Guðlaugur Þór Þórðarson
Guðlaugur Þór Þórðarson
Þóra Birna Ingvarsdóttir thorab@mbl.is Ísland hefur gert nýjan fríverslunarsamning við Breta sem tekur til allra þátta viðskipta milli ríkjanna. Samningurinn er afar umfangsmikill.

Þóra Birna Ingvarsdóttir

thorab@mbl.is

Ísland hefur gert nýjan fríverslunarsamning við Breta sem tekur til allra þátta viðskipta milli ríkjanna. Samningurinn er afar umfangsmikill. Í honum má finna ákvæði á sviði hugverkaréttinda, heilbrigðisreglna fyrir matvæli, tæknilegra reglugerða um ríkisstyrki, samkeppnismál og starfsumhverfi fyrirtækja.

„Nýr fríverslunarsamningur við Bretland hefur verið forgangsmál í ráðherratíð minni og mun skipta sköpum fyrir bæði íslensk fyrirtæki og neytendur. Ég hef lagt mikla áherslu á að tryggja gott framtíðarsamband við Bretland eftir útgönguna úr Evrópusambandinu og ég er sannfærður um að þessi samningur muni styrkja efnahags- og vinatengsl Íslands og Bretlands um ókomna tíð,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra í tilkynningu. Stjórnarandstaðan gagnrýndi Guðlaug Þór í gær fyrir samráðsleysi vegna málsins.

Samningurinn er að miklu leyti unninn í samvinnu við EES-ríkin en samningaviðræður hafa staðið yfir frá því í september. Guðlaugur segir að það sé í mörg horn að líta í svona víðtækum fríverslunarsamningum. Hann bendir á að Bretar séu að semja við margar þjóðir á sama tíma og það auki flækjustig. Helsta áhrifaþáttinn segir hann þó vera hve langan tíma það hefur tekið fyrir Bretland og Evrópusambandið að ná saman.

Með samningnum fær Ísland aðgang að breskum markaði, sem er afar mikilvægt í ljósi þess að Bretland er einn stærsti útflutningsmarkaður og næstmikilvægasta viðskiptaþjóð Íslendinga. Auk þess geymir samningurinn skuldbindingar ríkjanna á sviði loftslagsmála, sjálfbærni og jafnréttismála en þetta er í fyrsta skipti sem jafnréttismál eru tekin inn sem þáttur í fríverslunarsamningi.

Guðlaugur segir Ísland ekki hafa þurft að gefa neitt eftir í viðræðunum. „Í fríverslunarsamningi sem þessum eru bara sigurvegarar,“ bætir hann við.