Sveinn Steinsson fæddist 9. september 1929. Hann lést 21. maí 2021.

Útförin fór fram 4. júní 2021.

Mig langar til að skrifa nokkur orð um elsku Svein afa sem lést föstudaginn 21. maí síðastliðinn. Hann afi minn var alveg einstakur maður, hann var sterkur sem naut, með hendur sem hefðu sómt sér vel á meðal risa og það var nánast ekkert sem hann vissi ekki. Sem barn eyddi ég flestum skólafríum í Geitó hjá afa og var líka svo heppin að fá að búa hjá honum og Gittu frænku í eina önn í 8. bekk. Það var einn besti tími minn úr barnæsku en mér leið hvergi jafn vel og í Geitó. Þar voru allir jafningjar og elskaði ég að hjálpa til við bústörfin, þá sérstaklega að vera í fjósinu. Í fjósinu var nefnilega ekki bara verið að sinna kúnum heldur sagði afi okkur sögur, kenndi okkur vísur og meira að segja að dansa skottís.

Eftir að afi hætti að búa þá fluttist hann fljótlega suður til ömmu og bjuggu þau saman á Bjargarstíg þar til amma lést. Þá fluttist afi í Furugerði þar sem hann bjó í góðu yfirlæti sín síðustu ár. Mér fannst yndislegt að fá afa í hverfið til mín og voru þriðjudagar afadagar hjá mér og börnunum mínum. Þá kíktum við í heimsókn til afa og alltaf var til súkkulaði og kex til að gæða sér á. Afi var mikill barnakall og naut þess að fá barnabarnabörnin í heimsókn og spjalla við þau. Eftir að við fluttum til Kanada héldum við sambandi í gegnum Messenger en hann var alveg ótrúlega duglegur að tileinka sér nýja tækni með góðri aðstoð frá Önnu Kötu. Afi var mikil félagsvera og síðasta ár með öllum sínum samkomutakmörkunum reyndist honum erfitt. Ég er mjög þakklát fyrir föstudagana sem við áttum saman nú eftir áramót og vildi nú bara að þeir hefðu getað orðið fleiri.

Elsku afi, það er erfitt að venjast því að hafa þig ekki lengur hjá okkur. Þó að heilsan hafi verið farin að bresta hjá þér þá náði ég ekki að undirbúa mig undir fráfall þitt. Ég sakna þín svo sárt en veit að þú ert komin á góðan stað og að amma hefur tekið vel á móti þér með nikkuna í fanginu. Takk fyrir allt sem þú gafst mér, hlýjuna, viskuna, bóndabeygjurnar og gælunöfnin. Ég elska þig og hlakka til að hitta þig aftur hinum megin við regnbogann.

Þín

Íris.

Nú þegar vorið umvefur Skagafjörðinn okkar og miðnætursólin slær rauðleitum blæ á land og haf kvaddi Sveinn frændi okkar í Geitagerði þetta jarðlíf og hélt inn í sumarlandið. Hann þekkti miðnætursólina vel, fæddur og uppalinn á Hrauni á Skaga, þar sem hún á þessum tíma siglir á sjónum við ysta haf og baðar allt í gullnum geislum sínum. Hann fór ungur suður til Reykjavíkur í vinnu eins og títt var í þá daga og stundaði ýmis störf, meðal annars hjá Vegagerðinni, þar sem hann var hefilmaður. Árið 1965 fluttu Sveinn og Anna konan hans með börnin sín norður í Skagafjörð og fóru að búa í Geitagerði. Það var yndislegt að fá þessa fjölskyldu í nágrennið, þeim fylgdi glaðværð og góð nærvera. Marga kvöldstundina var skroppið upp í Geitagerði í kaffisopa og gott spjall, þar sem slegið var á létta strengi og dægurmálin krufin til mergjar. Gestrisni þeirra hjóna var mikil og þau vinmörg, húsið ekki stórt en alltaf pláss fyrir gesti og gangandi í lengri eða skemmri tíma. Það eru örugglega margir sem eiga góðar minningar frá sumardvöl hjá þeim Sveini og Önnu. Á fyrstu árum þeirra hjóna í Geitagerði vann Sveinn með búskapnum við að flytja mjólk fyrir bændur í Staðarhreppi til Sauðárkróks. Þetta var erfið og krefjandi vinna, margir þungir mjólkurbrúsar sem lyfta þurfti upp á bílinn í hverri ferð og mjölpokar í bakaleiðinni. Vegirnir ekki uppbyggðir og ef snjóþungt var, þá var það handskóflan sem greiddi för. Ýmislegt fleira vann Sveinn fyrir sitt nærsamfélag, hann var m.a. lengi réttarstjóri í Staðarrétt og svo mætti lengi telja og öllum verkum var skilað með heiðri og sóma.

