Kristín Oddsdóttir fæddist 23. ágúst 1948. Hún lést 25. apríl 2021. Útförin fór fram 25. maí 2021.

Ég kynntist Kristínu Oddsdóttur Bonde í minni fyrstu ferð í Jónshús í Kaupmannahöfn árið 1990. Þá fór ég með Guðrúnu Helgadóttur, forseta sameinaðs Alþingis, til að funda með stjórn hússins og notendum þess. Í forystu þar voru þá Íslendingafélagið í Kaupmannahöfn og Félag íslenskra námsmanna í Kaupmannahöfn, sem höfðu meðal annars umsjón með veitingarekstri í húsinu. Einnig höfðu nokkur félög aðstöðu í húsinu, sem var mikilvæg félagsmiðstöð Íslendinga í Kaupmannahöfn eins og er enn í dag. Þar var Kristín mjög virk. Hafði hún meðal annars umsjón með konukvöldum í mörg ár, sem var mikilvægur félagsskapur íslenskra kvenna í borginni, margar kvæntar Dönum, og einnig nokkurra danskra eiginkvenna Íslendinga. En þungamiðjan í starfi hennar var þó umsjón og rekstur bókasafns Íslendingafélagsins í fjölda ára með stuðningi Alþingis.

Þegar Alþingi taldi sig þurfa að taka aukinn þátt í rekstri Jónshúss til að bregðast við breytingum í samfélagi Íslendinga í Kaupmannahöfn var ómetanlegt að hafa aðgang að Kristínu sem var traust og ráðagóð og ég, sem rekstrar- og fjármálastjóri þingsins, gat ávallt stuðst við hana með frásögnum hennar um það sem liðið var og góðum ráðum varðandi framtíðarskipulag hússins. Þá stóð ekki á henni að annast umsjón með rekstri Jónshúss tímabundið sem brú á milli fortíðar og framtíðar.

Ég tel mig ekki halla á neinn þegar ég segi að Kristín var öflugasti stuðningsmaður minn þegar ég tók við sem formaður stjórnar Jónshúss á vegum Alþingis og hóf að setja af stað miklar breytingar, sem ég tel að hafi heppnast vel, ekki síst fyrir ráð og stuðning Kristínar.

Ég votta ættingjum Kristínar samúð og ekki síst eiginmanninum, Peter Bruhn Bonde, sem stóð sem klettur við hlið hennar í veikindunum.

Karl M. Kristjánsson.