Þórshöfn Ísak B. Jóhannesson með boltann á Tórsvelli og þeir Jón Daði Böðvarsson og Brandur Olsen fylgjast með.
Þórshöfn Ísak B. Jóhannesson með boltann á Tórsvelli og þeir Jón Daði Böðvarsson og Brandur Olsen fylgjast með. — Ljósmynd/Heri Joensen
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Landsleikur Víðir Sigurðsson vs@mbl.is Tæpt var það á Tórsvelli í Þórshöfn í gærkvöld þegar Ísland vann sinn 24. sigur í 26 A-landsleikjum karla gegn Færeyingum í fótbolta.

Landsleikur

Víðir Sigurðsson

vs@mbl.is

Tæpt var það á Tórsvelli í Þórshöfn í gærkvöld þegar Ísland vann sinn 24. sigur í 26 A-landsleikjum karla gegn Færeyingum í fótbolta. Færeyingar voru sterkari aðilinn í leiknum, þegar á heildina er litið, en þegar upp var staðið skildi gullfallegt mark frá Mikael Anderson liðin að og Ísland slapp með nauman og torsóttan sigur, 1:0.

Mikael skoraði þarna sitt fyrsta mark fyrir A-landslið Íslands, átta mínútum eftir að hann kom inn á sem varamaður um miðjan síðari hálfleik. Birkir Bjarnason sendi boltann á Albert Guðmundsson sem skallaði hann snyrtilega fyrir fætur Mikaels. Hann var í vítaboganum og skaut þaðan viðstöðulaust með vinstri fæti upp í vinstra hornið.

Því skal að sjálfsögðu haldið til haga að Færeyingar voru með nánast sitt sterkasta lið, það sama og lék þrjá leiki í undankeppni HM í lok mars og átti m.a. mjög góðan leik í Austurríki sem tapaðist 3:1, á meðan í íslenska liðið vantaði tólf leikmenn sem komu við sögu í HM-leikjum Íslands á sama tíma.

En samt kemur nokkuð á óvart hversu illa íslenska liðinu gekk að halda boltanum og ná að byggja upp sóknir á meðan allt uppspil Færeyinga gekk mun hraðar og lipurlegar fyrir sig allan tímann.

Kolbeinn Sigþórsson hefði átt að slá markamet landsliðsins þegar hann fékk langbesta færi liðsins á 20. mínútu. Teitur Gestsson í marki Færeyja varði frá honum af stuttu færi.

Ögmundur Kristinsson kom hins vegar í veg fyrir að Færeyingar jöfnuðu á 85. mínútu þegar hann varði frá Klæmint Olsen úr svipuðu dauðafæri heimamanna.

Aron Einar, Birkir Bjarna, Kolbeinn og Jón Daði mynduðu ásamt Hirti Hermannssyni og Ögmundi í markinu reynslukjarna íslenska liðsins í leiknum. Albert Guðmundsson lék seinni hálfleikinn og lagði upp markið á laglegan hátt. Nýliðinn Brynjar Ingi Bjarnason sýndi eins og gegn Mexíkó að hann á fullt erindi í baráttuna um landsliðssæti. Vinstri bakvörðurinn Valgeir Lunddal Friðriksson lék sinn fyrsta A-landsleik og komst ágætlega frá leiknum.

Nú liggur leiðin til Póllands þar sem þriðji og síðasti landsleikurinn í þessari törn fer fram í Poznan á þriðjudagskvöldið.

FÆREYJAR – ÍSLAND 0:1

Tórsvöllur, Þórshöfn, vináttulandsleikur karla, föstudag 4. júní 2021.

Færeyjar : (4-5-1) Mark : Teitur Gestsson. Vörn : Gilli Rólantsson (Jóannes Danielsen 66), Odmar Færö, Heini Vatnsdal, Viljormur Davidsen. Miðja : Sölvi Vatnhamar (Petur Knudsen 84), Hallur Hansson, Jákup Andreasen (Klæmint Olsen 78), Brandur Olsen, Meinhard Olsen (Jákup Johansen 84). Sókn : Jóan Edmundsson (Andreas Olsen 66).

Ísland : (4-3-3) Mark : Ögmundur Kristinsson. Vörn : Alfons Sampsted, Hjörtur Hermannsson, Brynjar Ingi Bjarnason, Valgeir Lunddal Friðriksson (Guðmundur Þórarinsson 79). Miðja : Aron Einar Gunnarsson (Andri Fannar Baldursson 79), Birkir Bjarnason (Sveinn Aron Guðjohnsen 79), Ísak Bergmann Jóhannesson ( Stefán Teitur Þórðarson 62). Sókn : Jón Daði Böðvarsson (Mikael Anderson 62), Kolbeinn Sigþórsson (Albert Guðmundsson 46), Jón Dagur Þorsteinsson.

Dómari : Kristo Tohver, Eistlandi.

Áhorfendur : Ekki leyfðir.