Hinar ýmsu íþróttagreinar eru hver með sinn háttinn á því að skrá úrslit leikja og móta á sínar heimasíður.
Hinar ýmsu íþróttagreinar eru hver með sinn háttinn á því að skrá úrslit leikja og móta á sínar heimasíður. Flestöll sérsambönd hafa þróað sitt kerfi á þann hátt að hægt sé að fylgjast með leikjum og mótum „í beinni“ og fá þannig allar helstu upplýsingar um gang mála jafnóðum.

Körfuboltasambandið var í fararbroddi á þessu sviði hérlendis og um árabil hefur mátt fylgjast með hverju frákasti og hverri villu í beinum uppfærslum á leikskýrslum á vef KKÍ. Handboltinn tók stökkið inn á 21. öldina með samstarfi við HB-Statz sem uppfæra leiki efstu deilda í beinni og blakið er með flotta útfærslu á beinum uppfærslum á sínum leikjum á netinu. Í frjálsum, golfi og sundi er hægt að treysta á að fá úrslit hratt og vel eftir hverja grein eða holu.

En stærsta sambandið, KSÍ, er nátttröllið á þessu sviði og hefur dagað uppi á 20. öldinni. Þar hafa engar framfarir orðið í uppfærslum á leikskýrslum frá aldamótum. Kerfið er til staðar og stöku félag nýtir það og uppfærir mörk og spjöld og annað það helsta jafnóðum. Bara of fá.

Hvað eftir annað gerist það að leikskýrsla er ekki komin á netið fyrr en 2-3 tímum eftir leik sem auk þess er ekki uppfærður í beinni. Tvö nýleg dæmi eru leikur KR og ÍA í úrvalsdeild karla og leikur Gróttu og Þróttar í 1. deild karla. Í hvorugu tilfellinu var hægt að sjá á vef KSÍ hvernig leikurinn hafði farið, hvað þá frekari upplýsingar um leikinn, þegar tveir tímar voru liðnir frá því flautað var til leiksloka.

Dómarar sjá um að skila skýrslum á netið og eru mislengi að því. Ábyrgðin er sögð þeirra. En af hverju eru félögin ekki gerð ábyrg eins og í öðrum greinum? Fótbolti er einfaldasta íþróttagreinin til að uppfæra beint á þennan hátt, fá atvik og nægur tími meðan leikurinn stendur yfir. Takið ykkur nú tak!