Furðuhlutir Bandarískir herflugmenn hafa náð nokkrum myndböndum af hinum óútskýrðu loftförum á síðustu tveimur áratugum. Enn hefur hins vegar engin skýring fengist á þeim.
Furðuhlutir Bandarískir herflugmenn hafa náð nokkrum myndböndum af hinum óútskýrðu loftförum á síðustu tveimur áratugum. Enn hefur hins vegar engin skýring fengist á þeim. — AFP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Stefán Gunnar Sveinsson sgs@mbl.is Engin sönnunargögn eru fyrir því að óútskýrð loftför sem bandarískir herflugmenn hafa rekist á í síauknum mæli tengist lífi á öðrum hnöttum.

Stefán Gunnar Sveinsson

sgs@mbl.is

Engin sönnunargögn eru fyrir því að óútskýrð loftför sem bandarískir herflugmenn hafa rekist á í síauknum mæli tengist lífi á öðrum hnöttum. Svo segir í nýrri skýrslu bandarískra stjórnvalda, sem kynnt verður fyrir Bandaríkjaþingi í þessum mánuði. Engu að síður viðurkenna höfundar skýrslunnar að í mörgum tilfellum sé ekki hægt að útskýra hin dularfullu loftför og fluggetu þeirra.

Bandaríska dagblaðið New York Times greindi í fyrrinótt frá niðurstöðum skýrslunnar og byggði frétt sína á frásögnum háttsettra embættismanna sem hafa fengið að kynna sér efni hennar. Skýrslan nær til rúmlega 120 atvika sem flugmenn á vegum herafla Bandaríkjanna, jafnt í landher, flota og flugher, hafa tilkynnt á undanförnum tveimur áratugum eða svo, en að auki voru könnuð nokkur tilfelli um óútskýrð loftför sem aðrar þjóðir hafa tilkynnt.

Hið eina sem er staðfest í skýrslunni er að í meirihluta þessara tilfella var ekki um að ræða loftför á vegum Bandaríkjahers eða háleynilega tækni á vegum leynistofnana Bandaríkjanna.

Þá segja skýrsluhöfundar að í mörgum tilfellum sé ekki hægt að útskýra þær dularfullu hreyfingar sem loftförin sýni af sér, en þau virðast geta hraðað sér á óvenjulegan hátt, skipt óvænt um stefnu og jafnvel farið á kaf neðansjávar.

Heimildarmenn New York Times sögðu því að vegna skorts á skýrum niðurstöðum væri heldur ekki hægt að útiloka að loftförin kæmu frá öðrum reikistjörnum.

Rússar og Kínverjar á ferðinni?

Háttsettur embættismaður innan njósnastofnana Bandaríkjanna sagði hins vegar að þeir vissu að tæknin væri ekki upprunnin á Vesturlöndum. Það væru því áhyggjur um að Rússar og Kínverjar væru að prófa sig áfram með flugför sem gætu ferðast á ofurhraða, það er fimmföldum hraða hljóðsins eða meira.

Er talið líklegt að í einhverjum af þeim tilfellum sem fjallað er um í skýrslunni hafi verið um að ræða tilraunastarfsemi á vegum Rússa eða Kínverja, en Rússar hafa sett mikið púður í rannsóknir á ofurhraða, í þeirri von að með honum megi yfirvinna fyrirhuguð eldflaugavarnarkerfi Bandaríkjamanna. Þá hafa Kínverjar einnig þróað slík vopn, og jafnvel haft þau til sýnis á hersýningum sínum.

Hins vegar sögðu embættismennirnir einnig við New York Times, að ef um væri að ræða Rússa og Kínverja benti það til að þær þjóðir hefðu náð umtalsverðu forskoti á tækniþróun Bandaríkjahers.

Lokaður viðauki vekur spurningar

Í skýrslunni verður viðauki, þar sem fram koma upplýsingar sem áfram verða duldar fyrir almenningi. Viðmælendur New York Times viðurkenndu að það myndi líklega ýta undir samsæriskenningar um að stjórnvöld væru að fela tilvist geimvera. Tóku þeir hins vegar fram að í viðaukanum væru engin frekari sönnunargögn af eða á um slíkt.