Efstu menn Benedikt Briem sigraði á meistaramóti Skákskóla Íslands skipuðu keppendum undir 2.000 elo-stigum. Ingvar Wui Skartphéðinsson (fyrir miðju ) varð í öðru sæti og Matthías Björgvin Kjartansson í því þriðja.
Efstu menn Benedikt Briem sigraði á meistaramóti Skákskóla Íslands skipuðu keppendum undir 2.000 elo-stigum. Ingvar Wui Skartphéðinsson (fyrir miðju ) varð í öðru sæti og Matthías Björgvin Kjartansson í því þriðja. — Morgunblaðið/Kjartan Briem
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Bent Larsen var án efa merkasti skákmaður Norðurlanda á 20. öld. Hann var raunar sæmdur nafnbótinni í tengslum við 100 ára afmæli norræna skáksambandsins árið 1999. Larsen tók þátt í átta millisvæðamótum og vann tvö þeirra, í Sousse 1967 og í Biel 1976.

Bent Larsen var án efa merkasti skákmaður Norðurlanda á 20. öld. Hann var raunar sæmdur nafnbótinni í tengslum við 100 ára afmæli norræna skáksambandsins árið 1999. Larsen tók þátt í átta millisvæðamótum og vann tvö þeirra, í Sousse 1967 og í Biel 1976. Þá varð hann efstur við fjórða mann á millisvæðamótinu í Amsterdam árið 1964. Á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar var hann einn sigursælasti stórmeistarinn á hinum alþjóðlega vettvangi skákarinnar. Árangur hans í einvígjum var misjafn en þó má nefna sigra hans yfir Tal, Portisch og Geller. Ýmis leikbrögð hans voru skemmtileg. Hann var t.a.m. mikill áhugamaður um framrás kantpeðanna. Eitt sinn heyrði ég hann lýsa því með tilþrifum hvenær heppileg skilyrði fyrir framrás hvíta h-peðsins mynduðust: um leið og f6-riddarinn skryppi frá mætti þeyta h-peðinu fram! Hann lét sig nú samt hafa það að leika h2-h4 þó að f6-riddarinn væri enn til varnar. Ein byrjun ber nafn hans: Larsen-byrjun hefst með 1. b2-b3 en í frægustu skák Larsens í byrjun sinni tapaði hann þó í aðeins 17 leikjum fyrir Spasskí á 1. borði í keppni Sovétríkjanna gegn heimsliðinu í Belgrad 1970. Sú skák var einhverju sinni rakin í þessum pistlum.

Það er öllum ljóst að heimsmeistarinn Magnús Carlsen er arftaki Larsens sem skákmaður 21. aldar á Norðurlöndum. Sú spurning vaknaði um daginn hvort hann hefði eitthvað lært af Bent. Magnús teflir allt og um daginn valdi hann Larsen-byrjun gegn harðvítugum andstæðingi í mótasyrpunni á netinu sem ber nafns hans. Þeir þræddu hina frægu skák Larsens við Spasskí fram í fimmta leik en þá kom nýr snúningur:

FTX Crypto Cup. Undankeppni, 8. umferð:

Magnús Carlsen – Alexander Grischuk

Larsen-byrjun

1. b3 e5 2. Bb2 Rc6 3. c4 Rf6 4. Rf3 e4 5. Rd4 Bc5

6. Rf5!?

Larsen lék 6. Rxc6 og framhaldið varð 6. ... dxc6 7. e3 Bf5 8. Dc2 De7 9. Be2 0-0-0 10. f4 Rg4 11. g3 h5 12. h3 h4 13. hxg4 hxg3 14. Hg1 Hh1 15. Hxh1 g2 16. Hf1 Dh4+ 17. Kd1 gxf1(D)+ – og hvítur gafst upp.

6. ... d5

Öruggara var 6. ... 0-0.

7. Rxg7+ Kf8 8. cxd5 Bd4 9. Rc3 Re7 10. e3 Bxc3

Eftir 10. ... Be5 getur hvítur leikið 11. Rh5 eða fyrst 11. d6 cxd6 12. Rh5.

11. dxc3 Kxg7 12. c4 Rg6 13. g4!

Hvíta staðan með biskupinn á b2 er ekki árennileg.

13. ... h6 14. h4 c5 15. Be2

Jafnvel enn sterkara var 15. h4.

15. ... Kg8 16.Dc2 Hh7 17. 0-0-0

Það er áreiðanlega hægt að tefla stöðuna til sigurs með öðrum leiðum en hann velur að ljúka liðskipan í rólegheitum og síðan kemur lokaatlagan.

17. ... Rxg4 18. h5 Rf8 19.Dxe4 f5 20. Dc2 Rxf2 21. Hhg1+ Kf7 22. Hdf1 Dh4 23. Be5 De4 24.Dc3 Rh3 25. Hg4

- og svartur gafst upp.

FTX Crypto Cup var sjötta mótið í tíma-mótasyrpunni sem hófst undir lok árs 2020 og lýkur í október á þessu ári. Tefldar eru atskákir, með tímamörkunum 15 10. 16 skákmenn tefldu allir við alla og voru átta sæti í útsláttarkeppninni í boði. Magnús hlaut 8½ vinning af 15 og rétt marði að komast í átta manna hópinn en í útsláttarkeppninni vann hann Nakamura, Radjabov og loks Wesley So eftir mikla baráttu. Armageddon-skák réð úrslitum. Athygli vekur að hluti verðlaunafjár var greiddur með rafmyntinni bitcoin.

Næsta mót í syrpunni hefst hinn 26. júní nk.

Helgi Ólafsson (helol@simnet.is)