Nú þegar við kveðjum Svein frænda okkar þá er okkur efst í huga þakklæti fyrir gott nágrenni og samstarf í bústörfunum sem samtvinnuðust vegna legu bæjanna og varði í fjóra áratugi. Einnig þökkum við alla hjálpsemina við okkur bræður og foreldra okkar á Reynistað í gegnum öll þessi ár.

Á kveðjustund er þungt um tungutak

og tilfinning vill ráða hugans ferðum.

Því kærum vini er sárt að sjá á bak

og sættir bjóða drottins vilja og gerðum.

En Guðs er líka gleði og ævintýr

og góð hver stund er minningarnar geyma.

Farðu vel, þér fylgi hugur hlýr

á ferð um ljóssins stig, og þagnarheima.

(Sigurður Hansen)

Elsku Erla, Steini og Gitta. Innilegar samúðarkveðjur til ykkar og fjölskyldna ykkar.

Bræðurnir á Reynistað,

Jón, Steinn, Helgi og fjölskyldur.

Vorið var kalt og þurrt í Skagafirði þetta árið og nýgræðingurinn tók seint við sér. Sveinn bóndi í Geitagerði hafði séð það oft áður og tók því með sinni meðfæddu ró og yfirvegun. Veðrið og bóndinn töluðust á og fyrir Sveini var veðrið hluti af tilverunni og breytileiki þess hluti af verkefnunum sem lágu fyrir. Þau voru ærin hjá Sveini vini mínum gegnum árin. Áræðinn maður sem tók við rýru búi og byggði upp með viljann einan að vopni. Sveinn sóttist ekki eftir veraldlegum auði, heldur var hans markmið að búa fjölskyldu sinni öruggt skjól. Umhverfi Sveins með fjölskyldu og vinum mótaðist af vilja hans, að vera fyrirmynd jafnt ungra sem eldri til vináttu og mannbætandi verka. Það tókst Sveini í Geitagerði með sóma.

Ég var strákur í sveit hjá ömmu og afa á Mel, þegar Sveinn og Anna fluttust með fjölskyldu sinni að Geitagerði. Stutt var á milli jarða og vinátta og velvilji sjálfgefin á milli bæja. Sveinn og afi fundu fljótt taktinn, þrátt fyrir aldursmun. Þar fóru saman tveir hjáleigubændur með góð hjörtu og sterkan vilja. Hjálpsemi fjölskyldunnar í Geitagerði við afa og ömmu á Mel var óeigingjörn og velvilji fylgdi þar hverju verki. Fyrir það erum við afkomendur frá Mel ævarandi þakklát Sveini og fjölskyldu hans.

Árin liðu og börn urðu að ungu fólki. Lífstakturinn breyttist. Við Erla í Geitagerði höfðum þekkst í mörg ár í sveitinni á sumrin. Sem ungt fólk fundu hjörtu okkar nýjan takt, sem varð samhljóma. Við stofnuðum fjölskyldu, Maggi og Anna Kata komu í heiminn og við urðum saman hluti af Geitagerðisfjölskyldunni. Það var mikil gæfa fyrir okkur að eiga Svein og Önnu sem afa og ömmu með sína opnu arma fulla af gleði og hlýju.

Við bjuggum fyrir sunnan, en hugsanir okkar voru alltaf tengdar Geitagerði. Að skreppa norður var sjálfgefið hvenær sem tími gafst. Á þeim tímum þótti það umhugsunarvert að fólk ferðaðist á milli landshluta eins og að skreppa út í búð. Sérstaklega með börn á öllum tíma ársins. En hugar báru okkur ávallt alla leið. Samverustundir í Geitagerði voru gleðigjafar fyrir börn sem fullorðna.

Búskapur er hins vegar ekki tóm sæla og það þekkti Sveinn af eigin raun. Það þarf að sinna verkum og heyskapur á sumrin gefur engin grið. Hann var hamhleypa til allra verka. Helst við heyskap var hægt að lyfta undir horn með Sveini og það reyndist góður skóli fyrir ungan mann, sem ég er þakklátur fyrir.

