Jude Bellingham í fyrsta landsleik sínum, gegn Írum á Wembley í nóvember.
Jude Bellingham í fyrsta landsleik sínum, gegn Írum á Wembley í nóvember. — AFP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Jude er magnaður. Að hafa sautján ára gamlan leikmann á æfingum sem er hvergi banginn við að reyna sig við eldri leikmennina og hefur ekki aðeins tæknina til þess, heldur ekki síður keppnishörkuna og þroskann.

Jude er magnaður. Að hafa sautján ára gamlan leikmann á æfingum sem er hvergi banginn við að reyna sig við eldri leikmennina og hefur ekki aðeins tæknina til þess, heldur ekki síður keppnishörkuna og þroskann. Hann er gríðarlega spennandi leikmaður og á eftir að verða mikilvægur fyrir England. Við höfum hann ekki bara með til þess að hann geti lagt inn í reynslubankann.“

Þau voru stór, orðin sem Gareth Southgate, landsliðseinvaldur Englands, lét falla um Jude Bellingham, eftir að hann valdi lokahóp sinn fyrir Evrópumeistaramótið í knattspyrnu 2020, sem heimsfaraldurinn hefur seinkað um heilt ár, eins og allir vita. Hann hefur augljóslega tröllatrú á ungstirninu, sem fagna mun átján ára afmæli sínu í miðju móti, 29. júní, og var tekinn fram fyrir margreynda kappa á borð við Jesse Lingard og James Ward-Prowse.

Góðar líkur á leiktíma

Og Southgate er ekki bara að slá pilti gullhamra; líkurnar á því að hann eigi eftir að koma við sögu á EM eru þrælgóðar. Ég meina, það eru hér um bil jafnmargir hægri-bakverðir í hópnum (fjórir) og miðvellingar (fimm). Þess utan kemur einn þeirra lemstraður inn í mótið, Jordan Henderson, og hinir þrír búa ekki að mikið meiri landsliðsreynslu en Bellingam en þeir eru Kalvin Phillips, Mason Mount og Declan Rice.

Fáir hafa ferðast á meiri hraða gegnum heimsfaraldurinn en Jude Bellingham. Eftir að hafa slegið rækilega í gegn með Birmingham City í B-deildinni heima á Englandi veturinn 2019-20 stóðu bunurnar út í allar áttir af hálfu stórliða álfunnar. Borussia Dortmund hreppti hnossið að lokum enda þýska félagið frægt fyrir að nostra við og hafa trú á ungmennum sínum; nægir þar að nefna Jadon Sancho, félaga Bellinghams í enska landsliðinu, og norska undrið Erling Braut Haaland. Hermt er að Dortmund hafi greitt 25 milljónir sterlingspunda fyrir þjónustuna sem gerir Bellingham að dýrasta sautján ára leikmanni sparksögunnar. 46 leiki lék pilturinn í öllum keppnum á þessum fyrsta vetri í Þýskalandi og skoraði í þeim fjögur mörk, eitt í Búndeslígunni, annað í Meistaradeild Evrópu og tvö í þýska bikarnum sem Dortmund gerði sér lítið fyrir og vann. Hann er yngsti markaskorarinn í 112 ára sögu félagsins, sautján ára og 77 daga.

Southgate lét þess getið að það væri ekki síst framganga Bellinghams í Meistaradeildinni sem hefði sannfært sig um að ungi maðurinn ætti erindi á EM. Hann steig til að mynda dans á jafningjagrunni við Kevin De Bruyne í leik Dortmund og Manchester City, en hann er af mörgum talinn besti miðvellingur heims í dag.

Enginn á þessu getustigi

„Þetta er ótrúlegt. Það er enginn annar enskur miðvellingur á þessu getustigi,“ sagði landsliðsmaðurinn fyrrverandi, Joleon Lescott, við BT Sport eftir þá snerru.

„Ég held að Bellingham muni byrja leikina fyrir Gareth á EM. Alhliða leikur hans er það góður; hann er eins og fullorðinn maður á velli,“ sagði annar gamall landsliðsmaður, Owen Hargreaves, við sama miðil.

Bellingham lék fyrsta landsleik sinn gegn Írum í nóvember í fyrra, sautján ára og 136 daga gamall. Aðeins Theo Walcott og Wayne Rooney hafa verið yngri. Þvílíkur ferill sem gæti verið framundan, þvílíkur ferill! orri@mbl.is