Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir
Eftir Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur: "Ríkisstjórnin rígheldur í krónuna og bætir í hindranir með gjaldeyrishöftum. Að fórna frjálsu flæði fjármagns styrkir ekki stöðu nýsköpunar í landinu."

Eðlilega finnst mörgum að kosningar snúist helst um loforðalista. Hitt er þó nær sanni að mikilvægustu ákvarðanirnar snúast um val á milli ólíkra leiða eða mismunandi kosta.

Stöðugur gjaldmiðill

Flóknustu ágreiningsmálin koma upp þegar flokkar benda á mismunandi leiðir til þess að ná sameiginlegum markmiðum. Þær eru oft flóknar því áhrif þeirra geta verið ólík.

Veigamestu verkefnin á sviði efnahagsmála snúast annars vegar um hvernig á að koma jafnvægi á ríkisfjármálin og hins vegar hvernig búa á til þær samkeppnisforsendur að nýsköpun og hugverkaiðnaður verði uppspretta meiri hagvaxtar.

Þessi viðfangsefni tengjast. Eina leiðin til að ná jafnvægi í ríkisfjármálum er mun meiri hagvöxtur en var fyrir Covid-kreppuna. Stöðugur gjaldmiðill er svo forsenda þess að nýsköpun og þekkingariðnaður þjóni því hlutverki.

Ef við trúum því að nýsköpun og hugverkaiðnaður séu mikilvægir þættir í endurreisn efnahagslífsins og verði kjölfesta til lengri tíma þarf að ýta burt hindrunum.

Í nýlegu viðtali við Stefaníu Guðrúnu Halldórsdóttur framkvæmdastjóra hjá Eyri Venture Management og Hjálmar Gíslason stofnanda og framkvæmdastjóra Grid er bent á þær hindranir sem koma í veg fyrir aukna erlenda fjárfestingu í íslenskum fyrirtækjum. Of miklar sveiflur séu á gengi krónunnar og sá ófyrirsjáanleiki sé erfiður þegar kemur að fjárfestingum. Kerfið eins og það er nú hindri vöxt.

Ríkisstjórnin ætlar að ríghalda í krónuna og bæta í hindranir með gjaldeyrishöftum. Að fórna frjálsu flæði fjármagns styrkir ekki stöðu nýsköpunar í landinu.

Samstarf innan EES

Langtímastefna okkar í Viðreisn er upptaka evru. Það tekur hins vegar tíma, sex til tíu ár, og eftir Covid-kreppuna erum við einfaldlega komin í of mikla tímaþröng. Nýsamþykkt fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar felur í sér skuldsettan ríkissjóð og tugmilljarða niðurskurð eða skattahækkanir. Í stað þess að verja velferðina og vinna að hallalausum sjálfbærum ríkissjóði velur ríkisstjórnin að halda uppi krónunni, sem kostar samfélagið meira en 100 milljarða árlega.

Því höfum við lagt til að leita eftir stöðugleikasamstarfi innan ramma samningsins um Evrópska efnahagssvæðið og tengja krónuna við evru líkt og Danir hafa gert.

Sérfræðingar eins og Guðmundur Magnússon fyrrverandi háskólarektor og Stefán Már Stefánsson fyrrverandi lagaprófessor hafa sýnt fram á að slík leið á að vera opin. Það sama hefur Björn Bjarnason fyrrverandi ráðherra gert.

Þessi mikilvæga efnahagsráðstöfun sem við stöndum frammi fyrir kallar því ekki á að lokaskrefið til fullrar aðildar að Evrópusambandinu verði stigið strax. Við erum að tala um aukið samstarf á grundvelli núverandi samnings um aðild okkar að innri markaði bandalagsins.

Haftaleiðin

Sjálfstæðisflokkurinn er sammála okkur í Viðreisn um að stöðugur gjaldmiðill sé forsenda þess að ná tökum á halla ríkissjóðs og örva hagvöxt. Aðrir flokkar hafa lítið fjallað um þetta stóra mál enn sem komið er.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur aftur á móti kosið að fara aðra leið að þessu marki. Hann hefur fallist á þá kenningu innlendra og erlendra hagfræðinga að ógerlegt sé að tryggja stöðugleika svo lítils gjaldmiðils nema styðja hann með höftum.

Til að ná þessu markmiði hefur ríkisstjórnin lagt fram frumvarp sem færir Seðlabankanum ótakmarkað vald til þess að setja á eins víðtæk fjármagnshöft og þurfa þykir hverju sinni.

Þetta er stærsta aðgerð sem sést hefur síðari ár til þess að flytja völd frá markaðnum til embættismanna eða kerfisins.

Miðflokksáhrifin

En af hverju fórnar Sjálfstæðisflokkurinn viðskiptafrelsi fyrir haftakrónu?

Innan atvinnulífsins eru stjórnendur sem skilja vel hvaða afleiðingar það hefur ef hér eru meiri heimildir til fjármagnshafta en í samkeppnislöndunum. Minni samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs er ekki það sem við þurfum. Innan Sjálfstæðisflokksins er frjálslynt fólk sem er sama sinnis.

Vandinn er að íhaldselementið í flokknum er sterkara en það frjálslynda um þessar mundir. Það sýna prófkjör flokksins og ekkert bendir til að niðurstaðan í Reykjavík breyti því. Íhaldsarmurinn skín til að toga í atkvæði frá Miðflokknum.

Kreddan gegn Evrópusamstarfinu er svo mikil að ekki er einu sinni hægt að auka það innan núverandi ramma. Frekar skal beita höftum og sambærilegu viðskiptafrelsi og samkeppnislöndin njóta er fórnað. Á meðan hækka vextir hér á landi.

Frjálslyndi eða íhald?

Við í Viðreisn teljum mikilvægt að tryggja frelsi viðskipta- og atvinnulífs. Alþjóðlegt gjaldmiðlasamstarf gerir það og er líklegra til að hjálpa okkur að ná markmiðum um hagvöxt og stöðugleika í ríkisfjármálum. Þá treystir það undirstöður nýsköpunar og hugverkaiðnaðar á meðan embættismenn hér heima munu hafa minna frelsi til að stjórna krónunni með höftum og öðrum hindrunum.

Þetta er pólitískt val. Reyndar eitt stærsta valið sem kjósendur þurfa að gera upp við sig. Þess vegna er umræðan mikilvæg. Lítil og meðalstór fyrirtæki eiga mikið undir í þessu efni. Svo ekki sé minnst á heimilin í landinu.

Valið stendur um frjálslyndi eða íhald.

Höfundur er formaður Viðreisnar.