Bergur Þorri Benjamínsson
Bergur Þorri Benjamínsson
Eftir Berg Þorra Benjamínsson: "Krafa lífeyrisþega er skýr, hún snýst um lífskjör. Skerðingarnar vinna á móti þeim réttindum sem fólk hefur unnið sér inn. Mikilvægt er að lífeyrisþegar fái að njóta afraksturs erfiðis síns."

Það er augljóst að ríkið tekur til sín stóran hluta tekna eldri borgara með skerðingum á lífeyri frá Tryggingastofnun. Breytingar á umræddum skerðingum voru gerðar 2016-2017 sem gerðu kerfi eldri borgara ögn skárra, en að mati margra eldri borgara er þar enn verk óunnið.

Sömu kerfisbreytingar náðu ekki til öryrkja og búa þeir því við enn harðari skerðingar sem byrja við lægri tekjur og lægri lífeyri. Fall í tekjum verður líka fyrr hjá öryrkjum en hjá eldri borgurum.

Á þessum tveimur hópum er hins vegar grundvallarmunur. Eldri borgarar eru flestir að hætta þátttöku á vinnumarkaði, þótt sumir vilji hafa annan fótinn á honum aðeins lengur en nú er. Margir öryrkjar eru hins vegar að reyna með öllum ráðum að halda sér inni á vinnumarkaði, þótt hluti þeirra komist aldrei í þá stöðu og lenda utan hans stærstan ævi sinnar.

Eldri borgarar hafa í gegnum tíðina verið stór stoð í stuðningi við Sjálfstæðisflokkinn. Þeirra málflutningur hefur hins vegar þyngst, og má með sanni segja að verulega þungt hljóð sé komið í marga þá sem komnir eru á umræddan aldur. Eldri borgarar vilja og gera kröfu um að fá að halda sínum lífeyri óskertum frá Tryggingastofnun og að geta síðan bætt sína stöðu með lífeyri úr lífeyrissjóðum þar til viðbótar. Allir þeir sem ætla sér stóra hluti í komandi prófkjörum verða að hlusta á þessar kröfur sér eldri og reyndari.

Öryrkjar hafa margir hverjir bent mér á að boðskapur Sjálfstæðisflokksins höfði ekki til þeirra. Sjálfstæðisflokkurinn þarf að höfða til þessa hóps. Ekki hefur heldur náðst samstaða meðal forsvarsmanna öryrkja og stjórnvalda um kerfisbreytingar sem leiði af sér bætt kjör fyrir þennan hóp. Til að mæta sanngirni hafa skattbreytingar undir forystu Sjálfstæðisflokksins skilað sér í auknum ráðstöfunartekjum til þeirra sem eru á örorkulífeyri. Betur má ef duga skal.

En hvað þarf að laga? Greiðslur til öryrkja eru lágar og í reynd lægri en atvinnuleysisbætur í mörgum tilfellum. Laga þarf tengingu greiðslna frá Tryggingastofnun við aðrar greiðslur. Dæmi um þetta er húsnæðisstuðningur (húsaleigubætur). Alltof oft er það þannig að ef greiðslur hækka á einum stað lækka þær á öðrum, afleiðingin er sú að viðkomandi er í engu bættari. Síðast en ekki síst eru það skerðingar, sem koma allt of fljótt vinni öryrki sér inn einhverjar atvinnutekjur.

Gerum betur

Krafa lífeyrisþega er skýr, hún snýst um lífskjör. Skerðingarnar vinna á móti þeim réttindum sem fólk hefur unnið sér inn. Mikilvægt er að lífeyrisþegar fái að njóta afraksturs erfiðis síns. Þegar rýnt er í stöðu lífeyrisþega sést að fyrsta skrefið hlýtur að vera að einfalda kerfið. Gott væri t.d. að einn aðili sæi um allar greiðslur, sama hvaðan þær koma. Ekki gengur lengur að mismunandi kerfi tali ekki saman og lífeyrisþegar þurfi að vera sérfræðingar í hinu mikla flóði umsókna hjá TR.is, sjukra.is, og lífeyrissjóðunum. Einnig þarf að vera hvati til atvinnuþátttöku og meiri aðstoð við að finna fólki atvinnu við hæfi. Það er lítill sem enginn hvati fyrir öryrkja að byrja að vinna eftir að hafa verið með örorkugreiðslur í nokkurn tíma, er það helst vegna skerðinga, afturvirkra greiðslukrafna og annars flækjustigs. Þar með verður ríkið af skatttekjum, bæði neyslu- og tekjusköttum. Frelsi til athafna hefur lengi verið eitt af kjörorðum Sjálfstæðisflokksins.

Öryrkjar og eldri borgarar þurfa einnig að hafa frelsi til athafna!

Höfundur er frambjóðandi í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi 10.-12. júní nk. bergur1979@gmail.com