Guðmundur Karl Jónsson
Guðmundur Karl Jónsson
Eftir Guðmund Karl Jónsson: "Viðurkennt er að Reynisfjall sé mikill farartálmi á hringveginum."

Að loknum framkvæmdum við Dýrafjarðargöng hníga nú öll rök að því að næstu jarðgöng verði grafin undir Reynisfjall, sem verða 500-600 metrum styttri en fyrri áætlanir gerðu ráð fyrir. Tímabært er að yfirmaður samgöngumála, Sigurður Ingi Jóhannsson, og allir þingmenn Suðurkjördæmis standi saman og flytji á Alþingi þingsályktunartillögu um að vinnu við jarðgöngin undir Reynisfjall verði flýtt samhliða færslu hringvegarins, sem á að liggja sunnan við Víkurþorp. Viðurkennt er að Reynisfjall sé mikill farartálmi á hringveginum þegar hálka, snjóþyngsli og blindbylur valda vandræðum í brekkunni um Gatnabrún, sem margir bílstjórar flutningabifreiða treysta illa og vildu glaðir losna við sem allra fyrst.

Síðustu áratugina hefur líka verið viðurkennt að göng undir Reynisfjall og færsla hringvegarins í Mýrdal yrðu afar hagkvæm fyrir þjóðina, með minna sliti ökutækja þegar starfsmenn Vegagerðarinnar losna strax við of mikla veðurhæð og samfelldan snjómokstur sem hleypir strax upp kostnaðinum á núverandi vegi vestan Víkurþorps. Þar verða meira en átta metra snjódýpt og mikill blindbylur alltaf til vandræða þvert á allar veðurspár. Án jarðganganna, sem verða grafin í beinu framhaldi af vel uppbyggðum vegi norðan við Dyrhólaós, tekst aldrei alla vetrarmánuðina að tryggja íbúum Víkurþorps og heimamönnum búsettum á svæðinu austan Mýrdalsjökuls öruggari vegasamgöngur við Suðurkjördæmi þegar snöggar veðrabreytingar sem enginn sér fyrir skapa vandræði og hrella starfsmenn Vegagerðarinnar þar til þeir gefast upp.

Fram kom í Morgunblaðinu 2. janúar sl. að í samgönguáætlun 2020-2024 væri gert ráð fyrir fjárveitingum í undirbúning vegna 13 km vegagerðar um Mýrdal, ásamt jarðgöngum í gegnum Reynisfjall. Í þessari samgönguáætlun eru kynntar hugmyndir um að fjármagna uppbyggðan veg norðan við Dyrhólaós og veggöngin í Reynisfjalli í samvinnu við einkaaðila. Vel heppnuð innheimta 1.000 króna veggjalds á hvern bíl, sem stóð í tvo áratugi undir fjármögnun Hvalfjarðarganga, þvert á allar hrakspár, vekur spurningar um hvort til greina komi að fjármagna með þessu sama gjaldi heildarkostnaðinn við nýjan veg norðan við Dyrhólaós og sunnan Víkurþorps, ásamt göngunum í gegnum Reynisfjall.

Fyrir löngu hefðu öll þessi samgöngumannvirki orðið að veruleika ef allir fyrrverandi þingmenn Suðurlands og þáverandi ráðherrar samgöngumála hefðu séð sóma sinn í að fylgja þessu máli eftir í samgöngunefnd Alþingis. Miklu máli skiptir að öll þessi samgöngumannvirki á þjóðvegi 1 verði boðin út strax á þessu ári, áður en kjósendur ganga að kjörborðinu í haust, hvort sem núverandi ríkisstjórn heldur velli eða tapar meirihlutanum. Nú skal samgönguráðherra strax svara þeirri spurningu hvort óhjákvæmilegt sé að flýta útboði ganganna undir Reynisfjall sem gagnast öllum landsmönnum. Vonlaust yrði að treysta fjögurra flokka ríkisstjórn fyrir þessari samgöngubót á hringveginum ef núverandi ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur fellur strax að loknum alþingiskosningum, sem ákveðnar eru seinnipart septembermánaðar á þessu ári.

Fram kom í skýrslu Vegagerðarinnar árið 2002 að á þjóðvegi 1 var beygjan í Gatnabrún, þar sem núverandi vegur er lagður upp úr Mýrdal, talin ein af sex hættulegustu beygjum á hringveginum. Austan Reynisfjalls hafa snjóflóð og blindbylur á veginum milli Víkurþorps og Mýrdals oft valdið starfsmönnum Vegagerðarinnar vandræðum þegar þeir hafa fyrr og síðar lent í sjálfheldu og gefist strax upp á samfelldum snjómokstri, sem er stórhættulegur við þessar aðstæður og óframkvæmanlegur í 80 metra veðurhæð á sekúndu.

Sjálfgefið er það ekki að talsmenn fjárveitingavaldsins geti alla vetrarmánuðina hrist fram úr erminni mörg hundruð milljónir króna til að réttlæta heildarkostnaðinn við vetrarþjónustu á snjóþungum og illviðrasömum svæðum sem Vegagerðin treystir illa. Viðurkennt er að göngin undir Reynisfjall ein og sér kosti lítið brot af heildarupphæðinni sem fer í samfelldan snjómokstur á illviðrasömum svæðum alla vetrarmánuðina.

Höfundur er farandverkamaður.

Höf.: Guðmund Karl Jónsson