Sigrún Margrét Júlíusdóttir, Hákonarstöðum, fæddist 25. febrúar 1932 á Akureyri. Hún lést 9. maí 2021. Foreldrar hennar voru Júlíus Davíðsson og Margrét Sigurrós Sigfúsdóttir, Akureyri. Hún átti einn hálfbróður, Kristján Frímannsson, d. 2010, og uppeldissystur Valdísi Brynju Þorkelsdóttur, f. 1946.

Maður hennar var Þórður Sigvaldason, Hákonarstöðum, f. 19. maí 1929. Börn þeirra: Anna Sigurjóna, d. 1959, Sigvaldi Júlíus, Gréta Dröfn, Hákon Jökull, Reynir, d. 2002, og Trausti. Barnabörnin eru 10 og barnabarnabörnin 16.

Jarðarför Sigrúnar Margrétar fór fram 22. maí í kyrrþey að hennar ósk.

Hinsta stund er runnin upp, Sigrún systir mín hefur kvatt þetta líf. Á æskuheimili mínu á Akureyri kölluðum við hana alltaf Diddu sem hefur verið barnslega útgáfan af „systu“ en aðrir þekktu hana sem Sillu. Hún kom til föður síns Júlíusar Davíðssonar og Önnu Helgadóttur eiginkonu hans um 12 ára aldur. Tveimur árum síðar fæddist ég á heimili þeirra og ólst þar upp alla tíð. Við tengdust sterkum böndum þótt aldursmunurinn væri mikill. Á milli okkar ríkti órjúfanleg tryggð. Hún hafði alla tíð sterkar taugar til æskustöðvanna á Akureyri og minntist oft á æskuvinkonurnar, Deddu, Möggu og Daisy. Hún hafði unun af tónlist og fallega söngrödd. Fyrstu minningar mínar um hana eru hún að syngja og spila á gítar – og vinkonurnar að syngja með. Að loknum skóla fór hún í kaupavinnu á Möðrudal og átti þar yndislegan tíma. Vináttan við heimilisfólkið þar hélst alla tíð. Eftir að hún giftist Þórði sínum flutti hún á Hákonarstaði á Jökuldal og varð húsfreyja í sveit. Þeim varð sex barna auðið og barnabörnin eru orðin á annan tug. Það var ekki auðvelt að setjast að á Efra-Jökuldal á 6. áratugnum, samgöngur lélegar og veður válynd. Öll aðföng voru svo erfið að á haustin þurfti að skipuleggja innkaup fyrir allan veturinn. Þá kom sér vel hve hún var útsjónarsöm og smekkleg, nýtin og úrræðagóð. Sjálfbærni var lykilatriði og matvæli unnin á staðnum, veiði nýtt úr heiðinni, bakstur og matargerð mikið verk á stóru heimili. Hún hafði yndi af öllu handverki, málaði, prjónaði og saumaði fallega muni bæði á sitt fólk og seldi stundum á handverksmörkuðum. Hún systir mín sýndi líka eindæma bjartsýni og þrautseigju þegar hún kom upp gróðurvin við bæinn, ræktaði þar tré og ótrúlegustu plöntur, meðal annars í heimagerðu gróðurhúsi þeirra. Innandyra var líka safn fagurra blóma. Það höfðu ekki margir trú á að hægt væri að búa til einstakan unaðsreit svo nærri Öræfunum.

Systir mín var með létta lund og notaleg svo fólk laðaðist að henni. Hún og Þórður voru höfðingjar heim að sækja. Margar ferðir fór ég til þeirra í æsku og síðar með mína eigin fjölskyldu. Þau hjónin áttu sjaldnar heimangengt en gaman var að taka á móti þeim á Akureyri þar sem þau komu á Willys-jeppa, fullum af börnum. Í sveitinni varð hver dagur að ævintýri. Oft var farið inn á Öræfin að njóta náttúrunnar og kyrrðarinnar eða veiða silung í vatninu uppi á heiði. Þau hjónin nutu sín í tónlist, þar sem Þórður var organisti og kórstjóri og þau forystufólk í slíku starfi. Eftir fráfall Þórðar stóð systir mín styrk og þrautseig sem áður. Síðustu ár fór minnið og heilsan að gefa sig, en hún naut umönnunar á Dyngju þótt hugurinn væri alltaf heima í sveitinni.

Systir mín gat litið stolt yfir farinn veg og verið hreykin af afkomendum sínum. Ég er þakklát fyrir samleið okkar í þessu lífi og áfram nýt ég tryggðar og vináttu afkomenda þeirra. Við vitum að nú syngja þau saman hjónin í sumarlandinu.

Góða ferð mín elskulega og takk fyrir allt.

Þín systir,

Valdís.