Jón Finnur Ólafsson fæddist 28. október 1953. Hann lést 21. maí 2021.

Útförin fór fram 3. júní 2021.

Stórt skarð hefur myndast í Árbakkafjölskyldunni okkar eftir að þú, kæri tengdapabbi, varst kallaður frá okkur.

Þrátt fyrir veikindi gerðist þetta alltof fljótt og söknuður er sú tilfinning sem ríkir daglega.

Vissulega má þakka fyrir að þú þurftir ekki að kveljast mjög lengi en á sama tíma kemur eigingirnin upp í manni þar sem maður óskar þess heitt og innilega að hafa fengið að hafa þig lengur hjá okkur.

Orðið tengdapabbi er kannski ekki merkilegt orð í sjálfu sér en við fráfall þitt áttaði ég mig raunverulega á því hvað felst í orðinu.

Fyrir mér varstu nefnilega ekki bara pabbi barnanna þinna heldur varstu pabbi allra tengdabarnanna þinna líka og við það að koma inn í fjölskylduna ykkar eignaðist ég annan pabba, tengdapabba.

Þú varst frábær pabbi, afi og langafi. Þú varst alltaf til staðar fyrir okkur öll og það var enginn greiði eða ósk of stór, það var öllu reddað af Jóni Finni aka „Lord of Iceland“.

Mig langar að kveðja þig með þessum orðum:

„Einstakur“ er orð

sem notað er þegar lýsa á

því sem engu öðru er líkt

faðmlagi

eða sólarlagi

eða manni sem veitir ástúð

með brosi eða vinsemd.

„Einstakur“ lýsir fólki

sem stjórnast af rödd síns hjarta

og hefur í huga hjörtu annarra.

„Einstakur“ á við þá

sem eru dáðir og dýrmætir og

hverra skarð verður aldrei fyllt.

„Einstakur“ er orðið sem best lýsir þér.

(Teri Fernandez)

Þín tengdadóttir,

Ása Valdís Árnadóttir.

Elsku Jón Finnur! Einstakur maður er fallinn frá! Þóranna hefur misst sinn förunaut, börnin pabba sinn, tengdapabba afa og langafa. Stórt skarð er höggvið í hópinn.

Þú varst alltaf til í tuskið, í leik við barnabörnin og hrókur alls fagnaðar!

Við öll fjölskyldan í Svíþjóð eigum ótal margar góðar og skemmtilegar minningar frá okkar samverustundum með þér og þínum. Þú hefur verið stór þáttur í lífi okkar frá 1969/1970 þegar þú komst inn í Hólastekks-fjölskylduna. Tobbi og við öll áttum góðan og tryggan vin í þér.

Alltaf varstu boðinn og búinn að gera allt fyrir okkur. Þú varst „pabbi“ hennar Ingu í næstum níu mánuði. Tókst alltaf á móti okkur opnum örmum. Þið Þóranna opnuðuð upp heimilið ykkar fyrir okkur trekk í trekk. Sýndir okkur landið þitt, sem þú þekktir út og inn. Þeir eru ekki fáir bíltúrarnir sem þú hefur farið með okkur í og sýnt okkur alla mögulega fallega staði eins og til dæmis Gjána, Þórsmörk, Landmannalaugar og svo má lengi telja.

Að fá að vera í bústaðnum ykkar Þórönnu, með ykkur og að fá hann að láni til þess að við öll gætum sýnt vinum og kunningjum fallega landið okkar, er okkur mjög dýrmætt.

Ekki fannst honum pabba/tengdapabba leiðinlegt að vera með ykkur í að byggja bústaðinn. Þar fékk hann virkilega að vera þátttakandi.

Það er ein setning sem við höldum að hafi ekki verið til í þínum hugarheimi og það er „þetta er ekki hægt“ eða „þetta gengur ekki“, því þú sást bara möguleika og aldrei erfiðleika.

Þín er sárlega saknað.

Elsku Þóranna systir og allur stóri hópurinn ykkar, sem þið eruð með réttu svo stolt og glöð yfir að eiga, megi Guð gefa ykkur styrk til að komast í gegnum þetta erfiða verkefni.

