Fögnuður Íslandsmeistararnir Elsa Nielsen og Drífa Harðardóttir.
Fögnuður Íslandsmeistararnir Elsa Nielsen og Drífa Harðardóttir.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Steinþór Guðbjartsson steinthor@mbl.is Heimsmeistaramót eldri keppenda í badminton (BWF World Senior Championships) fer fram á Spáni í desember næstkomandi og þar ætlar Elsa Nielsen sér stóra hluti.

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Heimsmeistaramót eldri keppenda í badminton (BWF World Senior Championships) fer fram á Spáni í desember næstkomandi og þar ætlar Elsa Nielsen sér stóra hluti. „Ég stefni á að verða heimsmeistari í einliðaleik í flokki 45 ára og eldri,“ segir hún, en Elsa varð fyrst Íslandsmeistari í einliðaleik kvenna 1991, þá 16 ára, og fagnaði sigri í tvíliðaleik kvenna ásamt Drífu Harðardóttur á Íslandsmótinu um liðna helgi. Þá voru 19 ár frá því hún varð síðast Íslandsmeistari, í tvenndarleik með Tryggva, bróður sínum.

„Þetta var óvænt ánægja,“ segir Elsa um nýjasta Íslandsmeistaratitilinn, 30 árum eftir að hún fagnaði þeim fyrsta. Miðjubarnið hafi verið að útskrifast úr Verzlunarskólanum um helgina og því hafi hún þurft að hugsa sig um þegar Drífa, sem venjulega spili með Erlu Hafsteinsdóttur, hafi hringt og beðið sig að spila með sér þar sem Erla væri meidd. „2002 var ég ófrísk að dóttur minni, sem var að útskrifast núna, og hætti því að æfa með árangur í huga fyrir 19 árum en hef alltaf haldið mér við og keppt mér til gamans, hoppað inn í þegar þurft hefur á að halda, verið svona uppfyllingarefni.“

Útskriftin í forgangi

Vegna útskriftarinnar þurfti að hnika til tímasetningu undanúrslitaleiksins. „Mér hentaði best að spila hann á föstudaginn en þá var mótspilari minn að útskrifast þannig að við spiluðum bara fyrr á laugardaginn en til stóð.“ Hún hafi látið slag standa, ekki síst vegna þess að hún hafi verið sannfærð um að hún ætti möguleika á að sigra og hafi auk þess engu haft að tapa. „Pressan var á ungu landsliðsstelpunum og svo var þetta spurning um dagsform og hugarfar. Eins skemmdi ekki fyrir að ég hef spilað nokkra úrslitaleiki áður.“ Hún var Íslandsmeistari í einliðaleik 1991-1995 og 1998-2000, í tvíliðaleik 1994-2000 og í tvenndarleik 1994, 1996 og 2002. Keppti á Ólympíuleikunum 1992 og 1996. „Ég var fiðrildi í menntaskóla þegar ég varð fyrst meistari en er nú reynslunni ríkari, það var extra gaman að upplifa sigurinn með börnunum mínum og ég held áfram að spila eins lengi og búkurinn leyfir.“

Elsa er grafískur hönnuður og hönnunarstjóri hjá auglýsingastofunni Kontor Reykjavík. Hún hefur myndskreytt átta barnabækur, sem Jóna Valborg Árnadóttir hefur skrifað, og var bæjarlistamaður Seltjarnarness 2016 auk þess sem hún er listmálari. „Eftir að æfingar hættu að vera á hverju kvöldi skapaðist tómarúm og ég fór að sinna listinni í staðinn, mála, teikna og svo framvegis.“

Undanfarin sex ár hefur Elsa verið á fullu í golfinu. „Ég stefni á að komast í 50+ landsliðið eftir þrjú ár,“ segir hún áköf, en Elsa hefur tekið framförum jafnt og þétt og er komin með 8,5 í forgjöf. „Golfið er með góða tengingu í badmintonið,“ heldur hún áfram og bætir við að hún spili reglulega með Rögnu Ingólfsdóttur í Nesklúbbnum, þar sem hún sé líka virk í kvennastarfinu. „Við Ragna erum hvor af sinni kynslóðinni og náðum ekki að spila saman badminton – hún var margfaldur Íslandsmeistari á eftir mér – en spilum saman golf í staðinn.“