Aqua Maria Úr vídeóverki Gjörningaklúbbsins á sýningunni Iðustreymi.
Aqua Maria Úr vídeóverki Gjörningaklúbbsins á sýningunni Iðustreymi.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Helgi Snær Sigurðsson helgisnaer@mbl.is Sumarsýningarnar Róska – Áhrif og andagift , Iðustreymi og Yfirtaka verða opnaðar í dag kl. 15 í Listasafni Árnesinga í Hveragerði.

Helgi Snær Sigurðsson

helgisnaer@mbl.is

Sumarsýningarnar Róska – Áhrif og andagift , Iðustreymi og Yfirtaka verða opnaðar í dag kl. 15 í Listasafni Árnesinga í Hveragerði. Ástríður Magnúsdóttir er sýningarstjóri þeirrar fyrstnefndu og miðlar með henni baráttuanda Rósku og myndheimi sem var allt í senn marglaga, einlægur og ögrandi. Á sýningunni Iðustreymi má sjá verk myndlistarkvennanna í Gjörningaklúbbnum og Katrínar Gunnlaugsdóttur, Katrínar Elvarsdóttur og Söru Björnsdóttur og einnig ljóð gjörningaskáldsins og rithöfundarins Elísabetar Jökulsdóttur. Sýningarstjórar Iðustreymis eru Kristín Scheving, forstöðumaður safnsins, og Ástríður. Þriðja sýningin, Yfirtaka , hefst með samnefndum þátttökugjörningi Önnu Kolfinnu Kuran sem gerir tilraunir til að taka yfir rými með hjálp kvenna úr ólíkum áttum samfélagsins og þá bæði við opnun sýninganna og í vídeóverki. Eina sýningu má svo nefna til viðbótar, svokallaða pop-up-sýningu í tilefni af 40 ára afmæli Leirlistafélags Íslands sem nefnist Hvítur.

Marglaga myndheimur Rósku

Róska var listamannsnafn Ragnhildar Óskarsdóttur sem fæddist árið 1940 en hún lést aðeins 56 ára að aldri árið 1996. Róska var áhrifamikill myndlistarmaður í íslenskri listasögu og tengingar má finna milli fjölbreyttra verka hennar og hinna sýninganna í safninu.

Ástríður segir Kristínu safnstjóra hafa komið að máli við sig varðandi að stýra sýningu á verkum Rósku, og þar sem hún hefur mikinn áhuga og dálæti á listakonunni og verkum hennar tók hún verkefnið að sér án þess að hugsa sig um. Ástríður þekkir afar vel til listsköpunar Rósku þar sem hún skrifaði um hana BA-ritgerð í lok náms í listasögu og listfræði við Háskóla Íslands. „Hún er ein af mínum uppáhalds íslensku listakonum. Ég tók kynjafræði sem aukafag í náminu og fór að rýna í verk hennar og sögu út frá femínískri listfræði og listasögu. Mér fannst mjög áhugavert hvernig hún tókst á við að vera skapandi listakona í karllægum heimi myndlistar á seinni hluta síðustu aldar. Verk hennar tala til mín því þau eru kraftmikil, róttæk, falleg og heiðarleg. Róska endurspeglar eigin hugarheim og hugarheim kvenna á bersöglan og róttækan hátt, í marglaga verkum sem eru unnin í ólíka miðla. Hún hafði einstakt lag á að miðla því sem skipti hana máli, og fyrir Rósku var lífið og listin í raun sami hluturinn. Næmið, fagurfræðin og náðargáfa hennar skín úr hverju verki, þau búa yfir andstæðum, sannleika og sögu; sögu samfélags og hennar eigin sögu. Verkin eru það sterk að úr verður samtal sem mér finnst magnað, samtal milli áhorfandans og Rósku,“ segir Ástríður.

