Skúlptúrar Una Björg Magnúsdóttir við uppsetningu verksins. Hægt er að sjá heildarmyndina á sýningunni sjálfri.
Skúlptúrar Una Björg Magnúsdóttir við uppsetningu verksins. Hægt er að sjá heildarmyndina á sýningunni sjálfri. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ari Páll Karlsson ari@mbl.is Nýtt listagallerí hefur litið dagsins ljós í Hamraborg í Kópavogi. Um er að ræða gallerí á milli tveggja bensíndælna ÓB sem standa í bílakjallara undir fjölbýli en áður var Olís þar til húsa.

Ari Páll Karlsson

ari@mbl.is

Nýtt listagallerí hefur litið dagsins ljós í Hamraborg í Kópavogi. Um er að ræða gallerí á milli tveggja bensíndælna ÓB sem standa í bílakjallara undir fjölbýli en áður var Olís þar til húsa.

Nafnið á galleríinu er einfalt en það er einfaldlega stafurinn Y sem vísar bæði í gula litinn sem er ráðandi í rýminu auk þess sem bílnúmer Kópavogs byrjuðu hér áður fyrr á bókstafnum Y, líkt og glöggir lesendur ættu að muna. Sérstakur arkitektúr bensínstöðvarinnar býður upp á mikinn sýnileika með stórum gluggum á þremur hliðum sýningarrýmisins.

„Við viljum færa listina nær fólkinu. Mörgum finnst svolítið ógnvekjandi tilhugsun að labba inn í gallerí. Þetta er svolítið eins og einhvers konar hulinn heimur og að setja þann hulda heim inn í almenningsrými færir hann örlítið nær,“ segir Olga Lilja Ólafsdóttir, annar aðstandenda gallerísins Y, en með henni í verkefninu er listamaðurinn Sigurður Atli Sigurðsson. Í bakrými gallerísins hanga svo verk til sýnis og sölu eftir breiðan hóp listamanna.

Arkítektúrinn heillar

Húsið á sér skemmtilega sögu en það er teiknað á sjötta áratug síðustu aldar af arkítektinum Benjamín Magnússyni og mætti segja að þar glitti í áhrif frá Parísarborg þar sem hann lærði og bjó um tíma. „Þegar bensínstöðin var þarna þá sást lítið í rýmið, lottómiðar í gluggunum og innréttingar sem huldu glerið,“ segir Olga og mætti því segja að rýmið hafi sjaldan notið sín eins vel og það gerir í dag. „Það sem drífur okkur áfram er að opna þennan heim. Heimur myndlistarinnar á ekki bara að vera innan myndlistarinnar heldur vera opinn fleirum,“ segir Olga en vert er að taka fram að nýlega ákvað Olís að gera þessa tilteknu bensínstöð að þeirri stöð sem selur bensín á lægsta verði allra ÓB-stöðva sinna og því má við búast að þar verði margt um manninn á næstunni.

Listakonan Una Björg Magnúsdóttir er fyrsti listamaðurinn til að sýna í þessu nýja rými en hún hlaut nýlega hvatningarverðlaun íslensku myndlistaverðlaunanna og mætti því segja að hún sé ein af vonarstjörnum íslenskrar myndlistar í dag. Sýningin ber nafnið „Hæg sena“ og skoðar hvernig við nálgumst myndmál eftir því í hvaða form það er sett. Skúlptúrar sýningarinnar eru útskornar stólbríkur sem hefðbundið er að finnist í kirkjum og séu skreyttar kristilegum táknmyndum eða dýrlingum. Skúlptúrar Unu sýna þess í stað einfaldar myndir af hverfulum augnablikum.

„Verkin hafa vísun í útskurði sem finna má í kirkjum og líkja eftir því hvernig handverk er notað til þess að upphefja trúna segir Una og á við stólbríkurnar. Hún heldur áfram og segir um skúlptúrana sína: „Myndirnar á verkunum sýna hverful stutt augnablik en þau eru ekki síður mikilvæg. Þetta er tilraun til þess að taka utan um þessi augnablik og efnisgera þau.“