Eldgosið í Geldingadölum mallar áfram og breiðir hraunið þaðan úr sér jafnt og þétt. Um hríð var óttast að vinsæll útsýnishóll kynni að lokast af og var hann því rýmdur. Það gerðist þó ekki. Ekki að sinni.
Eldgosið í Geldingadölum mallar áfram og breiðir hraunið þaðan úr sér jafnt og þétt. Um hríð var óttast að vinsæll útsýnishóll kynni að lokast af og var hann því rýmdur. Það gerðist þó ekki. Ekki að sinni. — Morgunblaðið/Einar Falur
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hátt í þrjátíu farþegaflugvélar komu til landsins um liðna helgi og hafa annir á Keflavíkurflugvelli aldrei verið jafnmiklar frá upphafi kórónuveirufaraldursins.

Hátt í þrjátíu farþegaflugvélar komu til landsins um liðna helgi og hafa annir á Keflavíkurflugvelli aldrei verið jafnmiklar frá upphafi kórónuveirufaraldursins. Starfsfólki við sýnatöku í flugstöðinni hefur verið fjölgað verulega, en allt að tuttugu flugfélög fyrirhuga starfsemi á vellinum í sumar.

Vandræði heilbrigðiskerfisins halda áfram að aukast, en fresta hefur þurft skurðaðgerðum á Landspítalanum vegna manneklu, sem meðal annars má rekja til vanhugsaðrar styttingar vinnuvikunnar.

Minning Páls Ólafssonar skálds og Ragnhildar Björnsdóttur , konu hans og helsta yrkisefnis, var heiðruð í Hólavallakirkjugarði, m.a. með því að væta gröfina með viskídreitli. Rifjast þá upp Morgunbæn skáldins:

Nóttin hefur níðst á mér,

nú eru augun þrútin.

Snemma því á fætur fer

og flýti mér í kútinn.

Við það augun verða hörð,

við það batnar manni strax.

Það er betra en bænargjörð

brennivín, að morgni dags.

Guðrún Hafsteinsdóttir varð hlutskörpust í fjölmennu prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi, en í Norðausturkjördæmi hreppti Njáll Trausti Friðbertsson efsta sætið. Keppinautur hans um það, Gauti Jóhannesson , lenti hins vegar í þriðja sæti og ákvað að taka því ekki.

Samherji baðst opinberlega afsökunar á framgöngu starfsmanna sinna í viðbrögðum við fjölmiðlaumræðu, sem birtust í ýmsum netsamskiptum þeirra, sem Stundin og Kjarninn komust yfir með einhverjum ráðum. Þrátt fyrir afsökunarbeiðnina bólaði ekki á fyrirgefningu.

Farið var að boða fólk í bólusetningu með útdrætti kynjaskiptra árganga. Á netinu fannst fólk sem tók andköf og saup hveljur yfir því að kynin væru aðgreind með bleikum miðum og bláum við dráttinn og fannst sem ekkert hefði miðað í jafnréttismálum frá miðöldum.

Útsýnishóll í Geldingadölum var rýmdur og lokaður af áður en hraun næði að umkringja hann.

Sagðar voru fréttir af því að 31.265 Íslendingar hefðu ekki nýtt „ferðagjöfina“. Það gerðu hins vegar 215.828 manns. Flestir nýttu ferðagjöfina í Flyover Iceland. Gjöfin virðist ekki mikið hafa verið nýtt til ferðalaga, en talsvert í flatbökur og bensín.

·

Íslensk stjórnvöld grennsluðust fyrir um það hvort Íslendingar hefðu verið meðal þeirra, sem bandarísk njósnastofnun hleraði með aðstoð Dana. Niðurstaðan var sú að enginn hlustaði á Íslendinga og leyndu vonbrigði þjóðarinnar sér ekki.

Samkvæmt frumvarpi til fjáraukalaga aukast ríkisútgjöld á árinu um 14,6 milljarða frá því sem fjárlög heimila. Það er að langmestu leyti vegna aðgerða vegna heimsfaraldursins, einkum á vinnumarkaði. Fjárlagahallinn eykst af þessum sökum um átta milljarða króna.

Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu fögnuðu því að ríkið hefði hækkað fjárframlög til hjúkrunarheimila um einn milljarð króna, en sögðu þó að það hrykki engan veginn til.

Þjóðarútgjöld eru annars tekin að vaxa á ný eftir nokkurt hlé og spáir Landsbankinn 4,9% hagvexti í ár.

Fasteignamat Þjóðskrárinnar fyrir næsta ár hækkaði í heildina um 7,4%. Því var mismikið fagnað, enda viðbúið að fasteignaskattar hækki víðast hvar sem því nemur, þótt stöku sveitarfélag hyggist raunar lækka skatthlutfallið sem því nemur.

Skuldir heimila hækkuðu um 9,4% á liðnu ári. Eignir og tekjur jukust hins vegar nokkuð og fasteignaeigendum fjölgaði um 3.722. 30.433 fjölskyldur eru nú með skuldir umfram eignir og fækkaði þeim um tvö þúsund frá fyrra ári.

Hörður Áskelsson organisti lét af störfum í Hallgrímskirkju eftir deilur við sóknarnefndina. Mótettukórinn undir hans stjórn er því heimilislaus.