Ástríður talar um að það sé mikill heiður að fá að setja upp sýningu á verkum Rósku í Listasafni Árnesinga og kynnast listsköpun hennar enn betur. „Við Kristín höfum síðan verið í góðu samtali og teymisvinnu við undirbúning Iðustreymis og völdum í sameiningu þær listakonur sem okkur þótti ríma við hugmyndafræði og róttækni Rósku, listakonur sem hafa orðið fyrir áhrifum frá henni eða hennar líkum og vinna með þá miðla sem Róska var óhrædd við að tileinka sér í sinni listsköpun, bæði sem aðgerðasinni og listamaður.“

Ástríður segir allar listakonurnar búa yfir álíka eldmóði og Róska gerði sem var ögrandi og heillandi og hikaði hvergi í sköpunarferlinu. „Markmiðið með sýningunni er að gera Rósku hátt undir höfði og sýna fjölbreytt og einstök verk frá ferli hennar og skoða áhrifin og innblástur sem leyna sér ekki í verkum samtímalistamanna. Áhrifin sem sterkt, einlægt og kröftugt myndlistarverk getur haft á einstaklinga og samfélag eru einstök og mikilvæg, eins og listsköpun og aðgerðir Rósku,“ segir Ástríður.

Bersögul og blátt áfram

Ástríður segir að þeim Kristínu hafi þótt spennandi að rýna í þau áhrif sem Róska og framsæknar listakonur höfðu á samtíðarmenn og komandi kynslóðir listamanna. Áhrifin eru greinileg á sýningunum þremur sem nú eru opnaðar í Listasafni Árnesinga og úr verður samtal sem einkennist af hugarheimi og orku kvenna, róttækni, framúrstefnu og einlægni sem streymi frá og á milli verka þeirra allra. „Þú byggir alltaf á sögunni, því sem hefur verið gert og því sem hefur haft áhrif á þig, hugmyndir koma til þín og blandast þínum hugðarefnum og áherslum og til verður nýtt sköpunarverk, sem byggist á fortíð og nútíð en færir okkur til framtíðar. Áhrifin endurspeglast kristaltært í verkunum, þróuninni og samtalinu sem á sér stað. Á sýningunum finnst okkur skapast mengi og flæði sem vísar í þessi áhrif,“ segir Ástríður og nefnir verk Gjörningaklúbbsins og Katrínar Elvarsdóttur sem dæmi. Hún segir vídeóverk Gjörningaklúbbsins táknmynd barráttuandans sem rísi upp úr hafinu sem innblástur fyrir þá umbreytingu sem konur séu að upplifa í samtímanum, undir áhrifum byltingar- og baráttuanda gegn óréttlæti og ofbeldi. Ljósmyndir Katrínar séu hlaðnar sögu og minningum og rími við myndheim og ljósmyndir Rósku. „Hugarheimur kvenna og tungumálið er einnig áberandi í nútímalegum útsaumsverkum Katrínar Gunnlaugsdóttur og beinskeyttum textaverkum Söru Björnsdóttur. Bersögul og framúrstefnuleg ljóð og gjörninga-skáldskapur Elísabetar Jökuls rammar inn sterka kvenorku og einlægni sem einkennir verk allra listkvennanna á sumarsýningunum í Listasafni Árnesinga,“ segir Ástríður.

Ósýnd verk í einkaeigu

Nokkur verka Rósku á sýningunni hafa ekki verið sýnd áður og verða nú sýnd í flæði við þekktari verk eftir hana. Ástríður segist hafa fundið þessi verk, sem eru flest í einkaeigu, við rannsóknarvinnu fyrir sýninguna sem nær allt aftur til vormánaða í fyrra. Verkin á sýningunni eru því bæði í einkaeigu og frá söfnum, m.a. fengin að láni hjá Listasafni Íslands, Listasafni Reykjavíkur og Nýlistasafninu, sem Róska átti þátt í að stofna. Afraksturinn er Róska eins og Ástríður vildi sýna listakonuna. „Þetta er algjört draumaverkefni, það er búið að vera sérstaklega gaman að vinna með mögnuðu teymi í Listasafni Árnesinga, leita verka á söfnum og í einkaeigu, spjalla við vini og samtíðarmenn Rósku og sjá sýninguna verða til. Ég er spennt að sýna afraksturinn, ég er nokkuð viss um að Róska hefur verið með okkur í ferlinu og ég vona að hún sé ánægð,“ segir Ástríður að lokum og tilhlökkunin leynir sér ekki.