Reykjastræti Ný göngugata/stofnstígur sem liggur eftir Hafnartorgi og Austurhöfn, milli Hafnarstrætis og Hörpu. Strætið þverar Geirsgötuna.
Reykjastræti Ný göngugata/stofnstígur sem liggur eftir Hafnartorgi og Austurhöfn, milli Hafnarstrætis og Hörpu. Strætið þverar Geirsgötuna. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Sigtryggur Sigtryggsson sisi@mbl.is Skipulags- og samgönguráð Reykjavíkur samþykki á síðasta fundi sínum að gönguþverun yfir Geirsgötu, móts við Reykjastræti, verði stjórnað með umferðarljósum.

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Skipulags- og samgönguráð Reykjavíkur samþykki á síðasta fundi sínum að gönguþverun yfir Geirsgötu, móts við Reykjastræti, verði stjórnað með umferðarljósum.

Fram kemur í greinargerð deildarstjóra samgangna hjá Reykjavíkurborg að í tengslum við uppbyggingu Austurhafnar hafi skrifstofa samgöngustjóra og borgarhönnunar unnið að frágangi svæðisins í samstarfi við skrifstofu framkvæmda og viðhalds. Reykjastræti er samkvæmt skipulagi göngugata/stofnstígur sem liggur milli Hafnarstrætis og Hörpu. Þegar Reykjastræti verður opnað megi búast við töluverðri umferð gangandi vegfarenda yfir götuna. „Með hliðsjón af fjölda gangandi vegfarenda, fjölda akreina á Geirsgötu og því að umferð bíla er einnig mikil er æskilegt út frá sjónarmiðum umferðaröryggis að umferðarljós séu á gönguþveruninni,“ segir þar.

Á Geirsgötu eru þegar tvær ljósastýrðar gönguþveranir. Önnur er á móts við Hafnarhúsið og hin á móts við Tollhúsið. Umferðarljósin við Tollhúsið hafa ekki verið í notkun að undanförnu vegna framkvæmda. Gert er ráð fyrir að ljósabúnaður þeirra, sem er kominn til ára sinna, verði endurnýjaður samhliða framkvæmdinni. Gangbrautarljósin og umferðarljósin á gatnamótum Geirsgötu/Lækjargötu/Kalkofnsvegar verða samstillt. Undirbúningur vegna endurnýjunar ljósanna og vegna gerðar nýrrar ljósastýrðrar gönguþverunar hefur verið unninn í samstarfi við Vegagerðina, sem er veghaldari Geirsgötu, segir í greinargerðinni.

Gönguþverunin á móts við Reykjastræti var samþykkt með atkvæðum meirihlutaflokkanna í ráðinu en fulltrúar Sjálfstæðisflokksins greiddu atkvæði gegn tillögunni. Þeir bókuðu að ljósastýringar við Geirsgötu væru í molum og yllu miklum óþarfa töfum á umferð. „Umferðarljós eru illa stillt og er umferð á rauðu ljósi ítrekað að óþörfu. Mikilvægt er að gera úrbætur í þessum efnum áður en enn einum ljósum verði bætt við með tilheyrandi óþarfa töfum á umferð, mengun, óþægindum og minnkandi öryggi fyrir óvarða vegfarendur.“