Hafnarfjörður Uppbygging frá Strandgötu séð, horft til suðurs.
Hafnarfjörður Uppbygging frá Strandgötu séð, horft til suðurs. — Tölvuteikning/Hafnarfjarðarbær
Nýjar hugmyndir að uppbyggingu í miðbæ Hafnarfjarðar voru kynntar á fundi bæjarráðs Hafnarfjarðar sl. fimmtudag.

Nýjar hugmyndir að uppbyggingu í miðbæ Hafnarfjarðar voru kynntar á fundi bæjarráðs Hafnarfjarðar sl. fimmtudag. Fyrri áform um uppbyggingu á 100 herbergja hóteli á Strandgötu 26-30 í Hafnarfirði hafa þróast í hugmyndir og áform um matvöruverslun og þjónustu á jarðhæð, nýtt bókasafn og margmiðlunarsetur, almenningsgarð á 2. hæð og hótelíbúðir í smáhýsum sem liggja við Strandgötuna.

Verkefnið er leitt af félaginu 220 Miðbær ehf. sem er eigandi byggingarreitsins. Gildandi deiliskipulag heimilar 6.400 fermetra nýbyggingu á fimm hæða hóteli með verslun og þjónustu á jarðhæð og tveggja hæða tengibyggingu milli hótels og verslunarmiðstöðvarinnar Fjarðar. Nýjar hugmyndir gera ráð fyrir að byggingarmassi verði færður inn á Fjarðargötu 13-15 og hús sem skapa götumynd Strandgötu verði lækkuð úr fimm hæðum niður í eina til þrjár með inndregna fjórðu hæð. Um er að ræða byggingarreit upp á 1.750 fermetra og hljóðar samþykkt deiliskipulag í dag upp á 5.980 fermetra byggingarmagn á lóð.

Í tilkynningu frá Hafnarfjarðarbæ segir að bæjarráð hafi tekið jákvætt í hugmyndir skipulagshöfunda og lagt sérstaka áherslu á að hugmyndin og hugmyndafræðin yrði vel kynnt bæjarbúum í næstu skrefum. Haft er eftir Rósu Guðbjartsdóttur bæjarstjóra að hún telji hugmyndirnar falla vel að umhverfinu, gömlu byggðinni og „sjarma“ bæjarins.