Gangbrautin máluð Vegna þess hve bjart og þurrt var mestan hluta mámánaðar viðraði vel til allra útiverka.
Gangbrautin máluð Vegna þess hve bjart og þurrt var mestan hluta mámánaðar viðraði vel til allra útiverka. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigtryggur Sigtryggsson sisi@mbl.is Sólskinsstundir í nýliðnum maí mældust 355 í Reykjavík og hafa aldrei mælst fleiri í þeim mánuði síðan mælingar hófust 1911. Var það 126 stundum yfir meðallagi áranna 1991 til 2020.

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Sólskinsstundir í nýliðnum maí mældust 355 í Reykjavík og hafa aldrei mælst fleiri í þeim mánuði síðan mælingar hófust 1911. Var það 126 stundum yfir meðallagi áranna 1991 til 2020. Gamla metið var frá 1958, eða 330,1 stund.

En ekki er allt sem sýnist eins og fram kemur í tíðarfarsyfirliti Veðurstofunnar. „Hafa ber þó í huga að skipt var um mæliaðferð í Reykjavík síðastliðin áramót. Hætt var að mæla sólskinsstundir með svokölluðum Campbell-Stokes-mæli, þar sem sól skín í gegnum glerkúlu og brennir rauf í blað sem þar er komið fyrir. Skipt var um blað einu sinni á sólarhring og lengd randarinnar á blaðinu mæld. Nú er notast við sjálfvirkan sólskinsstundamæli. Örlítill munur er á mælunum tveimur, mestur á heiðríkum dögum, en þá mælir sjálfvirki mælirinn meira en sá gamli. Því má ætla að sólskinsstundirnar í Reykjavík í maí 2021 hafi jafnað metið frá því 1958,“ segir þar. Fjallað var ítarlega um þessar breytingar í fréttagrein í Morgunblaðinu 28. maí sl.

Maí kaldur um allt land

Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 206,6, sem er 35,6 stundum meira en að meðaltali áranna 1991 til 2020.

Fram kemur í veðurfarsyfirlitinu að maí var mjög kaldur um allt land og meðalhitinn alls staðar vel undir meðallagi. Að tiltölu var kaldast austanlands en hlýrra vestanlands. Neikvætt hitavik miðað við síðustu tíu ár var mest -3,4 stig á Kárahnjúkum en minnst -0,5 stig á Gjögurflugvelli.

Norðaustlægar áttir voru ríkjandi fram eftir mánuðinum auk þess sem kalt var og óvenju úrkomulítið um land allt. Gróður tók lítið við sér og sinueldar voru tíðir. Alvarlegasta tilfellið var í Heiðmörk 4. maí, þegar 56 hektarar skóglendis brunnu.

Meðalhiti í Reykjavík í maí var 5,7 stig og er það -1,1 stigi undir meðallagi áranna 1991 til 2020 og einnig -1,1 stigi undir meðallagi síðustu tíu ára. Á Akureyri var meðalhitinn 4,7 stig, -1,5 stigum undir meðallagi áranna 1991 til 2020, en -1,7 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára. Í Stykkishólmi var meðalhitinn 4,4 stig og 4,2 stig á Höfn í Hornafirði. Maí var sá kaldasti á öldinni á Egilsstöðum, Dalatanga, Teigarhorni og á Höfn.

Úrkoma í Reykjavík mældist 38,9 millimetrar, sem er 74% af meðalúrkomu áranna 1991 til 2020. Á Akureyri mældist úrkoman 14,9 mm sem er 62% af meðalúrkomu áranna 1991 til 2020. Í Stykkishólmi mældist úrkoman 20,1 mm og 20,9 mm í Höfn í Hornafirði. Nánast úrkomulaust var á Höfn þar til hinn 28.