Stóri-Börkur NK kemur til hafnar í Neskaupstað með fullfermi af loðnu árið 1989.
Stóri-Börkur NK kemur til hafnar í Neskaupstað með fullfermi af loðnu árið 1989. — Ljósmynd/Haraldur Bjarnason
Nöfnin á skipum Síldarvinnslunnar í Neskaupstað byrja öll á upphafsstafnum B. Nýr Börkur er fimmta skipið með þessu nafni í flota Norðfirðinga. Stóri-Börkur er mörgum minisstæður, en skipið kom með 1.546.235 tonn að landi á þeim 43 árum sem það var gert út frá Neskaupstað.

Ágúst Ingi Jónsson

aij@mbl.is

Frá gamalli tíð hafa skip og bátar Síldarvinnslunnar byrjað á nöfnum sem byrja á B. Sá Börkur sem kom til heimahafnar í Neskaupstað á fimmtudag er fimmta skipið sem ber Barkarnafnið. Í þeirri nafnasögu er þekktast skip sem gjarnan gekk undir heitinu Stóri-Börkur og það þóttu mikil firn þegar skipið kom með 1.350 tonn af loðnu.

Smári Geirsson, rithöfundur í Neskaupstað, hefur fjallað um sögu Síldarvinnslunnar, en fyrirtækið var stofnað 1957. Útgerð byrjaði fyrirtækið 1965 og þá á bátunum Barða og Bjarti. Fyrra nafnið tengist þjóðsögu úr Norðfirði, að sögn Smára, það síðara fannst mönnum við hæfi þar sem bjart var yfir starfsemi fyrirtækisins.

Fyrsti Börkur kom 1966 og var hann einkum gerður út á síld og loðnu til 1972, en nafnið þýðir meðal annars bátur eða skip. Skip með Birtingsnafni voru lengi í eigu Síldarvinnslunnar, en nafnið er dregið af nafninu Bjartur. Þegar togari var keyptur frá Spáni 1973 var haldin nafnasamkeppni og varð heitið Blængur fyrir valinu, en það er meðal nafna sem notuð eru um hrafninn, að sögn Smára. Loks er það uppsjávarskipið Beitir, sá sem siglir beitivind.

Stóri-Börkur, sem svo er nefndur, var gerður út af Síldarvinnslunni 1973-2016 og bar nafnið Birtingur undir það síðasta. Nýtt uppsjávarskip bar Barkarnafnið 2012-14, en þá tók fjórða skipið með þessu nafni við. Það var smíðað í Noregi 2012 og er til sölu.

Margir voru efins um kaupin

Í samantekt Smára í tilefni af 60 ára afmæli Síldarvinnslunnar 2017 kemur fram að í upphafi útgerðar hafi áhersla verið lögð á síldveiðar. Þegar síldin brást í lok sjöunda áratugarins voru skip fyrirtækisins endurnýjuð og 1973 festi fyrirtækið þá kaup á stóru uppsjávarskipi, Stóra-Berki, sem var þúsund lestir að stærð. Margir voru efins um þessi skipakaup og hvort svo stórt skip væri hagkvæmt til loðnuveiða, en á næstu árum sannaði skipið sig. Það hentaði vel til loðnuveiða og til að sigla með fullfermi heim til Neskaupstaðar, stundum 14-18 tíma stím í misjöfnum vetrarveðrum. Einnig var reiknað með að það yrði drjúgt á kolmunnaveiðum.

Börkur var smíðaður í Noregi 1968 og hafði verið í eigu norsks fyrirtækis en skráð með heimahöfn á Bermúdaeyjum. Skipið hafði verið gert til nótaveiða við strendur Afríku, en útgerðin gengið illa. Þegar Síldarvinnslan festi kaup á skipinu var fiskimjölsverksmiðja um borð en hún var tekin úr skipinu og seld. Eftir því sem árin liðu, einkum 1998 og 1999, voru gerðar miklar endurbætur á skipinu.

Árum saman gekk erfiðlega að finna Berki nægjanleg verkefni og var eilíft verið að leita verkefna sem hentuðu. Meðal annars var Börkur við síld- og makrílveiðar í Barentshafi fyrstu fjögur sumrin sem Síldarvinnslan átti hann. Fyrri hluta árs 1975 hafði Börkur veitt hrossamakríl undan ströndum Norðvestur-Afríku og síðla sumars það ár var skipið sent til loðnuveiða í Barentshafi. Um árabil var skipið nýtt til að sigla með ísaðan fisk frá Neskaupstað til Grimsby yfir sumarmánuðina og til baka flutti hann ódýra olíu sem Síldarvinnsluskipin nýttu.

Gæfuspor fyrir fyrirtækið

Með tímanum jukust verkefni Barkar og að því kom að unnt var að halda honum til fiskjar á heimamiðum stærstan hluta ársins. Í upphafi voru sett 750 tonn í skipið, en stærsti farmurinn var 1.350 tonn og þótti það gríðarlega stór farmur. Til samanburðar má nefna að Beitir NK ber yfir þrjú þúsund tonn.

Árið 2012 festi Síldarvinnslan kaup á nýum Berki og fékk gamli Börkur þá nafnið Birtingur og bar það nafn þar til hann var seldur úr landi 2016. Aflasaga skipsins er einstök eins og fram kemur í niðurlagi greinar Smára Geirssonar um Stóra-Börk:

„Afli Barkar (síðar Birtings) á þeim 43 árum sem hann var í eigu Síldarvinnslunnar nam 1.546.235 tonnum og eru líkur á að ekkert íslenskt fiskiskip hafi borið jafn mikinn afla að landi. Því má segja að kaup Sildarvinnslunnar á „stóru“ loðnu- og kolmunnaveiðiskipi árið 1973 hafi reynst vera gæfuspor fyrir fyrirtækið.“