Magnús Bjarnason fæddist 4. janúar 1942. Hann lést 18. maí 2021.

Magnús var jarðsunginn 3. júní 2021.

Þú varst okkur afi svo undur góður

og eftirlést okkur dýran sjóð,

með bænum og blessun þinni.

Í barnsins hjarta var sæði sáð,

er síðan blómgast af Drottins náð,

sá ávöxtur geymist inni.

Við allt viljum þakka afi minn,

indælu og blíðu faðmlög þín,

þú vafðir oss vina armi.

Hjá vanga þínum var frið að fá

þá féllu tárin af votri brá,

við brostum hjá þínum barmi.

Við kveðjum þig elsku afi minn,

í upphæðum blessuð sólin skín,

þar englar þér vaka yfir.

Með kærleika ert þú kvaddur í dag,

því komið er undir sólarlag,

en minninga ljós þitt lifir.

Leiddu svo afa góði guð

í gleðinnar sælu lífsfögnuð,

við minningu munum geyma.

Sofðu svo afi sætt og rótt,

við segjum af hjarta góða nótt.

Það harma þig allir heima.

(Halldór Jónsson)

Þínar afastelpur,

Ingunn Eva og Rakel Eva.

Nú er minn ágæti vinur og nafni horfinn á braut, margs er að minnast af samverustundum í hartnær fjörutíu ár. Við vorum nokkuð sammála nafnarnir yfirleitt og þurftum lítið að rífast. Báðir voru um tíma forstöðumenn, hvor sinnar deildar hjá kaupfélagi Rangæinga. Konur okkar störfuðu saman og voru vinkonur. Störf okkar nafnanna um langt árabil fólust í því að leysa vanda þeirra sem leituðu á verkstæði kaupfélagsins.

Magnús Bjarnason var einstakur greiðamaður og glaðlyndur, gerði engan mannamun. Hann var fæddur og uppalinn í sveit, raunar bóndi sjálfur um tíma. Magnús var öllum hnútum kunnugur varðandi rafmagn og glúrinn viðgerðarmaður á öllum sviðum. Nafni minn hafði þá náðargáfu að geta unnið með öllum, án nokkurra árekstra, góður mannþekkjari var hann. Þurfti ekki að hækka sjálfan sig með því að tala aðra niður.

Maggi var með húmorinn í lagi og tók eftir ýmsu spaugilegu í fari samferðamanna, gat líka þannig frá sagt að engan meiddi. Sagði vel frá og minnugur á margt skemmtilegt, bæði laust og bundið. Magnús hafði gaman af kveðskap og var góður hagyrðingur, en hélt því lítið á lofti.

Hann var einstaklega áhugasamur í viðgerðum á öllum vélbúnaði. Ófáa bíla og traktora keypti hann og lagfærði. Veitull gestum og gangandi var nafni og þau hjón bæði, eins og best þekkist, að sönnum sveitamannasið.

Fjöldamörg ár vorum við félagar við spilaborðið, hjá Briddsfélagi Rang. Aldrei kom til árekstra eða ágreinings, eins og stundum vill gerast í hita leiksins. Fremur vil ég þakka það nafna mínum og vini hversu vel okkur gekk oft, raunar spiluðum við félagar aðallega ánægjunnar vegna, þrátt fyrir að báðir væru keppnismenn.

Nokkrar nætur á liðnum árum gistum við Hallveig hjá Magga og Ásu þegar utanlandsferðir voru fram undan. Ekki við annað komandi en við værum flutt til og frá flugvelli og fararskjóti okkar geymdur. Við viljum þakka vináttu og samverustundir liðinna ára, minning um góðan dreng og heilsteyptan vin lifir. Samúðarkveðju sendum við Ásu og afkomendum þeirra góðu hjóna.

Magnús Halldórsson.

