Es Devlin hannaði „Skóg breytinga“ við Somerset House í London í samvinnu við Project Everyone. Þar standa nú 400 tré og í rjóðri geta gestir kynnt sér heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna.
Es Devlin hannaði „Skóg breytinga“ við Somerset House í London í samvinnu við Project Everyone. Þar standa nú 400 tré og í rjóðri geta gestir kynnt sér heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. — AFP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Lundúnatvíæringurinn í hönnun var settur 1. maí. Tvíæringnum er ætlað að ýta undir alþjóðlegt samstarf í hönnun og undirstrika þá þýðingu sem greinin hefur um heim allan.

Lundúnatvíæringurinn í hönnun var settur 1. maí. Tvíæringnum er ætlað að ýta undir alþjóðlegt samstarf í hönnun og undirstrika þá þýðingu sem greinin hefur um heim allan. Á sýningin að bera vitni „metnaði til að búa til altæk svör við vandamálum, sem varða okkur öll“, segir í kynningartexta á vefsíðu tvíæringsins.

Stjórnandi tvíæringsins er Es Devlin, sem hefur komið víða við í verkum sínum. Hún er sennilega þekktust fyrir sviðsskúlptúra, sem hún hefur gert fyrir Beyoncé, U2, The Weeknd, Adele og Kanye West.

Devlin hannar jafnframt burðarverk tvíæringsins, „Skóg breytinga“, innsetningu með 400 trjám í portinu fyrir framan Somerset House þar sem tvíæringurinn er haldinn.

Devlin rifjaði upp í viðtali við breska blaðið The Guardian að fyrir mörgum árum þegar verið var að sýna henni Somerset House hefði henni verið sagt að í portinu mættu ekki vera nein tré. „Auðvitað var það fyrsta sem við vildum gera þegar við fórum að íhuga tvíæringinn í ár að koma með þann mótleik gegn þessum hugmyndum um drottnun mannsins á náttúrunni að leyfa skógi að yfirtaka allt portið.“

Kvaðst hún einnig hafa haft í huga að skógar væru iðulega vettvangur umbreytinga í bókmenntum, hvort sem það væri Arden-skógur, sem kemur fyrir í Sem yður þóknast eftir Shakespeare, eða álagaskógar í Grimmsævintýrum.

Í skóginum eru 23 trjátegundir sem finna má á Bretlandi og í Norður-Evrópu. Þar er einnig rjóður þar sem gestir geta kynnt sér heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun, upprætingu fátæktar, baráttu gegn ójafnrétti og aðgerðir gegn loftslagsvá.

Trén verða svo fjarlægð og gróðursett annars staðar þegar tvíæringnum lýkur 27. júní.