Nú kveðjum við þig Jón Finnur í þetta sinn en við sjáumst síðar.

Þín mágkona,

Anna Jarþrúður, Thorbjörn, Anna Katrín, Eva María, Inga Karin, Róbert Sven Ingólfur og þeirra börn og barnabarn.

Það er vont að sjá á eftir vinum sínum, hvað þá á besta aldri. Það er eins og spurningar um tilganginn í lífinu gerist óþægilega áleitnar og svörin fjarlægist enn meira.

Jón Finnur dró mig inn í Árvirkjann, eiginlega á hlaupum, vorum að vísu vel kunnugir fyrir, en hann sá eitthvað, sem gæti passað saman hjá okkur. Það var eftir á að hyggja ansi góð hugmynd. Þarna unnum við saman í 12 ár við vaxandi vináttu allan tímann.

Það má segja að Jón Finnur hafi verið svolítið af „gamla skólanum“ hvað varðar vinnu og lífsgildi. Mörkin milli vinnu og einkalífs voru afar óljós; eiginleiki, sem maður finnur helst hjá gömlum bændum, enda held ég að það hafi alltaf blundað í honum bændasál, þótt hann væri rafvirki. Mér finnst bændasálir fallegastar og bestar.

Annar eiginleiki sem ég heillaðist mjög af var þessi víggirðing utan um Þórönnu og fjölskylduna og þessi algera og skilyrðislausa ást og umhyggja og einhvern veginn eins og himinn og haf væru milli þeirra og alls annars.

Smá dæmi. Ferð með atvinnurekendum á Suðurlandi til Akureyrar. Fundahöld og kynningar og makarnir aðskildir í sér skemmtiprógrammi allan daginn. Farið á Pollinn (sem þá var aðalstaðurinn á Akureyri) um kvöldið. Þar hittust makar og félagsmennirnir eftir dags aðskilnað. Fögnuðurinn hjá Jóni Finni að hitta Þórönnu sína eftir þann aðskilnað setti mér markmið. Í svona hjónabandi vildi ég vera, ég held reyndar að það hafi ræst en það er önnur saga.

Það var mjög margt í fari Jóns Finns sem hægt er að læra af. Til dæmis að bíða ekki með að njóta hlutanna. Ég held að hann hafi notið lífsins vel og innilega. Alls nema efri áranna. Þau fær hann ekki.

Hugurinn á vafalaust oft eftir að reika til hans og góðu stundanna og ég á örugglega aldrei eftir að heyra í hljómsveitinni „Dire Straits“ eða „Ég fer í fríið“ með Sumargleðinni án þess að mynd af Jóni Finni og Þórönnu í dúndrandi stuði skjóti upp kollinum.

Elsku Þóranna og fjölskylda. Við Margrét sendum ykkur innilegar samúðarkveðjur og takk fyrir að gefa okkur hlutdeild í þessum yndislega félaga.

Jón Bjarnason.

Með söknuði kveðjum við góðan og gegnheilan vin, Jón Finn. Alveg frá fyrstu kynnum hafa öll samskipti okkar einkennst af heiðarleika, hreinskilni og hlýju. Nærvera hans var einstök.

Jón Finnur og Þóranna hófu ung sambúð og má segja að þegar annað þeirra var nefnt á nafn, þá fylgdi hitt með. Svona eins og kók og prins; hvort um sig mjög gott en langbest saman.

Samvera okkar jókst til muna upp úr aldamótum þegar hugur stóð til að byggja sumarhús á erfðalandi fjölskyldnanna í Landsveitinni. Þar fengu mannkostir Jóns Finns fljótt að skína. Hann var óspar á aðstoð og allar ákvarðanir teknar með heildarhag og af jarðbundnu áræði.

Ómælda gleði höfðum við af undirbúningi ættarmóta og þar hallaði ekki á Jón Finn í framgöngu né í öðrum sameiginlegum framkvæmdum. Þar var hann potturinn og pannan. Án hans framtaks og forystu væru húsin á svæðinu eflaust enn án rafmagns og vatns. Ekki voru síðri heimsóknir okkar til þeirra í Hellalund. Alltaf hlýja og vinarhugur.

