Sama hvernig árar í efnahagslífinu, alltaf hækkar fasteignamatið

Enn hækkar fasteignamat á Íslandi. Virðist einu gilda hvort í landinu ríkir samdráttur eða vöxtur, fasteignamatið hækkar og með því álögur á eigendur fasteigna. Matið er í raun eins og sjálfvirkur skattatjakkur, sem veldur því að gjöld á húsnæði hækka langt umfram verðlag og hagvöxt.

Að þessu sinni hækkaði fasteignamat um 7,4% á landinu og var hækkun meiri á höfuðborgarsvæðinu en landsbyggðinni.

Vissulega hefur húsnæðisverð hækkað á höfuðborgarsvæðinu. Þá hækkun má hins vegar ekki rekja til eðlilegrar þróunar framboðs og eftirspurnar, heldur hafa pólitískir ráðamenn beinlínis valdið henni með því að sjá til þess að of lítið er byggt og ber þar meirihlutinn í Reykjavík meginábyrgð.

Mörg sveitarfélög hafa brugðist við hækkun fasteignamats með því að lækka álagningarhlutfallið og er það vel. Það á hins vegar ekki við um þau öll og hafa eigendur atvinnuhúsnæðis verið sérstaklega ósáttir við að álagningarhlutfallið á það hafi lítið lækkað miðað við íbúðarhúsnæði.

Það á til dæmis við í Reykjavík þar sem markmiðið virðist vera að hafa alla skatta og gjöld eins há og leyfilegt er og þótt fasteignagjöld hafi eitthvað verið lækkuð af íbúðarhúsnæði er ekkert slegið af atvinnuhúsnæði.

Í Morgunblaðinu í fyrradag var rætt við forstjóra fasteignafélaganna Eikar og Reita. Í þeirri umfjöllun kom fram að á undanförnum sex árum hefði fasteignaskattur á atvinnuhúsnæði hækkað um 68%.

Guðjón Auðunsson, forstjóri Reita, segir þar að fyrir fimm árum hafi fasteignagjöld verið um 12% af veltu félagsins, en nú séu þau 20% af veltu.

Í greininni á fimmtudag bregðast tveir bæjarstjórar við gagnrýni fasteignafélaganna. Ármann Kr. Ólafsson í Kópavogi segist skilja óánægjuna og þar hafi verið reynt að koma til móts við hana með því að lækka gjöldin. Aldís Hafsteinsdóttir í Hveragerði segir að þar hafi verið reynt að miða við að hækkunin færi ekki fram úr verðlagsþróun með því að lækka álagningarhlutfallið hækki fasteignamatið úr hófi fram.

Aldís gagnrýnir líkt og forstjórar fasteignafélaganna að gagnsæi við ákvörðun fasteignamatsins sé lítið. „Það er jafn snúið fyrir okkur sveitarstjórnarmenn að skilja og gera áætlanir á grundvelli þeirra upplýsinga sem við höfum eins og fyrir atvinnurekendur sjálfa, því auðvitað er fasteignamatsaðferðin sérkennileg og það er lítill fyrirsjáanleiki í henni.“

Vitaskuld er ekki boðlegt að aðferðin við að búa til fasteignamat sé sveipuð dulúð og svo ógagnsæ að stjórnmálamenn og atvinnurekendur standi á gati.

Fasteignamatið hefur margvísleg áhrif. Þeir sem leigja út húsnæði geta ekki endalaust tekið á sig hækkanir sem fylgja hækkun matsins. Fasteignamatið leiðir því óhjákvæmilega til þess að leiga hækkar. Það mun síðan ugglaust verða til þess að fasteignamatið hækkar enn meira næst. Fasteignamatið er því orðið nokkurs konar gerandi í þenslunni og það getur varla verið ætlunin.

Þetta er sérstaklega ergilegt þegar staðan er eins og nú. Fyrirtæki í leiguhúsnæði hafa mörg átt í miklum kröggum vegna kórónuveirufaraldursins. Í miðbæ Reykjavíkur má víða sjá tóma búðarglugga og lokaða veitingastaði. Sú staða ætti tæplega að valda því að fasteignamatið rjúki upp, hvað þá að það hækki umfram verðlag almennt.

Venjulega er það svo að stjórnmálamenn þurfa að taka ákvarðanir um að hækka skatta og verða þá að bera pólitíska ábyrgð á því. Fasteignamatið er leið til þess að hækka skatta sjálfkrafa og stjórnmálamennirnir geta sagst vera með fjarvistarsönnun. Það er ekki sanngjarnt gagnvart eigendum íbúðarhúsnæðis, sem fæstir eru að innheimta gróðann af hærra húsnæðisverði. Þeir búa flestir í sínu húsnæði og eru með sínar tekjur. Þeirra aðstæður breytast ekki þótt fasteignamatið hækki og það leiðir ekki til að þeir hafi meira milli handanna – nema þeir kjósi að selja og þá þurfa þeir ekki lengur að borga fasteignagjöld.

Það er ekki heldur sanngjarnt að eigendur atvinnuhúsnæðis þurfi stöðugt að greiða hærra hlutfall af veltu sinni í fasteignagjöld, sama hvernig árar í viðskiptalífinu.