Samstarfsfólk Þórður í Skógum er einn elsti samstarfsmaður ORG ættfræðiþjónustu en hann varð 100 ára í apríl. Frá heimsókn í Skóga, Unnur Björg Pálsdóttir, Oddur F. Helgason, Kristján Unnar Ellertsson og Þórður Tómasson.
Samstarfsfólk Þórður í Skógum er einn elsti samstarfsmaður ORG ættfræðiþjónustu en hann varð 100 ára í apríl. Frá heimsókn í Skóga, Unnur Björg Pálsdóttir, Oddur F. Helgason, Kristján Unnar Ellertsson og Þórður Tómasson.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Helgi Bjarnason helgi@mbl.is Oddur F. Helgason, æviskrárritari hjá ORG ættfræðiþjónustunni í Skerfjafirði, vill að stofnað verði nýtt félag um ættfræðigrunn hans og Unnar Bjargar Pálsdóttur, konu hans, og starfsemi ættfræðiþjónustunnar.

Baksvið

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

Oddur F. Helgason, æviskrárritari hjá ORG ættfræðiþjónustunni í Skerfjafirði, vill að stofnað verði nýtt félag um ættfræðigrunn hans og Unnar Bjargar Pálsdóttur, konu hans, og starfsemi ættfræðiþjónustunnar.

„Ég vil helst að þjóðin stofni sjálfseignarstofnun um þetta því þá er þetta hennar og pólitíkin blandast ekki inn í starfið,“ segir Oddur. Nafnið er tilbúið: „Menningarskáli þjóðarinnar“.

Oddur situr einn í ættfræðiþjónustunni í Skerjafirði og skráir upplýsingar í ættfræðigrunninn þegar blaðamaður lítur þar inn einn morguninn í vikunni.

„Neineinei, ég er ekkert einn við þetta. Það eru menn á Akureyri, í Kópavogi og um allt land og raunar víða um heim að afla gagna. Allt er þó skráð inn hér á skrifstofunni og við erum fleiri við það, meðal annars Reynir Björnsson og Kristján Unnar Ellertsson,“ segir Oddur.

Nálgast 860 þúsund nöfn

Upplýsingarnar fær Oddur ekki aðeins úr prentuðum heimildum. Hann rekur garnirnar úr fólki sem kemur við til að fá upplýsingar um forfeður sína og það ratar allt í grunninn. Sömuleiðis fær hann upplýsingar hjá áhugafólki sem fær aðstöðu í ættfræðiþjónustunni til að vinna að ábúendatölum eða öðru.

Nú eru að verða komnar upplýsingar um 860 þúsund manns inn í ættfræðivefinn. Og það eru ekki aðeins einfaldar upplýsingar um einstaklinginn, forfeður hans og afkomendur heldur eru skráðar allar tiltækar upplýsingar, svo sem hvar viðkomandi hefur búið, stöðu hans og jafnvel sögur af fólki og vísur. Stöðugt bætast við áhugaverðar upplýsingar. Oddur segir að upplýsingarnar skapi þessum ættfræðivef sérstöðu. Hægt sé að nota hann til að segja sögu þjóðarinnar.

Oddur segir að hægt sé að tvöfalda grunninn því þar séu skráðir bæði forfeður og afkomendur fólksins um allan heim.

Vill stofna sjálfseignarstofnun

ORG ættfræðiþjónustan er í rúmgóðu húsnæði í Skerjafirði. Þar hefur verið komið upp vinnuaðstöðu og geta þrír til fjórir gestir sinnt rannsóknum eða áhugamálum, auk starfsmanna. Hefur það færst í aukana. Meðal annars hafa þar unnið menn sem vinna að samningu ábúendatala einstakra sveita. Þá er í húsnæðinu mikið bókasafn um þjóðfræði.

Oddur verður áttræður á þessu ári en heldur ótrauður áfram. Hann er þó farinn að huga að því hvernig best er að halda starfinu áfram og hefur staðnæmst við stofnun sjálfseignarstofnunar, eins og fyrr greinir.

„Til þess þarf ég aðstoð forráðamanna þjóðarinnar,“ segir Oddur og lætur þá von í ljósi að skrifstofustjóri Alþingis taki að sér að fara fyrir stjórn Menningarskála þjóðarinnar og með honum í stjórn verði skjalaverðir landshlutanna.

Hann segir einnig æskilegt að ganga frá persónuvernd vegna ættfræðigrunna. Þetta séu viðkvæmar upplýsingar og tekur fram að ORG ættfræðiþjónustan hafi frá upphafi unnið með tölvunefnd og síðar Persónuvernd og lagt áherslu á að fara eftir settum reglum.

Tilbúinn með arftaka

En hættir ekki starfið þegar stofnandinn fer frá því? Oddur neitar því. Segir að samstarfsmaður hans, Kristján Unnar Ellertsson, sé aðeins 25 ára gamall og viti alveg hvernig eigi að vinna að þessum málum. Hann hafi áhuga á málefninu, þolinmæði og minni, eins og þurfi til þess að halda starfinu gangandi.