Guns N' Roses tróðu seinast upp á Íslandi.
Guns N' Roses tróðu seinast upp á Íslandi. — Morgunblaðið/Valli
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Tvö af stærstu tónleikaböndum heims, Guns N' Roses og Metallica, aftur á túr.

Það er að lifna yfir málmheimum, eins og öðrum heimum, eftir kórónuveirufaraldurinn. Tröllin skríða nú eitt af öðru úr fylgsnum sínum og í vikunni greindi tónlistartímaritið Rolling Stone frá því að Íslandsvinirnir í Guns N' Roses myndu hefja frestaðan Ameríkutúr sinn í Hershey í Pennsylvaniu, eftir tæpa tvo mánuði, 31. júlí. Goðin stóðu síðast saman á sviði á Laugardalsvellinum fyrir þremur árum. Fyrirhugaðir eru 25 tónleikar fram í byrjun október og mun nýja bandið hans Wolfgangs Edwardssonar Van Halens hita upp, Mammoth WVH.

Annað risastórt tónleikaband, Metallica, mun slá í klárinn aðeins síðar, en fyrstu tvö gigg þess verða á Louder Than Life-hátíðinni í Louisville 24. og 26. september. Þar má einnig sjá Korn, Nine Inch Nails, Judas Priest, Anthrax og fleiri. Metallica verður einnig í Sacramento í október og Daytona Beach í nóvember. Nú er bara að drífa sig í bólusetningu og panta far.