Kjartan Magnússon
Kjartan Magnússon
Eftir Kjartan Magnússon: "Áratugum saman hafa jarðvísindamenn varað ráðamenn við því að velja nýjum flugvelli stað í Hvassahrauni vegna eldgosahættu."

Landhelgisgæslan gegnir afar mikilvægu hlutverki við björgun á sjó og landi. Með þyrlum hennar hefur hundruðum mannslífa verið bjargað og þúsundum komið til hjálpar. Af augljósum ástæðum er hentugast að flugfloti Gæslunnar hafi aðstöðu í Reykjavík og sé gerður út þaðan, enda er Landspítalinn þar og flest björgunarútköll í nágrenni höfuðborgarsvæðisins.

Flestir Íslendingar eru stoltir af Landhelgisgæslunni og þakklátir fyrir störf hennar. Höfuðstöðvar Gæslunnar eru í Reykjavík og eðlilegt er að borgaryfirvöld veiti henni þar alla þá fyrirgreiðslu sem hún þarf í þágu björgunarstarfa hennar.

Ánægjulegt er að björgunargeta Landhelgisgæslunnar skuli hafa aukist til muna eftir að þriðja þyrlan bættist við flugflota hennar í maímánuði. Er nú svo komið að flugskýli Gæslunnar rúmar ekki öll loftför hennar og augljóst að þar þarf að bæta úr með því að byggja nýtt skýli.

Verður Gæslan rekin í Hvassahraun?

Á sama tíma og landsmenn glöddust yfir því að ný þyrla bættist í flota Landhelgisgæslunnar kom hins vegar enn og aftur í ljós að forystumenn vinstri meirihlutans í borgarstjórn Reykjavíkur vilja flæma rekstur björgunarþyrlna Landhelgisgæslunnar úr borginni og í Hvassahraun. Formaður skipulagsráðs tekur vægast sagt fálega í óskir Gæslunnar um að hún fái leyfi til að reisa nýtt flugskýli á Reykjavíkurflugvelli svo hægt sé að hýsa öll loftför hennar.

Veruleikafirring vinstrimanna

Það er til marks um veruleikafirringu forystumanna vinstri meirihlutans í borgarstjórn að í stað þess að veita Landhelgisgæslunni sjálfsagða fyrirgreiðslu í Reykjavík vísa þeir Gæslunni á Hvassahraun þegar hún óskar eftir auknu rými undir björgunarþyrlurnar.

Áratugum saman hafa jarðvísindamenn varað ráðamenn við því að velja nýjum flugvelli stað í Hvassahrauni vegna eldgosahættu. Atvinnuflugmenn hafa einnig um langa hríð varað við flugvelli í Hvassahrauni vegna lélegra aðflugsskilyrða og sviptivinda.

Þrátt fyrir að ýmsar rannsóknir hafi verið gerðar á flugvallarstæði í Hvassahrauni með neikvæðri niðurstöðu er ætlunin að sóa hundruðum milljóna til viðbótar til enn frekari rannsókna þar. Yfirstandandi eldsumbrot í nágrenni umrædds flugvallarstæðis og spár vísindamanna um að ný hrina eldgosa sé hafin á Reykjanesskaga hafa ekki dregið úr vilja borgarstjóra og formanns skipulagsráðs til að nýr flugvöllur verði lagður í Hvassahrauni, sem a.m.k. myndi kosta hátt í hundrað milljarða króna.

Óverjandi er að skattfé sé áfram sóað í slíkt gæluverkefni, að því er virðist til að friða vinstrimenn, sem vilja flæma alla flugvallarstarfsemi úr Reykjavík sem fyrst.

Höfundur óskar eftir 3.-4. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, sem fram fer 4.-5 júní.

Höf.: Kjartan Magnússon