Heiður Björn Thors, Unnur Ösp og börn þeirra við útnefninguna í Garðabæ 2. júní.
Heiður Björn Thors, Unnur Ösp og börn þeirra við útnefninguna í Garðabæ 2. júní.
Hjónin Unnur Ösp Stefánsdóttir og Björn Thors eru bæjarlistamenn Garðabæjar árið 2021.

Hjónin Unnur Ösp Stefánsdóttir og Björn Thors eru bæjarlistamenn Garðabæjar árið 2021. Bæði eru leikarar og hafa verið áberandi í íslensku leikhúslífi saman og hvort í sínu lagi og þar að auki leikið í kvikmyndum og sjónvarpsþáttum, eins og fram kemur í tilkynningu. „Nú síðast hafa þau vakið athygli fyrir leikgerð af sjálfsævisögunni Vertu úlfur sem Unnur Ösp skrifaði og leikstýrði en Björn Thors leikur einleik í verkinu sem sýnt hefur verið fyrir fullu húsi í Þjóðleikhúsinu að undanförnu. Þau hjónin búa í Garðabæ með börnunum sínum fjórum og voru fjölskyldan og nánir vinir og samstarfsfólk samankomin í Sveinatungu til að fagna með bæjarlistamönnunum,“ segir þar.

Við sama tilefni var Joseph Ognibene hornleikari heiðraður fyrir ómetanlegt framlag sitt til menningar og lista. Hann hefur í áratugi búið í Garðabæ og flutti hingað til lands fyrir 40 árum til að leika með Sinfóníuhljómsveit Íslands. Joseph er fæddur og uppalinn í Los Angeles og hefur verið einleikari með SÍ og leitt horndeild hennar, kennt og stjórnað nemendum og gefið þannig af sér í áratugi, segir í tilkynningu. Einnig var úthlutað úr hvatningarsjóði til ungra tónlistarmanna.