótnaútgáfumál í tómstundum.“

Trausti starfaði talsvert að félagsmálum á fyrri árum, sat t.d. lengi í stjórn Félags íslenskra náttúrufræðinga á níunda og tíunda áratug aldarinnar og var varaformaður um tíma. Hann sat um stund í ritstjórn Náttúrufræðingsins.

Fjölskylda

Systur Trausta eru Oddný Sólveig Jónsdóttir, f. 10.12. 1952, starfsmaður Landbúnaðarháskóla Íslands, býr á Hvanneyri; og Júlíana Jónsdóttir, f. 19.12. 1959, skrifstofumaður, býr í Borgarnesi.

Foreldrar Trausta voru hjónin Jón Kr. Guðmundsson, f. 2.3. 1923, d. 19.5. 2004, pípulagningameistari í Borgarnesi, og Oddný Kristín Þorkelsdóttir, f. 18.8. 1920, d. 12.3. 2017, húsmóðir.