— Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sjómannadagshelgin leiðir hugann að orðafari um sjó og sjómennsku. Myndræn og krassandi eru orð eins og aflakló og fiskifæla , annað jákvætt að merkingu en hitt alls ekki.

Sjómannadagshelgin leiðir hugann að orðafari um sjó og sjómennsku. Myndræn og krassandi eru orð eins og aflakló og fiskifæla , annað jákvætt að merkingu en hitt alls ekki. Orðin í málinu raða sér oft saman, ekki aðeins í samsett orð á borð við þessi, heldur í alls konar orðasambönd, pör og samstæður; vera á skaki , róa upp á hlut . Ýmis spakmæli, orðskviðir og málshættir standa á aldagömlum merg, eiga gjarna erlendar samsvaranir eða fyrirmyndir og varðveita einhverja (meinta) speki; eru stuttar setningar sprottnar af langri reynslu. Eins og nærri má geta er efni þeirra oft sótt í viðureign fyrri kynslóða við sjóinn og í sóknina eftir þeirri lífsbjörg sem hafið geymir. Svipull (eða: Svikull ) er sjávar afli . – Hægur byr er bestur („sígandi lukka er best; best er að velgengni komi smám saman“ eins og Jón G. Friðjónsson orðar það í hinu frábæra riti sínu Orð að sönnu).

Ófá eru ljóðin og kvæðin um sjó og sjómennsku og dægurlagatextarnir margir, og á árum áður var haldið úti sérstökum útvarpsþáttum með óskalögum sjómanna. Fast þeir sóttu sjóinn , orti Ólína Andrésdóttir um Útnesjamenn.

Yrkisefnin eru fjölbreytt þegar að er gáð. Sjómennskan er ekkert grín , í sjálfu sér, en sjómannslífið, draumur hins djarfa manns , getur átt sínar ljúfu og skemmtilegu hliðar í kvæðunum, ekki síður en show-mennskan sem er sennilega orðin fjölmennari starfsgrein hérlendis. Og stöku textasmiðir kynna til leiks sjómenn í þungum þönkum: djúpur er minn hugur eins og hafið . Einn ljóðmælandinn er skelfing seinheppinn kokkur á kútter frá Sandi og ekki má gleyma hinum drykkfellda Þórði sem elskaði þilför , hvorki meira né minna. Gæti verið að textinn með þessu líkingamáli hafi átt sinn þátt í að breiða út þá merkingarvíkkun sagnarinnar elska sem nú er orðin hversdagsleg?

Oftar er eindregnari hetjubragur á persónunum, svo sem Jóni sem var kræfur karl og hraustur og sigldi um hafið út og austur og annar texti, sem sunginn er við undurfallegt lag, geymir þá speki að þótt stormur strjúki vanga, það stælir karlmannslund . Það voru karlarnir sem kunnu að stýra, og styrk var þeirra mund , og það eru karlar sem eru fræknir fiskimenn og fást við úfinn sjá .

En stundum koma konur við sögu sem gerendur með hlutverk í atvinnulífinu, en ekki aðeins sem efni í drauma og þrár karlanna þegar þeir eru úti á sjó: Hér reri hann afi á árabát / og undi sér best á sjó / en amma hafði á öldunni gát / og aflann úr fjörunni dró . Þegar kemur að landvinnslunni förum við að sjá konurnar við störf. Jónas Árnason orti um dugnaðarforkinn Hríseyjar-Mörtu sem kallaði og kallaði á aðra síldartunnu og salt, meira salt! Annar snillingur ekki síðri dró upp ógleymanlega mynd í Ísbjarnarblús sínum: Við vélina hefur hún staðið síðan í gær / blóðugir fingur, illa lyktandi tær / þúsund þorskar á færibandinu þokast nær .

Ari Páll Kristinsson ari.pall.kristinsson@arnastofnun.is

Höf.: Ari Páll Kristinsson ari.pall.kristinsson@arnastofnun.is