Réttum af gildismat okkar gagnvart sjómönnum.

Sjómannadagurinn er á morgun, sunnudag. Sjálfsagt verður lítið um hátíðahöld vegna ástandsins en ástæða til að muna samt eftir honum. Hátíðisdagur sjómanna er að vísu ekki nema 83 ára gamall á þessu ári en í raun er íslenzka þjóðin að heiðra minningu þeirra sem frá upphafi Íslands byggðar hafa sótt sjóinn fast og þannig tryggt afkomu hennar um aldir.

Sú var tíðin að það var nánast fastur liður í útgáfu Morgunblaðsins að birta forsíður sem byggðust upp á myndum af sjómönnum, sem daginn áður höfðu horfið í hafið, þegar skip þeirra fórst. Þeim forsíðum tók ekki að fækka fyrr en á áttunda áratug síðustu aldar þar til þær hurfu svo til alveg. Það var mikill léttir fyrir þjóðina alla þegar öryggi sjómanna á hafi úti var komið í viðunandi horf.

Þær fjölskyldur eru margar á Íslandi sem þekkja þessa sögu úr eigin ranni. Þeirra á meðal er fjölskylda Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra, en langafi hennar og afabróðir fórust með sama togara úti fyrir Grindavík nokkru fyrir miðja síðustu öld.

Móðir greinarhöfundar, sem var sjómannsdóttir úr Bolungarvík, missti þrjá af fjórum bræðrum sínum á sjó. Einn þeirra fórst við Nýfundnaland fyrir mörgum áratugum. Fyrir örfáum árum fréttu systkinabörn hans að hann hefði komið í talstöð og sagt: Erum að fara niður, bið að heilsa heim.

Einhver bezta lýsing sem ég hef lesið um líf sjómanna fyrr á tíð er í einni af bókum Jóns Kalmans Stefánssonar, Himnaríki og helvíti. Mörgum af minni kynslóð finnst áreiðanlega að þar geti þeir lesið ævisögur afa sinna. Þar er að finna sanna frásögn af einu atviki þegar sjómaður fyrir vestan, sem hafði átt fund með konu um nóttina, var að flýta sér svo mikið um morguninn, að hann gleymdi stakknum sínum. Úti á sjónum skall á óveður, sjómaðurinn fraus í hel, fastur við þóftuna, og þar var hann þegar í land var komið.

Því fer hins vegar fjarri að við sem samfélag höfum sýnt sjómannsstarfinu þá virðingu sem því ber. Á tíunda áratugnum hélt Morgunblaðið því fram, að ættu útgerðarmenn sjálfsagðan rétt á kvóta ættu sjómenn það líka. Þá var því svarað að útgerðarmennirnir tækju svo mikla áhættu með þeim fjármunum sem þeir legðu í skipin. Morgunblaðið svaraði því til að vissulega væri það rétt en sjómennirnir tækju líka áhættu, ekki með peningum heldur með lífi sínu eins og dæmin sönnuðu.

Verðmætamat okkar samfélags er í raun fáránlegt. Stjórnmálamenn og embættismenn ganga um með orðuglingur framan á sér og sumir þaktir því dóti á bringu og maga en það er eitthvað minna um að sjómönnum sé sýndur slíkur þakklætisvottur fyrir þeirra störf í þágu þjóðarinnar.

Það er kominn tími til að endurmeta þau gildi sem hafa ráðið lífi okkar.

Fiskiskipin eru orðin öruggari vinnustaður og minni hætta á að þau hverfi í hafið. Það breytir hins vegar engu um mikilvægi starfa sjómanna. Svo lengi sem Ísland er byggt mun afkoma þjóðarinnar byggjast á fiskveiðum, þótt fleiri auðlindir séu komnar í nýtingu. Stjórnmála- og embættismenn hafa náð fram miklum kjarabótum á seinni árum en það á ekki við um sjómenn. Það er hins vegar kominn tími til.

Það á við um samtök sjómanna eins og verkalýðsfélögin almennt að það heyrist minna til þeirra en áður. Og pólitísk áhrif þeirra hafa minnkað. Sú var tíðin, alla vega í Sjálfstæðisflokknum, að áherzla var lögð á að fulltrúar sjómanna væru á framboðslistum vegna þingkosninga en nú er orðið eitthvað lítið um það. En vægi sjómanna í samfélagi okkar hefur ekki minnkað. Þeim hefur að vísu eitthvað fækkað á hverju skipi, en þeir eru jafn mikilvægir og áður. Þótt skipin séu fullkomnari en áður jafngilda þau ekki vélmennum úti á sjó. Það þarf, alla vega enn, menn um borð.

Þótt stjórnmálamenn og embættismenn séu mikilvægir eru sjómennirnir mikilvægari þegar kemur að verðmætasköpun og gjaldeyrisöflun.

Flokkarnir eru nú í óðaönn að ganga frá framboðslistum. Þeir ættu að líta í kringum sig og sjá hvort þeir komi ekki auga á sjómenn og verkamenn sem eiga erindi á þing. Það er óbreytt að við erum samfélag sjómanna og bænda og það breytist ekki. Raddir þeirra þurfa að heyrast á Alþingi.

Eitt sinn sat ég með ungri blaðakonu, sem var að hefja störf á Morgunblaðinu. Hún var sjómannsdóttir að austan. Hún sagði mér að ef skipið sem pabbi hennar var á sinnti ekki tilkynningaskyldu safnaði móðir þeirra börnunum saman og þar biðu þau saman eftir fréttum af skipinu.

Það er ekki ólíklegt að slíkir fjölskyldufundir hafi verið haldnir víða um land. Við sem samfélag höfum í raun aldrei sýnt sjómönnum þann sóma sem þeim ber. Jón Kalman Stefánsson hefur hins vegar gert það með ritverki, sem mun lifa.

Annað verk, sem gæti lifað, er að heiðra minningu allra þeirra sjómanna sem hafa farist við Íslands strendur í tæp 1.200 ár, með miklu kórverki, eins konar sálumessu, og minnast þeirra með þeim hætti. Slíkt tónverk gæti unnið sér fastan sess í þjóðarsálinni.

Þótt sjómannadagurinn verði sennilega ekki haldinn hátíðlegur í ár getum við gert það hvert um sig með sjálfum okkur, með því að einsetja okkur að þetta litla samfélag muni rétta gildismat sitt af og skipa sjómönnum þann veglega sess sem þeir eiga skilið.

Styrmir Gunnarsson styrmir@styrmir.is

Höf.: Styrmir Gunnarsson styrmir@styrmir.is