Fjölskyldan er stór og samhent og hafa þau hjón Jón Finnur og Þóranna reynst afkomendum sínum einstök.

Það er sárt að sjá á bak góðum vini en minningin og þakklætið í hans garð mun lifa í huga okkar.

Við biðjum Þórönnu og afkomendum öllum blessunar í sorg þeirra og missi.

Helgi og Ólöf.

Þegar kær vinur og samstarfsfélagi til margra ára fellur frá verður manni orðavant. Jón Finnur var að ljúka löngu farsælu starfi og lífið á efri árum blasti við en þá gripu örlögin inn í og illvígur sjúkdómur tók við og hafði betur.

Ég kynntist Jóni Finni fyrst í Reykjavík þegar við vorum lærlingar í rafvirkjun hjá verðandi tengdaföður hans, Ingólfi Björgvinssyni. Á þessum tíma tengdumst við sterkum böndum sem styrktust enn frekar með árunum í gegnum starf og leik.

Árið 1978 stofnuðu þrjár fjölskyldur rafmagnsfyrirtækið Árvirkjann og var Jón Finnur einn af fyrstu starfsmönnum þess, þá nýfluttur á Selfoss með fjölskyldu sinni. Fljótlega gerðust þau hjónin meðeigendur og síðar var hann framkvæmdastjóri fyrirtækisins í tuttugu og fjögur ár. Því starfi gegndi hann með miklum ágætum og ósérhlífni og oft var unninn langur vinnudagur við lausn verkefna. Aldrei bar skugga á samstarfið og Jón Finnur hafði einstaka hæfileika að laða fram jákvæða eiginleika hjá fólki með léttleika sínum og hlýlegri framkomu.

Ég á ótal minningar úr veiðiferðum með Jóni Finni sem var alltaf hrókur alls fagnaðar. Fjölskylduferðir á Arnarvatnsheiði gleymast seint þar sem bílar og viðlegubúnaður var mjög frumstæður sé miðað við nútíma þægindi. Á síðustu árum hefur það verið það fastur liður að fara í neta- og stangveiði í Veiðivötnum og skiptir þá litlu máli hvernig aflast, heldur félagsskapurinn og spjallið í kofanum eftir góðan veiðidag en aflatölur síðustu ára hafa gegnum tíðina hækkað ört eftir því sem leið á kvöldin og kyrrð færðist yfir öræfin.

Jón Finnur var einstakur ferðafélagi og mannkostir hans nutu sín alltaf vel í góðra vina hópi.

Nú er komið að kveðjustund og við Ingibjörg viljum þakka allar frábæru samverustundirnar á liðnum árum og sendum Þórönnu og fjölskyldu hennar okkar innilegustu samúðarkveðjur og biðjum Guð að gefa þeim styrk og blessun. Minningin um góðan dreng mun lifa.

Gunnar M. Einarsson „fóstri“.

Hann Jón Finnur vinur okkar til 50 ára er látinn, allt of ungur.

Hann var alltaf hrókur alls fagnaðar, léttur, skemmtilegur og duglegur. Og hann var mikill fjölskyldumaður, vildi alltaf hafa öll börnin í kringum sig og gera skemmtilega hluti með þeim.

Það voru ófá ferðalögin sem við fórum í saman, Þóranna og Jón Finnur og við Haukur, stundum með börnin en líka bara við fjögur.

Þau Þóranna áttu alltaf jeppa og það voru þau sem kynntu okkur t.d. fyrir Landmannalaugum og Þórsmörk sem voru ógleymanlegar ferðir. Og svo allar bústaðaferðirnar, það var hlegið, spilað, dansað og eldað og hlegið enn meira. Það var oft haft töluvert fyrir að komast, einu sinni fluttum við vistir á snjóþotum vegna ófærðar, en skárum samt ekkert við nögl og farnar fleiri ferðir, það er verið að tala um u.þ.b. kílómetra eða svo. Það voru líka haldnar danskeppnir og þátttakendur ekki alltaf sáttir við dómarann.

