Óhætt er að segja að Vilhelm Þorsteinsson EA-11 sé glæsilegt uppsjávarskip.
Óhætt er að segja að Vilhelm Þorsteinsson EA-11 sé glæsilegt uppsjávarskip. — Ljósmynd/Þórhallur Jónsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Guðmundur Þ. Jónsson skipstjóri telur Vilhelm Þorsteinsson EA-11 vera besta skip sem hann hafi stjórnað á ferli sínum.

Gunnlaugur Snær Ólafsson

gso@mbl.is

Í fyrstu veiðiferð Vilhelms Þorsteinssonar náðust 3.100 tonn af kolmunna og 3.050 tonn í öðrum túr. Landað var í báðum tilfellum í Skagen í Danmörku og var ástæðan að upp hafa komið „vandkvæði í löndunarbúnaðinum, sem hefur þurft að leysa úr í samstarfi við skipasmíðastöðina í Skagen,“ að því er fram kemur í færslu á vef Samherja. Þar segir að gera hafi þurft minni háttar lagfæringar á búnaðinum en sökum kórónuveirufaraldursins var ekki annarra kosta völ en að landa í Danmörku.

Í þriðja túr var landað í Færeyjum en þá náði áhöfnin 2.000 tonnum af kolmunna og 2.200 tonnum í fjórða túr. Stefnt er að því að nýsmíði Samherja taki fullan þátt í makrílveiðunum undan Íslandi.

„Það hefur allt gengið samkvæmt óskum hjá okkur. Við erum enn að læra á skipið en það hefur svo sannarlega staðið undir öllum þeim væntingum sem við gerum til þess,“ segir Guðmundur í færslunni. „Það að geta notað aðeins aðra aðalvélina við ýmsar aðstæður sparar gríðarlega mikið eldsneyti og því er kolefnissporið við veiðarnar mun minna en ella. Skipið fer létt með 12 mílur á klukkustund á annarri vélinni, sem er býsna vel gert.

Tækjabúnaðurinn er framúrskarandi og allur aðbúnaður um borð eins góður og hugsast getur. Þetta skip fer mjög vel með mannskapinn, ef svo má segja, og ekki síður með aflann því kæligetan í tönkunum er mikil og lestarrýmin stór. Vilhelm EA er svo sannarlega eitt helsta flaggskip flotans og ber íslensku hugviti og útsjónarsemi fagurt vitni,“ segir skipstjórinn.