Á góðum stundum sátum við Sveinn oft við eldhúsborðið í Geitagerði og ræddum allt milli himins og jarðar. Sveinn var vel lesinn og fylgdist grannt með samfélagsmálum. Hendur hvíldu á borði. Mínar sem nýkomnar úr móðurkviði, hendur Sveins þrútnar af þrautseigju og dugnaði. Maður hlustaði og meðtók ráðgjöf Sveins í Geitagerði.

Það mun vora á ný í Skagafirði og Sveinn í Geitagerði lítur ávallt til veðurs. Hann mun lyfta undir hendur þeirra sem eru að strita við búskap. Ekki með afli, en góðar minningar um Svein í Geitagerði létta mönnum störf og verða ávallt fyrirmynd til góðra verka. Það þekki ég af ljúfum minningum og er þakklátur góðum vini.

Jón Magnússon.

Nú hefur hann Sveinn Steinsson, sá næstsíðasti úr stóra systkinahópnum frá Hrauni á Skaga, kvatt þessa jarðvist að vel loknu dagsverki.

Ég man fyrst eftir Sveini þegar ég var um 6 ára en þá bjó hann ásamt konu sinni og Erlu dóttur sinni í Reykjavík en þar bjuggu þau um skeið. Var ég daglegur gestur hjá þeim en stutt var til þeirra þaðan sem ég bjó.

Sjálfsagt togaði Skagafjörðurinn alltaf í drenginn af Skaganum og þegar tækifæri gafst á að flytja í Geitagerði í Staðarhreppi á litla jörð við hliðina á Reynistað þar sem Guðrún systir hans bjó þá ákváðu þau hjón að flytja norður.

Ég kom fyrst í sveit til Sveins og Önnu 11 ára gömul borgarstelpa algjörlega blaut á bak við eyrun hvað sveitalífið varðandi. Það þurfti því að kenna stelpunni á sveitina og ákveðið var að keyra með mig fram í Sæmundarhlíð en ég átti að hjálpa til við að finna fjólubláskjótta hestinn þeirra. Ég reyndi af mikilli samviskusemi að hjálpa til við leitina en þegar Sæmundarhlíðin var á enda og ekkert gekk sprakk frænka mín úr hlátri yfir trúgjörnu systurdótturinni en þetta var reyndar hvorki í fyrsta né síðasta skiptið sem reynt var að plata hana.

Ég dvaldi hjá Sveini og Önnu ásamt börnum þeirra í sveit í 6 sumur sem og bræður mínir um nokkurn tíma. Dvölin hjá þeim var rjómi æsku minnar og hefði ég ekki viljað fyrir nokkurn mun missa af þessum árum.

Sveinn var spaugsamur og bjó gjarnan til skemmtileg gælunöfn á okkur krakkana sem gjarnan voru notuð í daglegu tali milli okkar og við frændsystkinin grípum gjarnan í við góð tækifæri.

Það eru margar góðar minningar þegar hugsað er um árin í Geitó. Ein er minnisstæð, en kýrnar voru hafðar milli mjalta í Melsgili á sumrin. Einn morguninn tölti ég eftir kúnum en fann hvergi.

Sendur var út leitarflokkur og eftir mikla leit fundust þær á hlaupum úti við Gýgjarhól en þær höfðu ákveðið að bregða sér í Krókinn. Mér fannst það ekkert sérlega sniðugt hjá þeim þá en í dag finnst mér þær hafa bara verið býsna góðar að láta sér detta þetta í hug! Það þarf að sjálfsögðu ekki að taka fram að ekki þurfti að mjólka þær þennan morguninn!

Það var alltaf mikill gestagangur í Geitagerði, bæði af sveitungum ásamt vinafólki sem kom að og dvaldi um stund. Alltaf var pláss fyrir einn til viðbótar í litla kotinu.

Hann Sveinn skilur eftir sig gott orðspor. Hann var góður drengur í bestu merkingu þess orðs, traustur vinur og maður orða sinna og ég mun alltaf hugsa til hans með mikilli hlýju!

Samúðarkveðjur til ykkar elsku Erla, Steini, Gitta og fjölskyldur!

Hvíl í friði elsku Svenni minn og takk fyrir öll góðu árin!

Helga Rósa Guðjónsdóttir.