Sýningarstjórar Dagrún Aðalsteinsdóttir og Weixin Quek Chong.
Sýningarstjórar Dagrún Aðalsteinsdóttir og Weixin Quek Chong.
Hlutbundin þrá (e. Object of Desire ) nefnist sýning sem opnuð verður í dag, laugardag, kl. 16 í Gerðarsafni í Kópavogi.
Hlutbundin þrá (e. Object of Desire ) nefnist sýning sem opnuð verður í dag, laugardag, kl. 16 í Gerðarsafni í Kópavogi. Er það sýning samtímalistamanna frá Singapúr og Íslandi og sýningarstjórar hennar Dagrún Aðalsteinsdóttir og Weixin Quek Chong frá Singapúr.

Átta listamenn eiga verk á sýningunni sem hverfist um samband mannsins við hlutlægni og hluti, að því er fram kemur í tilkynningu og segir þar að sýningin sé samtíningur af klippimyndum, skúlptúrum, vídeóverkum og innsetningum.

„Verkin skoða hlutgervingu mynda sem innihalda þrár og langanir, ásamt umboði og áhrifum slíkra mynda sem eru séðar og dreifðar, jafnvel endurgerðar,“ segir þar og að sýningartitillinn vísi í ritgerð eftir þýsku listakonuna Hito Steyerl sem beri nafnið A thing like you and me og sé frá árinu 2010. Í henni skoði Steyerl þátttöku mannsins í að skapa myndir og að veita þeim umboð og haldi hún því fram að sú þátttaka veiti myndum eigin virkni sem afmái skilin milli þess að vera hlutur eða viðfangsefni og þá einnig gagnvart mennskum viðfangsefnum sem séu sífellt að verða meira hlutgerð. Steyerl lýsi myndum sem brotum eða leifum af veruleikanum en ekki spegilmynd hans.

Sýningin er sögð tilraun til þess að skapa gagnkvæma virkni milli hluta og einstaklinga þar sem listaverkin eru blanda af hlut og viðfangi.

Listamennirnir sem eiga verk á henni eru þau Daniel Hui, Dagrún Aðalsteinsdóttir, Guo Liang, Guðlaug Mía Eyþórsdóttir, Luca Lum, Styrmir Örn Guðmundsson, Sæmundur Þór Helgason og Weixin Quek Chong.