— Morgunblaðið/Eggert
Dregið var í gær um í hvaða röð árgangarnir 1975 til 2005 verða bólusettir á höfuðborgarsvæðinu. Árgangarnir dreifast yfir næstu þrjár vikur eða til 25. júní og er gert ráð fyrir að hægt sé að bólusetja tíu árganga í hverri viku.

Dregið var í gær um í hvaða röð árgangarnir 1975 til 2005 verða bólusettir á höfuðborgarsvæðinu. Árgangarnir dreifast yfir næstu þrjár vikur eða til 25. júní og er gert ráð fyrir að hægt sé að bólusetja tíu árganga í hverri viku. Röðina má sjá meðal annars á mbl.is.

Yfir 100 þúsund Íslendingar teljast nú fullbólusettir gegn Covid-19 en um 187 þúsund hafa fengið að minnsta kosti fyrri skammt. Mest hefur verið bólusett með Pfizer-bóluefninu.

Sjö smit greindust innanlands í fyrradag og voru þau öll utan sóttkvíar. Að sögn Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis er um að ræða smit innan eins hóps sem sé mjög afmarkaður. Smitaðir eru umsækjendur um alþjóðlega vernd sem búa á afmörkuðum stað á vegum hins opinbera. Alls voru 1.720 skimaðir innanlands í fyrradag og 1.706 á landamærunum. Nýgengi innanlands á hverja 100 þúsund íbúa síðustu tvær vikurnar er 10,6 og 2,7 á landamærunum.