Þuríður Saga Guðmundsdóttir fæddist 26. júní 1965. Hún lést 21. maí 2021.

Útförin fór fram 4. júní 2021.

Nú er hún Þurý farin í sumarlandið og ef haft er í huga hversu mikill töffari hún ávallt var er líklegast að þangað hafi hún þeyst á mótorhjólinu sínu. Ætíð var notalegt að hitta hana og aldrei neinn barlómur hjá henni þrátt fyrir að lífið hafi úthlutað henni þyngri bakpoka en flestum okkar. Ung varð hún móðir og átti sín yndislegu tvö börn fyrir tvítugt, keypti íbúð og átti „bomsu“ en það viðurnefni áttu skódar þess tíma og ef þeir voru sérlega flottir voru þeir „skódi með rennilás“. Síðar flutti hún til Svíþjóðar og átti þar heimili með börnum sínum, aftur sneri hún heim á „klakann“ og þá um leið búin að koma sér upp fallegu heimili. Þannig var lífið hennar; Þurý ávallt búin að búa sér og sínum svo fallegt hreiður og ekkert mál að græja það, Þurý hafði svo ótrúlega mikla orku og var fljót að koma hlutum í framkvæmd. Það sem einkenndi hana var hennar fallega bros, jákvæðni og bjartsýni sem ávallt var til staðar, enginn barlómur eða sjálfsvorkunn. Það var mikils virði að finna og eiga ávallt vináttu hennar vísa, hún var trygg sínum vinum og góð heim að sækja. Það var notalegt að finna þann kærleika sem einkenndi hana þegar við hittumst þessi skipti sem voru svo alltof fá, það vill gleymast í dagsins önn að „lífið er núna“. Bið þess að góðar vættir og hlýir straumar styðji og styrki börn hennar, barnabörn, systkini og vini sem nú sjá á bak sinni elsku Þurý. Kveðja í sumarlandið,

Sólveig Gyða Jónsdóttir.