Og New York-ferðin. Þá var sko verslað, skoðað, gengið og gengið og hlegið. Eins og þegar Jón Finnur og Haukur keyptu sér jakkafötin. Mátuðu bara jakkana en ekki buxurnar, kaupmaðurinn tók bara mál af buxnalengdinni þeirra, stytti svo buxurnar og fötin sótt daginn eftir. Þegar heim á hótel var komið var farið að máta og þá kom í ljós að þeir hefðu látið plata sig, buxurnar voru hræðilegar en það sem hægt var að hlæja. Já, það er gott að eiga góðar minningar um góðan vin.

Missir hennar Þórönnu er mikill, lífsförunautur og besti vinur er farinn. Börnin þeirra, þau Arndís Hildur, Ingólfur Örn, Ólafur Þór og Anna Þóra og afabörnin hafa líka misst mikið en það er gott að þau eiga góðar minningar um góðan mann og styrkja vel hvert annað.

Brynja Björk og Haukur.

Ég kynntist Jóni Finni 1988 árið sem ég byrjaði að læra rafvirkjun í Árvirkjanum. Fyrstu verkin voru einmitt unnin með Jóni Finni, unnið var við nýlagnir í uppsveitum Árnessýslu. Við fórum margar vinnuferðirnar saman og fannst mér einstaklega gott að vinna með Jóni Finni. Hann var verkmaður góður og vandvirkur, aldrei nein vandamál. Alveg sama hvert leiðir okkar lágu, alltaf var hann með á hreinu hvað öll fjöll eða fjallstoppar hétu og hafði mjög gaman af því að upplýsa mann. Síðar urðum við svo heppin að fá tækifæri til að eignast hlut í Árvirkjanum með þeim félögum.

Jón Finnur vann sitt síðasta verk fyrir Árvirkjann hinn 17. maí. Eftir að veikindi hans komu upp ætlaði hann að klára það verkefni eins og önnur og koma svo til baka til okkar í vinnu en við vitum að hann verður með okkur. Ég heimsótti Jón Finn á spítalann um mánaðamótin apríl/maí og við fórum yfir stöðuna, hans hugur var algjörlega með okkur í Árvirkjanum, hvort við værum búnir að þessu eða undirbúa annað eða senda reikning þangað. Við vorum lánsöm að fá það tækifæri að vinna með Jóni Finni. Hann hafði mikið jafnaðargeð, töluglöggur og glöggur á kostnað á verkefnum, virkilega góður eiginleiki. Jón Finnur var hrókur alls fagnaðar, alltaf léttur og kátur, sögumaður góður, já þær eru margar sögurnar sem við munum halda áfram að rifja upp. Jón Finnur var duglegur að ferðast og fórum við í allnokkrar starfsmannaferðir saman og það var alveg sama hvar við vorum; það var eins og hann væri alltaf á sínum heimaslóðum, þekkti svo vel til og erlendis fljótur að rata þar um allt. Hafðu þökk fyrir allt og allt.

Englar eins og þú:

Þú tekur þig svo vel út

hvar sem þú ert.

Ótrúlega dýrmætt eintak,

sólin sem yljar

umhverfið vermir.

Þú gæðir tilveruna gleði

með gefandi nærveru

og færir bros á brá

svo það birtir í sálinni.

Sólin sem bræðir hjörtun.

Í mannhafinu

er gott að vita

af englum

eins og þér.

Því að þú ert sólin mín

sem aldrei dregur fyrir.

(Sigurbjörn Þorkelsson)

Elsku Þóranna, börn og fjölskyldur. Missir okkar allra er mikill, okkar innilegustu samúðarkveðjur til ykkar allra.

Guðjón og

Ingigerður (Gerða).

HINSTA KVEÐJA

Til langafa:
Stundin líður, tíminn tekur,
toll af öllu hér,
sviplegt brotthvarf söknuð vekur
sorg í hjarta mér.
Þó veitir yl í veröld kaldri
vermir ætíð mig,
að hafa þó á unga aldri
eignast vin sem þig.

Þú varst ljós á villuvegi,
viti á minni leið,
þú varst skin á dökkum degi,
dagleið þín var greið.
Þú barst tryggð í traustri hendi,
tárin straukst af kinn.
Þér ég mínar þakkir sendi,
þú varst afi minn.
(Hákon Aðalsteinsson)
Þinn langafastrákur,
Elmar Darri.