Mannanafnanefnd hóf sinn stóra stimpil á loft í liðinni viku og heimilaði nafnið Gosa.

·Á síðasta ári fengu tæp 16% 10-14 ára drengja ávísuð ADHD-lyf, en notkun lyfja við athyglisbresti og ofvirkni jókst um 19,4%. Frá árinu 2016 hefur notkun lyfja í þessum flokki aukist um 42%.

Reykjanesvirkjun er á hálfum snúningi vegna bilunar í öðrum af tveimur hverflum hennar. Tjón HS orku vegna þessa er tilfinnanlegt, en stærsti raforkukaupandi fyrirtækisins er álverið á Grundartanga.

Vegagerðin telur tímabært að huga að endurnýjun Kjalvegar , en henni reiknast til að veggjaldið þyrfti að vera á bilinu 10-20 þúsund krónur til þess að greiða framkvæmdina niður á tuttugu árum.

Vorpróf í Menntaskólanum í Reykjavík (MR) reyndust nemendum á fyrsta ári erfið. Skólahald á liðnum vetri var óvenjulegt vegna heimsfaraldursins, en þrátt fyrir að fjarnám hafi að mestu gengið vel eru nemendurnir reynslulausir þegar kemur að prófum . Sumir skólar hafa aukið símat á námsframvindu yfir veturinn, en aðrir, ekki síst MR, leggja enn mikið upp úr prófum.

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra settist upp í gröfu og tók fyrstu skóflustunguna að 20 þúsund m² viðbyggingu við Leifsstöð , sem taka á í notkun 2024. Áætlaður kostnaður er 21 milljarður króna, þrefalt meiri en upphaflega var ráðgert.

Makrílkvótinn á þessu ári verður 141 þúsund tonn.

·Raforkuverð hefur hækkað verulega við að Landsvirkjun hækkaði verðskrá sína á heildsölumarkaði um 7,5-15%. Hún kemur í kjölfar bilunar í Reykjanesvirkjun, en auk þess er vatnshæð í helstu uppistöðulónum Landsvirkjunar með lakasta móti.

Um 40% íbúa á höfuðborgarsvæðinu líst vel á borgarlínuna , en 34% líst illa á fyrirætlanirnar. Aðeins þriðjungur telur borgarlínuna líklega til þess að draga úr umferðartöfum. Athyglisvert er að íbúum í miðborginni líst best á fyrirtækið en efasemdirnar aukast eftir því sem fjær dregur, einmitt meðal þeirra sem borgarlínan á helst að vera fyrir.

Í sömu könnun kom fram að andstaða er við fækkun akreina á Suðurlandsbraut til þess að rýma fyrir borgarlínunni. Meirihluti svarenda telur bætur á stofnbrautum líklegri til þess að minnka tafir.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra hyggst óska eftir framkvæmdaleyfi frá Reykjavíkurborg til þess að endurbæta og stækka flugskýli Landhelgisgæslunnar og aðra aðstöðu á Reykjavíkurflugvelli. Ráðherrann segir það enga bið þola og ljóst að Reykjavíkurflugvöllur sé ekkert að fara næstu árin.

Rífa á húsið, sem brann við Bræðraborgarstíg . Rústirnar hafa staðið óhreyfðar mánuðum saman.

Meirihlutinn í borgarstjórn felldi tillögu sjálfstæðismanna og Miðflokks um að bjóða út raforkukaup borgarinnar, þrátt fyrir að fyrir liggi úrskurðir um að borgin brjóti lög með því að gera það ekki.

Mörg erlend skipafélög hafa afbókað skipakomur til Faxaflóahafna í sumar og allt útlit er fyrir að engin risaskip komi til Reykjavíkur í sumar. Útgerð skemmtiferðaskipa varð fyrir miklu höggi í heimsfaraldrinum og óvíst hversu hratt hún tekur við sér.

***

Utanríkisráðherra sakaði dómsmálaráðherra um að svindla í prófkjöri sjálfstæðismanna í Reykjavík, en kjörstjórn úrskurðaði að hann færi með staðlausa stafi. Ekki fer neinum sögum af viðskiptum þeirra á ríkisstjórnarfundi á föstudag.

Landskönnun á mataræði Íslendinga bendir til þess að ávaxta- og grænmetisneysla sé talsvert undir ráðleggingum landlæknis. Hins vegar hefur neysla orkudrykkja ungviðisins margfaldast án þess að mælt hafi verið með henni.

Domus Medica við Egilsgötu verður lokað um næstu áramót, en orsökin er m.a. erfitt rekstrarumhverfi sérfræðilækna, sem framkvæmdastjórinn rekur m.a. til ríkisvæðingarstefnu ríkisstjórnarinnar.

Sérfræðingur á bílaleigumarkaði telur að Ísland „verði uppselt“ í ágúst og september hvað bílaleigubíla áhrærir. Erfitt sé að bregðast við því þar sem aðfangakeðjur bílaframleiðenda séu enn í lamasessi vegna heimsfaraldursins.

Brennuvargurinn við Bræðraborgarstíg, Marek Moszynski, var dæmdur ósakhæfur og sendur á réttargeðdeild í fangelsinu á Hólmsheiði.

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra greindi frá því að fríverslunarsamningur við Breta væri svo gott sem kominn í höfn.