Við hafið Matti Óla var á sjó í 20 ár, frá því hann var 15 ára, en hætti þegar hann slasaðist í sjávarháska.
Við hafið Matti Óla var á sjó í 20 ár, frá því hann var 15 ára, en hætti þegar hann slasaðist í sjávarháska. — Ljósmynd/Alda Lóa
Kristín Heiða Kristinsdóttir khk@mbl.is „Það er ekki tilviljun að ég gaf diskinn út hinn 20. febrúar síðastliðinn, því á þeim degi fyrir þrjátíu árum fórst Steindór GK undir Krísuvíkurbjargi.

Kristín Heiða Kristinsdóttir

khk@mbl.is

„Það er ekki tilviljun að ég gaf diskinn út hinn 20. febrúar síðastliðinn, því á þeim degi fyrir þrjátíu árum fórst Steindór GK undir Krísuvíkurbjargi. Ég var þar um borð og það markaði sannarlega líf mitt að standa í brúnni ásamt félögum mínum meðan skipið barðist um í briminu undir bjarginu. Við vorum átta sem vorum um borð og komumst öll lífs af, en núna þessum þremur áratugum síðar ákvað ég að gefa út disk til að heiðra allt þetta fólk sem stóð með mér í briminu,“ segir Marteinn Ólafsson, eða Matti Óla eins og hann er oftast kallaður, en hann sendi umræddan dag í febrúar frá sér sinn þriðja hljómdisk sem ber heitið Borgargarðurinn.

„Í minni fjölskyldu er mikil tónlist en ég fór ekki að fást við hana fyrr en ég var kominn á miðjan fertugsaldur. Mín tónlistariðkun kom þannig til að ég slasaðist í fyrrnefndu sjóslysi árið 1991 og ég var lengi að jafna mig og lengi frá vinnu. Konan mín heitin, Sigríður Ágústa, var þreytt á mér hangandi heima og ég var eitthvað að röfla í henni og sagði við hana að mig hefði alltaf langað að læra á gítar. Ég hafði aldrei komið mér til þess, með fullt hús af börnum og vinnandi allan sólarhringinn. Þá gerði hún sér ferð til Reykjavíkur með Ólafi Þór bróður mínum og þau keyptu gítar og komu með hann suður eftir til Sandgerðis þar sem við bjuggum. Hún rétti mér gripinn og sagði: „Farðu bara og lærðu á hann kallinn minn. Ekkert helvítis röfl lengur.“ Ég hafði því enga afsökun til að læra ekki á gítar, og boltinn byrjaði að rúlla í framhaldi af því.“

Heilmikið ævintýr og gaman

Matti segist hafa byrjað á að læra á gítarinn af eigin rammleik, en síðan fór hann í klassískt gítarnám. „Ég tók fjögur stig í námi á klassískan gítar en ég og klassíkin áttum ekki alveg samleið. Mér fannst þetta svolítið niðurnjörvað og hafði ekki það frelsi sem ég var að sækjast eftir. Klassíska námið var gríðarlega góður grunnur og í framhaldinu fór ég að semja sjálfur bæði tónlist og texta. Ég er í einstaklega góðum og hvetjandi félagsskap, það er margt tónlistarfólk í kringum mig og þeim fannst þetta eitthvað sérstakt og skemmtilegt sem ég var að gera. Þessir vinir mínir í tónlist voru alltaf boðnir og búnir að aðstoða mig í öllu sem ég gerði og ég gaf út minn fyrsta disk árið 2005, Nakinn heitir hann. Þessi fyrsti diskur var í raun prufuverkefni og varð að einhverju hljómsveitardæmi þótt ég hefði aldrei á ævi minni spilað í slíkri grúppu. Þetta var heilmikið ævintýri og rosalega gaman og við fengum töluverða athygli á sínum tíma. Í seinni tíð er maður ekkert að sækjast eftir athygli, ég hef bara gaman af þessu og félagsskapurinn alveg æðislegur í tónlistinni. Þetta er allt mjög gefandi og alveg geggjað gaman að vera í þessu tónlistarstússi.“

Lífið er eilífðarorrustur

Matti sendi frá sér sinn annan disk í fyrra, en hann heitir ...og svo leið tíminn.

„Þessi titill kemur til af því að við tókum tónlistina á diskinum upp í Hvalsneskirkju úti á Stafnesi utan við Sandgerði á sínum tíma og upptökumaðurinn Ingi Þór var með þessar upptökur inni á tölvunni hjá sér. Svo gerist það að harði diskurinn hrundi hjá honum og þá var allt horfið. Á þeim tíma var vonlaust dæmi að sækja þetta, en í fyrra hafði hann samband og var þá búinn að finna upptökurnar, fjórtán árum síðar,“ segir Matti og hlær. „Mér fannst það alveg yndislegt og í framhaldinu tók ég upp sjö lög í viðbót, því ég vildi nýta andrúmsloftið og tækifærið. Þau lög eru á nýja diskinum, Borgargarðinum ,“ segir Matti sem syngur um lífið og tilveruna, ástina og dauðann, gleðina, hamingjuna, lítilmagnann, háklassaliðið, drauminn um betri heim og það sem fyrir augu ber dags daglega. Og hafið, hvað annað, því hann stundaði sjóinn til tuttugu ára, eða frá því hann var fimmtán ára, nýfluttur suður frá Tálknafirði. Hann hefur marga fjöruna sopið, í bókstaflegri merkingu, því hann hefur tvívegis lent í sjávarháska og féll útbyrðis í annað skiptið. Einnig tók hann ungur þátt í að bjarga tveimur mönnum frá drukknun sem voru á trillu úti á hafi í aftakaveðri. Eftir að hann hætti á sjónum fór hann að keyra olíuflutningabíl og velti bílnum í Ísafjarðardjúpi, lenti undir honum og taldi það sitt síðasta.

„Lífið er eilífðarorrustur og sem betur fer vinnum við sumar þeirra, en okkur er ekki ætlað að vinna þær allar. Maður reynir ýmislegt á lífsleiðinni þegar maður er að göslast í gegnum lífið. Þá er gott að geta gripið í gítarinn, mér finnst það alveg yndislegt. Ég ætla að halda áfram að semja, ég nýt þess að vera til og tek einn dag í einu. Tíminn leiðir svo í ljós hvað ég geri við þetta,“ segir Matti, sem á lítið hús austur í sveit þar sem hann vill helst vera öllum stundum í ró og næði. „Þannig vil ég hafa lífið. Mér finnst æðislegt að stússa í húsinu og mér er sama þótt ég hitti ekki nokkurn mann vikum saman. Núna er ég að skipta um undirstöður á húsinu og ég hlakka til að komast upp úr moldinni og fara að smíða.“ Tónlist Matta er á Spotify.