Sigrún Þorleifsdóttir var fædd 16. desember 1927.

Útförin fór fram 1. júní 2021.

Við Dúna, eins og vinkona mín Sigrún Þorleifsdóttir var alltaf kölluð, urðum svo frægar einu sinni að vera leynigestir í 60 ára afmæli Marínar systur minnar í Vínarborg í Austurríki. Þvílíkt og annað eins höfðum við hvorugar upplifað, þó margt hafi drifið á daga okkar í gegnum tíðina. Þar naut Dúna sín vel, hún skreytti allan veislusalinn þannig að skemmtileg veisla varð enn skemmtilegri og miklu fallegri. Þetta var ógleymanleg veisla og samverustundir okkar Dúnu þarna úti voru yndislegar. Svona var allt okkar samband. Hún sóttist eftir gleði og söng og við tvær gengum saman í Pólýfónkórinn sem var undir dyggri stjórn heiðursmannsins Ingólfs Guðbrandssonar. Vera okkar, söngur og líf, í Pólýfónkórnum, um langt árabil, var mikil lífsfylling fyrir okkur báðar og elskuðum við hreinlega báðar að fara á æfingar og tónleika. Minningar hrannast upp; æfingarnar, tónleikarnir en þó ekki síst ferðalögin með kórnum til Spánar, sem eru algjörlega ógleymanlegar, enda fólkið í kórnum og kringum hann með skemmtilegasta fólki sem ég hef kynnst á ævinni. Við Dúna vorum afar þakklátar fyrir þennan skemmtilega félagsskap sem í söngnum var að finna og þá var ekki síður ánægjulegt að syngja tónlist eftir mörg helstu og bestu tónskáld tónlistarsögunnar. Svo enduðum við saman í kór eldri borgara í Hafnarfirði. Það var góður félagsskapur eins og alltaf myndast í kringum söngáhuga. Ég og Dúna áttum margar fallegar og góðar samverustundir í langan langan tíma, stundir sem ég hefði ekki viljað missa af og er þakklát fyrir að hafa upplifað með Dúnu.

Ég votta öllum aðstandendum mína dýpstu samúð.

Guðrún Gísladóttir (Rúna).