ITV Martin Clunes ferðast á milli eyja.
ITV Martin Clunes ferðast á milli eyja.
Breskir sjónvarpsþættir eru í uppáhaldi hjá mér, hvort sem það eru sakamálaþættir eða þáttaraðir af léttara taginu.

Breskir sjónvarpsþættir eru í uppáhaldi hjá mér, hvort sem það eru sakamálaþættir eða þáttaraðir af léttara taginu. Ein af mínum uppáhaldspersónum er Martin læknir, hinn þrjóski og ómannblendni en jafnframt snjalli Martin Ellingham sem Martin Clunes leikur af tærri snilld.

Clunes er fleira til lista lagt því hann er sögumaður í heimildarþáttum hjá ITV og ekki síður góður í því hlutverki. Þar vottar hvergi fyrir Martin lækni, þótt það væri vissulega fyndið ef sá þverhaus tæki skyndilega völdin af leikaranum.

Fyrr í vikunni sá ég fyrsta þáttinn af „eyjahoppi“ Clunes um bandarískar eyjar þar sem hann heimsótti fyrst Havaí og síðan Kodiak-eyju við suðurströnd Alaska. Á Havaí var Clunes í návígi við eldgos af svipuðum toga og nú kraumar í Geldingadölum en á Kodiak skoðaði hann m.a. stærstu skógarbirni heims sem eru kenndir við eyjuna. Þetta var fyrsti þátturinn af fjórum sem RÚV sýnir og tilhlökkunarefni að sjá hina þrjá. Bæði til að fylgjast með góðum sögumanni og viðmælendum hans en ekki síður til að fræðast meira um bandarískar eyjar sem einhverra hluta vegna hafa ekki verið sérlega mikið á radarnum hjá mér í gegnum tíðina.

Víðir Sigurðsson

Höf.: Víðir Sigurðsson