Þórdís Jóhannesdóttir fæddist 10. september 1919. Hún lést 13. maí 2021.

Útförin fór fram 27. maí 2021.

Amma Dísa var ótrúleg í öllum skilgreiningum orðsins. Aðdáun okkar, ást og virðingu gagnvart þessari yndislegu stórbrotnu konu er erfitt að koma í orð. Hún var hjarta fjölskyldunar sem sló á Laugaveginum, opið, fullt af ást og gleði. Táknmynd dugnaðar, elju, réttlætis og ósérhlífni. Allir áttu örugga höfn í faðmi ömmu á Laugaveginum. Sama hvaða erfiðleika fólk barðist við í lífinu var alltaf hægt að finna stundarfrið hjá ömmu Dísu. Þar hlóðum við batteríin. Hún fyllti maga okkar af mat, breiddi yfir okkur þegar við sofnuðum á sófanum og gaf okkur heilræði um ólgusjóinn sem lífið er. Og eini sykurinn sem maður fékk var á pönnukökunum eða marengstertunni, hún var ekki að sykra raunveruleikann eða sitja á skoðunum sínum. Og ég verð henni ævinlega þakklátur fyrir það. Hún vildi öllum vel, ætíð brosmild og hlý og lexíurnar hennar munu lifa áfram, ekki bara í orði, heldur í þeim gildum sem við lærðum af henni með hennar gjörðum, viðhorfi og styrk. Ástin, sem brann í brjósti hennar gagnvart fólkinu í kringum hana, er sem viti sem leiðbeinir okkur áfram í ólgusjó lífsins. Takk fyrir allt elsku fallega amma Dísa.

Grétar Þór Guðjónsson og

fjölskylda

Dísa frænka er dáin. Mann setur hljóðan. Hugurinn reikar aftur til frumbernsku. Alla mína tíð frá því ég man eftir mér var Laugavegurinn hjá Dísu og Svabba fastur punktur í tilverunni. Eins og sagt var í fornöld þá lágu allar leiðir til Rómar. Í minni tilveru lágu flestar leiðir niður á Laugaveg til Dísu, Svabba og krakkanna. Til fjölda ára fóru foreldrar mínir niður á Laugaveg á aðfangadag eftir mat til að sameinast þeirri stóru fjölskyldu sem þar bjó. Ég hlakkaði alltaf til, enda einbirni. Að komast í fjörið á Laugaveginum var toppurinn á tilverunni. Þó ekki væri nema til að fá að slást við Rósu frænku, en hún hafði einstakan áhuga á húfunni minn sem ég bar iðulega á þessum árum. Við vorum alltaf til í þannig glens. Sigga frænka var þarna yfirleitt, leitaði í margmennið eins og fleiri.

Hvílíkur kokkur hún Dísa. Að öllum konum og körlum ólöstuðum var hún Dísa frænka sá besti kokkur og matargerðarkona sem Ísland hefur alið. Það var stórhættulegt fyrir fólk í aðhaldi að heimsækja Dísu. Hvílíkar kræsingar. Alltaf veisla á Laugaveginum.

Síðasti víkingurinn er fallinn. Dísa var yngst 11 systkina. Ættuð frá Skálholtsvík í stórum hópi systkina. Ég var svo heppinn að fá að eyða mörgum sumrum í Skálholtsvík hjá föðurbræðrum mínum. Heiðarlegra fólki hef ég ekki kynnst á mínum lífsferli en Dísu, pabba og systkinum. Ekki þurfti skrifaðan samning, nema formsins vegna. Orðin stóðu. Tímarnir breytast og mennirnir með. Nú þarf allt að vera fest á pappír og dugar oft ekki til.

Dísa var fylgin sér og hafði ákveðnar skoðanir á lífinu og tilverunni, eins og við flestöll. Hún sagði sína meiningu undanbragðalaust. Við vissum öll hvar við höfðum Dísu. Ekkert fals eða meðvirkni. Það er ekki mikið um stuðning við svona afstöðu í dag. Að standa á sínu.

Dísa var alltaf nálægt mér, vegna þess að pabbi og mamma ræktuðu vinasamband með henni og Svabba alla tíð. Í endurminningunni er Laugavegurinn baðaður gullnum ljóma. Yfirleitt fór fjölskyldan í bæinn á Þorláksmessu. Þá var komið við hjá Dísu og Svabba, hvað annað, og fengið kaffi og með því. Fyrstu jólagjafirnar mínar fyrir pabba og mömmu voru keyptar á þeim degi. Þá fór ég oftar en ekki með peninga í vasa eftir sölu á happdrættismiðum frá Krabbameinsfélaginu. Gekk niður Laugaveginn og spáði í úrvalið. Oftar en ekki varð Rammagerðin fyrir valinu.

Einn er sá sem fagnar andláti hennar! Fyrir margt löngu sagði Dísa frá draumi sem hana dreymdi. Svavar kom til hennar og kvartaði yfir því hvers vegna hún væri ekki löngu komin yfir í Draumalandið, hennar væri sárt saknað.

Gengin er góð kona sem á stað í hjarta mínu. Megi minning hennar lifa.

Magnús Ingólfsson.