Fljótlega kom í ljós að veturinn yrði enginn venjulegur vetur og í byrjun nóvember var ég mættur aftur í gamla herbergið mitt. Seinni hlutann í janúar gerði ég aðra tilraun.

Í fyrrahaust sagði ég loks skilið við hótel mömmu eftir 26 ára samfellda veru þar í góðu yfirlæti. Ég fluttist raunar alla leið til Kaupmannahafnar þar sem ég hugðist leggja stund á háskólanám. Fljótlega kom í ljós að veturinn yrði enginn venjulegur vetur og í byrjun nóvember var ég mættur aftur í gamla herbergið mitt. Seinni hlutann í janúar gerði ég aðra tilraun til að fullorðnast. Í fyrri tilrauninni leigði ég íbúð með nokkrum öðrum, sem reyndist vægast sagt ekki minn tebolli. En nú taldi ég mig eiga meiri möguleika en áður enda hafði ég gert samning um að leigja rúmgóða kjallaraíbúð á góðum stað í úthverfi Kaupmannahafnar.

Allt gekk eins og í sögu til að byrja með. Frelsið og sjálfstæðið sem ég hafði séð í hillingum sumarið áður varð loks að veruleika. Loksins andaði enginn ofan í hálsmálið á mér og ég naut hverrar mínútu. Námið var alfarið á netinu, sem virtist henta mér vel, ég hugleiddi á hverjum degi, vann úr því sem angraði mig og æfði úti flesta daga vikunnar. En eins og hjá Phil Connors í Groundhog day var hver dagur nákvæmlega eins og næsti á undan, sem á endanum tók sinn toll og fljótlega fór að halla undan fæti. Það varð bókstaflega sársaukafullt að sitja fyrir framan tölvuna og læra, tíu mínútna hugleiðsla varð óbærileg og hver ein og einasta manneskja sem ég mætti úti á hlaupum fór í taugarnar á mér fyrir það eitt að vera til. Mér fannst ég fastur og vildi ekkert frekar en að sleppa burt.

Áhrif þess að læra heima allan daginn og eyða flestum kvöldum einn vegna samkomubanns og þess að búa í nýju landi, fjarri fjölskyldu og vinum, höfðu læðst að mér. Sem einkar innhverfur einstaklingur fæ ég sjaldan nóg af því í daglegu lífi að vera einn. Það var alltaf gleðistund þegar ég fékk heimilið fyrir mig sjálfan heila helgi eða jafnvel viku. En þegar tómt heimili varð daglegt brauð gaf það mér ekkert. Allt varð flatt. Mér leið aldrei sérstaklega illa en gleðin fjaraði smám saman úr lífinu. Það sem ég missti var annað og meira en að geta eytt tíma með fólki. Ég var ekki lengur hluti af samfélagi. Mér fannst ég ekki tilheyra neinu lengur, flaut bara um í hafi ókunnugra og gat lítið gert í því. En ég ákvað að láta ekki sjá mig heima strax, þetta væri hindrun til að yfirstíga. Einhvern veginn komst ég í gegnum þetta og í dag flýg ég loks til Íslands. Ég geri svo þriðju tilraunina til að fullorðnast í haust.