Karen Elísabet Halldórsdóttir
Karen Elísabet Halldórsdóttir
Eftir Karen Elísabetu Halldórsdóttur: "Andlegt álag sem hlýst af því að vera veikur og geta ekki unnið jafnvel sökum verkja getur haft mjög skaðleg og varanleg áhrif með tilheyrandi kostnaði sem getur lagst samhliða á samfélagið."

Í heilbrigðismálum er verið að fara illa með fé. Öll þekkjum við væntanlega dæmi um einstaklinga sem eru sendir út til Svíþjóðar með fylgdarmanni á Saga Class í aðgerðir sem hæglega væri hægt að gera hér heima. Kostnaðurinn við þessa stefnu er gríðarlegur og telur þá bara ekki kostnaðurinn við ferðalögin.

Skoðum líka efnahags- og félagslegan skaða sem hlýst af því að hafa fólk óvinnufært gegn vilja sínum, einstaklinga sem bíða til dæmis eftir liðskiptum á hné. Tökum dæmi af iðnaðarmanni sem treystir algerlega á að fæturnir beri hann í vinnu. Hann þarf að bíða mjög lengi eftir að fá tíma hjá lækni og þá eftir það er bið eftir aðgerð, hann getur ekki unnið, missir tekjur og þarf jafnvel að leita eftir opinberum styrkjum til þess að framfleyta sér og sínum. Andlegt álag sem hlýst af því að vera veikur og geta ekki unnið jafnvel sökum verkja getur haft mjög skaðleg og varanleg áhrif með tilheyrandi kostnaði sem getur lagst samhliða á samfélagið.

Að þessu sögðu er ekki verið að leggja það til hér að einkarekstur læknastofa eigi að vera að öllu leyti óheftur og án eftirlits. Fylgjast þarf grannt með gjaldskrám lækna á einkastofum svo ekki sé verið að rukka sjúklinga óhóflega og misnota niðurgreiðslur Sjúkratrygginga Íslands. Slíkt þyrfti og ætti að koma fram í ársskýrslum og ársreikningum einkarekinnar læknisþjónustu.

Mikill styr hefur einnig verið um hversu mikið eða lítið starfshlutfall læknar ættu að þurfa að vinna á sínum stofum og hversu mikið þeir mega vinna inni á spítölum. Nú segja mér fróðari menn að það sé nauðsynlegt fyrir lækna að starfa samhliða á spítala og einkastofu þar sem spítalinn þarf á sérmenntunarhæfni lækna að halda. Í dag mega „stofulæknar“ aðeins vinna 80% eða minna á spítala, tillagan frá heilbrigðisráðherra er núna að þrengja enn frekar að læknum með því að krefjast þess að þeir séu 80% eða meira starfandi á stofum sínum. Með þessum hlutföllum er augljóslega enn frekar vegið að frelsi í einkarekstri og tillögurnar stangast á.

Það er ljóst að það þarf að ná einhverri sameiginlegri sýn á störf lækna á stofum og á spítalanum og ná samningum á milli Sjúkratrygginga og sérfræðilækna. En satt best að segja þarf að mínu mati að nota fleiri skynfæri en bara vinstra augað til að slík lausn geti orðið að veruleika og til þess þarf Sjálfstæðisflokkurinn að taka að sér forystu í heilbrigðismálum Íslands.

Höfundur er frambjóðandi í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi. kareneha@gmail.com

Höf.: Karen Elísabetu Halldórsdóttur