Nú er hann Maggi horfinn á lendur forfeðra sinna og efalaust farinn að stokka spilin samhliða því að leita að gömlu spilafélögunum sem hann átti svo margar góðar stundir með. Hann var virtur í þeim hópi, góður að spila bæði í vörn og sókn og glöggur að sjá út sóknarfærin. Hann var hagur mjög í höndum. Margur bíllinn klesstur og krumpinn fékk dvalarstund í bílskúrnum þar sem Maggi fór um hann mjúkum höndum og kom þaðan út gljáfægður og glansandi og þá fengu gamlar dráttarvélar ekki síðri meðferð. Þetta voru aðeins aukaverkin en hann var menntaður rafvirki og stundaði rafvirkjun sem aðalstarf við orðstír góðan. Maggi var vel hagmæltur og margar vísur eftir hann eru til í gestabókum okkar en þau hjónin komu oft á sunnudögum í heimsókn einkum á meðan við bjuggum öll á Hvolsvelli. Innihald vísna var þá oft tengt einhverjum uppákomum í þjóðmálunum, jafnvel skondnum atriðum í lífi hvers og eins. Börnin okkar tengdust órjúfanlegum böndum sem leiddu til margra gleðistunda. Maggi var einn af þessum einstaklingum sem maður á svo margar góðar minningar um. Hann var hress, skemmtilegur, ákveðinn, hreinn og beinn og alltaf tilbúinn að hjálpa og leysa úr vanda einkum hinna smáu. Glettni var honum í blóð borin. Þannig hófust kynni okkar Magnúsar í æsku með heimsóknum milli bæja; Skálakots og Stóru-Merkur en skyldleiki var mikill; við vorum systkinasynir. Auðvitað fylgdu konur okkar með eftir að þær komu til sögunnar. Ferðalög saman bæði hér heima og erlendis hafa orðið til að styrkja vináttuna. Hann var vel fróður um land og sögu þannig að ferðalögin sem gjarnan voru farin um ótroðnar slóðir reyndust hinar skemmtilegustu fróðleiksstundir. Oft komu sögur um sérkennilega fýra sem hann hafði hitt á bæjum þeim sem hann heimsótti við störf sín í rafvirkjun. Þá las hann margar bækur sem fjölluðu um svipað efni. Þá kynnti hann sér ýmislegt áður en hann lagði upp í ferðalögin til útlanda og gerði okkur ferðafélögunum auðveldara fyrir. Núna í seinni tíð lágu ferðir niðri en alls ekki gleymdar. Hann var nefnilega búinn að bóka ferðir á Vestfirði og í Þingeyjarsveit nú í sumar með hótelgistingu fyrir vestan en vikudvöl í sumarhúsi fyrir norðan. Það verður því augljós vöntun á fararstjórn næstu árin.

Vertu sæll, vinur. Þín verður sárt saknað.

Þá viljum við senda okkar innilegustu samúðarkveðjur til Ásu okkar og fjölskyldunnar.

Guðjón og Guðbjörg.

Kveðja til afa

Ef frændsemi er til sem tilfinning, þá hef ég fundið hana. Notaleg tilfinning kærleika, væntumþykju og hlýju. Byggt væntanlega á tvennu; annars vegar barnsminninu, sem hafði frá fyrsta degi notið stuðnings og elsku elsta frænda, og ekki síður hinu, að sjá hve þeim bræðrum, pabba heitnum, yngsta bróðurnum, og Magga, þeim elsta, var hlýtt hvorum til annars, án þess þó að tilfinningar væru bornar að óþörfu á torg. En bragð er að þá barnið finnur.

Það var ekki erfitt að þykja vænt um Magga frænda. Maður sem var öðrum mönnum skemmtilegra að vera í kringum. Orðheppinn og hnyttinn húmoristi, sem lagði þó alltaf gott til náungans, vinur vina sinna, öðrum greiðviknari, alltaf að.

Maggi frændi var þúsundþjalasmiður. Allt lék í höndunum á honum og seiglan og úthaldið slíkt að alltaf fannst lausn á endanum. Ekki var nú verra ef lausnin var aðeins hagkvæmari en öðrum hafði hugnast. Allt gat hann lagað. Hvort sem það voru þvottavélar, dráttarvélar, rafstöðvar eða bílar, jafnvel vonda skapið var lagað! Snúið við og breytt í bros á augabragði, til dæmis með einhverri af ótal gamansögum sem hann átti geymdar í minni.

Líklega mætti segja að frændi hafi verið dellukarl, í ósköp jákvæðri merkingu. Hann tók á lífsleiðinni fyrir ýmsar dellur, tengt ofangreindum viðfangsefnum og við mætti bæta kórsöng, bridds, bústaðarbyggingu, rafstöðvarþróun og hestamennsku, sem mér skilst að hafi endað eftir að hesthúsið var fullbyggt.

Við vorum svo heppin heima í Hildisey að ein af dellum Magga voru framkvæmdir foreldra minna, fjósbygging og fleira. Þegar áhuginn hafði kviknað voru ekki til vandamál, bara lausnir. Hvort sem það var rafkerfi, viðbætt vökvastýri eða kjarnfóðurskömmtunarkerfi fann frændi út úr því. Maggi var á hjólum óþreytandi þar til hann var búinn að greina, hanna, smíða og setja upp.

Nú hefur síðasti Deutz-inn verið gerður upp, síðasti greiðinn inntur af hendi, síðustu skrítlunni skotið af vörum.

Ég segi eins og ótal fleiri geta sagt að leiðarlokum: Takk fyrir allt!

Freyr Ólafsson.