— Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Gönguleið upp á hinn svokallaða Gónhól fór undir hraun í gærmorgun. Frá Gónhóli er gott útsýni yfir eldgosið í Geldingadölum og hafa ófáir landsmenn lagt leið sína þangað undanfarið. Nú er það ekki hægt lengur þar sem hraun hefur umkringt hólinn.

Gönguleið upp á hinn svokallaða Gónhól fór undir hraun í gærmorgun. Frá Gónhóli er gott útsýni yfir eldgosið í Geldingadölum og hafa ófáir landsmenn lagt leið sína þangað undanfarið. Nú er það ekki hægt lengur þar sem hraun hefur umkringt hólinn.

Upplýsingar um hraunflæðið bárust lögreglu rétt fyrir klukkan 9 í gærmorgun. Rögnvaldur Ólafsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá almannavörnum, segir rennsli hraunsins hafa verið viðbúið en lögreglan lokaði svæðinu fyrir nokkrum dögum af öryggisástæðum.

„Hraunið var komið upp fyrir hæðina á skarðinu þannig að það var bara tímaspursmál hvenær það myndi byrja að renna þarna yfir,“ segir Rögnvaldur.

Ekki er vitað til þess að neinn hafi lent í hættu á svæðinu enda var vont veður í gær og fáir á ferli. Lögreglan mun þó halda áfram að meta aðstæður og öryggi fólks við eldgosið.

Morgunblaðið fékk þær upplýsingar í gærkvöldi að staða mála væri óbreytt.